Category Archives: Allt

Fyrir Category Grid View Gallery.

Væringjar í fullum skrúða

Skátafélagið Væringjar

Væringjar í fullum skrúða

Væringjar í fullum skrúða í sínum upprunalegu búningum. Skátabúningurinn sem tekinn var upp eftir að Axel V. Tulinius tók við stjórn félagsins var græn blússa, dökkbláar buxur, blár klútur, grænir sokkar og skátahattur.

Skátahreyfingin á Íslandi fagnar um þessar mundir 100 ára starfsafmæli. Fyrsti skátaflokkurinn var stofnaður á Íslandi sumarið 1911 en starfsemi hans lagðist að mestu niður þá um haustið, er flokksforinginn Ingvar Ólafsson hélt utan til Danmerkur. Nokkrir ungir menn sem starfað höfðu með flokknum sumarið 1911 héldu þó hópinn og hinn 2. nóvember 1912 stofnuðu þeir Skátafélag Reykjavíkur. Miðast afmæli skátahreyfingarinnar við þau tímamót.

Dagbók Væringjafélagsins

Fyrsta færslan í elstu dagbók Væringjafélagsins frá árinu 1915.

Sumardaginn fyrsta árið 1913 stofnaði séra Friðrik Friðriksson sérstaka deild innan KFUM fyrir unga drengi og nefndist félagsskapurinn Væringjar. Í upphafi mun ætlunin ekki hafa verið að félagið yrði starfrækt sem skátafélag og til marks um það er t.d. að innblástur í búning félagsmanna var sóttur í íslenskar fornsögur. Séra Friðrik lýsti tilganginum með stofnun Væringja og viðfangsefnum þeirra í blaðinu Lilju, sem Væringjar gáfu út árið 1916:

Hugsjónir þeirra eru þær, að byrja snemma að æfa sig í ýmsum andlegum og líkamlegum íþróttum. Andlegu íþróttirnar, sem þeir eiga að temja sér, eru þær, að læra hlýðni, sannsögli, gott orðbragð, drengskap og kurteisi í framgöngu, sjálfsaga og sjálfsafneitun, trúmennsku í starfi sínu og iðni í námi sínu. Líkamlegu íþróttirnar eru ýmsar, t.d. skotfimi, skátaæfingar, leikfimi, sund og glímur o.s.frv. eftir því, sem þeir eldast og tæki eru til.

Karlmennska og hreysti í orði og verki, andleg og líkamleg, á að vera einkenni þeirra, og með öllu þessu eiga þeir að verða kristnir drengir, sem með fullri vitund og vilja eiga að læra öllu fremur, að elska Guð og þjóna konungi sínum, Jesú Kristi. Litirnir á einkennisbúningi þeirra minna þá stöðugt á þetta. Kyrtillinn, hvítur og blár, minnir þá á fósturjörðina, að þeir séu Íslendingar og vilji verða Íslandi góðir synir. Skikkjan, rauð og hvít, minnir á sakleysi go kærleika, og á það, að þeir eiga að verða stríðsmenn Krists og berjast vasklega á móti sollinum og öllum freistingum. Húfan, rauð og hvít og blá, minnir á Kristilegt félag ungra manna (K.F.U.M.), að verða því góðir liðsmenn og efla það og ástunda allar hugsjónir félagsins.

Séra Friðrik hélt utan í nóvember 1913 og varð að samkomulagi að Axel V. Tulinius, fyrrverandi sýslumaður, tæki að sér stjórn félagsins. Eftir að Axel tók við var starfsháttum að mörgu leyti breytt, og var félagið m.a. gert að formlegu skátafélagi. Tekinn var upp skátabúningur og félagið hóf að starfa eftir reglum Sir Robert Baden-Powells. Þegar leið á annan og þriðja áratug 20. aldar voru fleiri skátafélög stofnuð í landinu og tóku flest þeirra upp þann sið Væringja að nefna félögin sérstöku nafni, í stað þess að nefna félagið eftir þeim stað sem þau störfuðu á.

Heimildir

 • „Úr dagbók Væringjafélagsins“. Skátafélagið Væringjar 25 ára, 1913-1938. Útgefandi skátafélagið Væringjar. Reykjavík 1938.
 • ÞÍ. Skátasafn. Væringjafélagið í Reykjavík. Dagbók 1915-1927.
 • Skátavefurinn – Bandalag íslenskra skáta. “Skátahreyfingin berst til Íslands”. Vefslóð: http://www.scout.is/vefur/default.asp?ItemGroupID=8&ItemID=190.

 

Þetta efni er frá Þjóðskjalasafni Íslands

Algengt var um miðja síðustu öld að ferðast á vörubíl með „boddý“ á pallinum. Þarna eru unglingar að búa sig til ferðar frá Höfn

Unglingafélagið Velvakandi

Algengt var um miðja síðustu öld að ferðast á vörubíl með „boddý“ á pallinum. Þarna eru unglingar að búa sig til ferðar frá Höfn

Algengt var um miðja síðustu öld að ferðast á vörubíl með „boddý“ á pallinum. Þarna eru unglingar að búa sig til ferðar frá Höfn.

Á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar var starfandi á Höfn Unglingafélagið Velvakandi. Flestir unglingar á aldrinum milli fermingar og tvítugs munu hafa verið félagsmenn og nutu þeir aðstoðar Hallgríms Sæmundssonar kennara og æskulýðsfrömuðar. Strax á upphafsárum félagsins var ráðist í byggingu um 40m² húss í Laxárdal í Lóni sem í daglegu tali var nefnt „Skálinn“. Unglingarnir víluðu ekki fyrir sér að skreppa í Skálann af og til allan ársins hring og gista þar yfir nótt, þrátt fyrir langa göngu og oft í slæmri færð, því yfirleitt var ekki akfært alla leið.

Gestabók úr skálanum er varðveitt í Héraðsskjalasafninu þar sem m.a. má finna þessa færslu:

2. janúar 1959 fóru 13 félagar og fararstjóri hingað inn í skála.

Óli Júlíusson ók okkur inn að mýri en Jens Albertsson ók farangrinum inn í „skála“ frá vegamótunum. Var Bragi Gunnarsson með Jens en Páll Imsland sat uppá jappanum frá vegamótunum og inn í skála.

Bíllinn festist í læknum innan við hrygginn og náðist hann ekki fyrr en þeir sem komu gangandi komu til hjálpar, voru þá settar á hann keðjur og komst þá klakklaust það sem eftir var leiðarinnar. Voru þá stúlkurnar komnar inn eftir og byrjaðar að grafa snjóinn frá dyrunum, en fennt hafði fyrir alla suðurhliðina. Var þá dótið tínt út úr bílnum og fór hann svo úteftir. Um eittleytið komu svo þeir sem ókomnir voru, var þá tekið til í húsinu og borðað, svo fóru flestir út að renna sér á texplötum og aðrir á rassinum niður brekkurnar. Þá fóru allir inn að spila nema Hallgrímur sem labbaði inn í Hafradal. Síðan skemmtu menn sér við spurningakeppni.

Var þá skipt niður í vaktir og lögðust menn svo til svefns, en ekki sváfu víst allir vel og skemmtu sumir sér við að spila eða syngja. Fyrstur á vakt var Páll, þá Hildigerður og síðan hver af öðrum. Um hálfníuleytið voru þó allir komnir úr svefnpokunum og borðuðu og var þá tekið til við að spyrja aftur, en er menn ætluðu að ganga út hafði fennt fyrir dyrnar svo menn komust ekki út. Skreið þá Hildigerður út um gluggann og var hent reku á eftir og mokaði hún frá dyrunum. Um tólfleytið fóru menn að búa sig undir heimferðina.

Norðan stinnigskaldi, frost 6-8 stig, skafrenningur.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Austur-Skaftafellssýslu

Glímumenn

Að glíma fallega

Glímumenn

Glímumenn.

Á fyrstu árum tuttugustu aldar fór ungmennafélagshugsjónin um sveitir landsins eins og eldur um sinu. Í Austur-Skaftafellssýslu voru á þessum árum stofnuð ungmennafélög í hverjum hreppi. Meðal þess sem félögin höfðu á stefnuskrá sinni var að efla íþróttir, sem fram að þeim tíma höfði lítt verið stundaðar a.m.k. skipulega.

Eftirfarandi texti er úr grein birtist í Vísi, blaði ungmennafélagsins Mána í Nesjum í janúar 1909:

Íþróttir

…Hver ungur maður ætti að læra að glíma, og temja sér þegar í byrjun, að glíma vel og hugsa meira um að sýna listinni sóma með lipurð og fimleik, heldur en misþyrma henni með sviftingum og ofurkappi. Sá maður sem lærir að glíma, og vill læra að glíma fallega, má ekki eingöngu hafa það augnamið að standa sem fastast, heldur sýna list í að verjast mótstöðumanni sínum með lipurð, og kæra sig minna um þótt hann falli, því þótt mótstöðumaðurinn haldi velli er það ekki alltaf sönnun fyrir því að hann sé listfengari glímumaður en sá sem liggur.

Mér er óhætt að fullyrða að hver sá glímumaður, sem aðeins hefir það markmið fyrir augum að standa og fella mótstöðumann sinn, án tillits til listarinnar verður aldrei glímumaður, hvað oft sem hann æfir sig. Eins er með hvaða íþrótt sem er, að víðast þarf lipurð, og alltaf þurfa menn að hafa í huga að fegurðartilfinning fyrir því, að íþróttin sé leikin af list. Að þessu leyti eiga allar listir sammerkt.

Bjarni Guðmundsson.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Austur-Skaftafellssýslu

Liðsmenn Knattspyrnufélagsins Harðar og Fótboltafélags Ísafjarðar árið 1922

Knattspyrnufélagið Hörður

Liðsmenn Knattspyrnufélagsins Harðar og Fótboltafélags Ísafjarðar árið 1922

Liðsmenn Knattspyrnufélagsins Harðar og Fótboltafélags Ísafjarðar árið 1922. Síðarnefnda félagið var stofnað árið 1912 og höfðu piltarnir sem stofnuðu Hörð áður sótt æfingar hjá því félagi. Þegar knattspyrnulið bæjarins voru orðin tvö færðist mikið fjör í knattspyrnuiðkunina og voru kappleikir félaganna tíðir. Árið 1923 hætti Fótboltafélag Ísafjarðar að senda lið til keppni og var félaginu svo formlega slitið árið 1926. Eftir það hnignaði knattspyrnuiðkun um nokkurt skeið enda gátu Harðverjar þá einungis keppt innbyrðis og við gesti, t.d. erlenda sjóliða. Árið 1926 var hins vegar nýtt knattspyrnufélag, Vestri, stofnað af knattspyrnumönnum sem áður höfðu verið félagar í Fótboltafélagi Ísafjarðar.

Það var á vordögum 1919 sem 12 ungir menn komu saman í Sundstræti 41 á Ísafirði til að ræða stofnun knattspyrnufélags. Þeir höfðu áður sótt æfingar hjá Fótboltafélagi Ísafjarðar en fannst þörf á öðru félagi í bænum. Hlaut nýja félagið nafnið Knattspyrnufélagið Hörður og var fyrsta stjórnin skipuð Þórhalli Leóssyni formanni, Dagbjarti Sigurðssyni gjaldkera og Helga Guðmundssyni ritara.

Lengi vel hafði Hörður aðeins einn flokk fullorðinna en árið 1931 voru settir á stofn 2. og 3. flokkur og varð sá hópur pilta afar sigursæll er fram liðu stundir. Fram til 1933 var knattspyrna eina íþróttagreinin sem stunduð var innan félagsins en þá var stofnuð sérstök handknattleiksdeild stúlkna. Vorið 1937 gekkst Hörður fyrir námskeiði í frjálsum íþróttum og í kjölfarið eignaðist félagið fjölmarga snjalla frjálsíþróttamenn sem áttu Íslandsmet í sínum greinum og kepptu fyrir Íslands hönd á alþjóðavettvangi. Um og eftir 1940 var farið að stunda fimleikar og glímu innan vébanda félagins og um svipað leyti var farið að ræða stofnun skíðadeildar. Byggður var skíðaskáli í samvinnu við Skíðafélag Ísafjarðar og gjörbreyttist þá til hins betra öll aðstaða til að stunda skíðaíþróttina. Eignuðust Harðverjar marga afreksmenn á skíðum, konur og karla, sem urðu margfaldir Íslandsmeistarar og kepptu á alþjóðamótum, m.a. Ólympíuleikum.

Knattspyrnuleikur á Hrossataðsvöllum á Ísafirði um 1925

Knattspyrnuleikur á Hrossataðsvöllum á Ísafirði um 1925. Líklegt er að þarna hafi lið Fótboltafélags Ísafjarðar og Knattspyrnufélagsin Harðar att kappi hvort við annað. Vorið 1913 fékk Fótboltafélag Ísafjarðar heimild bæjarstjórnar til að ryðja sér leikvöll og setja upp markstangir á ytri hluta Eyrartúnsins. Leikvöllurinn var ruddur á svokölluðum Hrossataðsvöllum og þar var aðalknattspyrnuvöllur bæjarins um árabil, eða þar til Ísfirðingar gáfu sjálfum sér nýjan knattspyrnuvöll á Torfnesi í tilefni af aldarafmæli Ísafjarðarkaupstaðar árið 1966.

Hörður starfaði af krafti fram á seinni hluta 20. aldar en þá tók að draga af félaginu og undir lok aldarinnar var lítil starfsemi í gangi. Þá kom til sögunnar maður að nafni Hermann Níelsson, íþróttakennari, sem hafði verið alinn upp í Herði þegar starf félagsins var sem blómlegast. Tókst honum, ásamt samstarfsmönnum sínum, að byggja upp öfluga glímusveit innan félagsins jafnframt því sem teknar voru upp að nýju æfingar í frjálsum íþróttum og handbolta. Í dag, þegar styttist í aldarafmæli félagsins, starf Hörður af miklum krafti í þessum íþróttagreinum.

 

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Ísfirðinga

Úr gjörðabók Mánans

Knattspyrnufélag ungra drengja á Sauðárkróki

Úr gjörðabók Mánans

Úr gjörðabók Mánans.

Annan dag hvítasunnu árið 1939 hittist hópur ungra drengja á Sauðárkróki og stofnuðu með sér knattspyrnufélag. Hafði drengjunum ekki þótt nóg að gert til stuðnings knattspyrnuiðkunnar sinnar, þótt starfandi væri í bænum Ungmennafélagið Tindastóll, en þar réðu þeir eldri lögum og lofum.

Höfðu þeir nokkuð við, sömdu ítarleg lög og stunduðu síðan æfingar að kappi um nokkurt skeið. Félagið hlaut nafnið Knattspyrnufélagið Máninn, skammstafað K.F.M. og var innsigli þess hálfur máni. Félagið hélt gjörðabók sem bar að varðveitast í kassa með loki og félagið mun hafa átt einn fótbolta, sem kom auðvitað að góðum notum, þótt hann ætti til að springa með tilheyrandi fjárútlátum fyrir félagið.

Merki Mánans

Merki Mánans.

Lög félagsins bera með sér nokkra einræðistilburði ráðamanna. Þannig var formaður æðstaráð og dómstóll í öllum deilumálum og brot gegn félagssamþykktum vörðuðu brottrekstri. Þó mátti veita brotlegum inngöngu aftur „enda sé um algerða iðrun og yfirbót að ræða.“

Félagið starfaði til ársins 1942 og fer engum sögum af sigrum eða ósigrum félagsmanna en formlega var félagið lagt niður árið 1944, „gjörvöllu hreppsfélagi voru til ósegjanlegrar hryggðar“, eins og segir í sérstöku bréfi í tilefni niðurlagningarinnar. Sjóður félagsins sem taldi 145,03 krónur var afhentur Rauða krossi Íslands og gerðu gefendur ráð fyrir því að fé þetta yrði upphaf að sjóði til kaupa á sjúkrabifreið „svo auðvelt megi reynast að flytja úr víðlendu héraði voru mörgum hvillum plagaðra meðbræðra vorra og koma þeim skjótlega undir hendur þess manns eða manna, sem með kunna fara“. Hefur sjóðurinn eflaust komið að góðum notum, að minnsta kosti eignuðust Skagfirðingar sjúkrabíl og hafa drengirnir á Sauðárkróki þar lagt sinn skerf að mörkum.

Þess ber að geta að fullgildir félagsmenn þessa merkilega voru vel á þriðja tug og greiddu þeir gjald til félagsins 25 aura í senn. Heldur fækkaði félagsmönnum eftir því sem á leið, enda ýmislegt fleira nytsamlegt með peninga að gera á þessum tíma. Félagsmenn voru flestir á aldrinum 7-10 ára í upphafi og var fyrsti formaður Snorri Sigurðsson, sýslumanns á Sauðárkróki, þar í hópi elstu manna 10 ára að aldri.

Fórur félagsins bárust til Héraðsskjalasafns Skagfirðinga nú nýverið um hendur sr. Árna Sigurðssonar sem gegndi um tíma starfi gjaldkera félagsins.

 

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Skagfirðinga

Sprækir skátar á toppi Tindastóls

Eitt sinn skáti…

Skagfirskir skátar

Skagfirskir skátar.

Hinn 22. mars 1929 var stofnað skátafélag á Sauðárkróki og fékk það nafnið Andvarar. Rekja má stofnun félagsins til áhuga héraðslæknisins Jónasar Kristjánssonar, sem síðar stóð fyrir stofnun Náttúrulækningafélags Íslands. Jónas var mikill áhugamaður um tóbaksbindindi og stofnaði ásamt ungu fólki á Sauðárkróki Tóbaksbindindisfélag í byrjun sama árs. Taldi hann að skátahreyfingin væri hentugur vettvangur til að útbreiða baráttuna gegn tóbakinu, auk þess sem það hefði góð áhrif á siðferði ungs fólks. Var félaginu skipt í þrjá flokka: Fálka, Þresti og Svani.

Helsti forystumaður skáta á Sauðárkróki um árabil var Franch Michelsen, síðar úrsmiður í Reykjavík. Franch var hjartað og sálin í félagsskapnum og stóð fyrir margvíslegum samkomum og ferðalögum að skátahætti. Árið 1932 stóð félagið að útgáfu skátablaðsins Hegrinn og var það fyrsta blaðið sem skátahreyfingin á Íslandi gaf úr. Var blaðið fjölritað í nokkrum eintökum og kom út þrívegis á því ári og einu sinni á árinu 1933. Ári síðar hófu Andvarar útgáfu Skátablaðsins sem einnig var fjölritað í 400 eintökum og kom út undir merkjum þess um tíma. Franch Michelsen var ritstjóri allra blaðanna og höfundur megin þorra textans. Fyrir nokkrum árum gaf sr. Sigurður Helgi Guðmundsson eintök af þessum blöðum á Héraðsskjalasafni Skagfirðinga fagurlega innbundin, en ekki er vitað til þess að þessi útgáfa sé annars staðar til í heilu lagi.

Sprækir skátar á toppi Tindastóls

Sprækir skátar á toppi Tindastóls.

Eftir fjallgöngu á Tindastól vorið 1929 orti Friðrik Hansen barnakennari og skáld á Sauðárkróki þennan brag undir laginu Öxar við ána. Var hann prentaður í blaði félagsins og oft sunginn á ferðum þess:

Andvarinn líður
ljúfur og þýður
blessar og hressir um dali og strönd.
Fram upp til fjalla
fossarnir kalla,
finnið og skoðið hin vorgrænu lönd.
Áfram, Andvarar glaðir.
Áfram, klífið Tindastól.
Fylkið, fjallagestir,
Fálkar, Svanir, Þrestir,
þétt og djarft með sumri og sól.

Skátafélagið Andvarar var mikilvægur kvistur í lífstrénu á Sauðárkróki á árum kreppu og fátæktar eða eins og Kristmundur Bjarnason segir í Sögu Sauðárkróks: „átti sinn þátt í að eyða deyfð og drunga, hættulegum fylgikvillum atvinnuleysis og örbyrgðar. Andvarar eygðu „hin vorgrænu lönd“.

Heimildir

 • Kristmundur Bjarnason: Saga Sauðárkróks III, bls. 241-248. Hegrinn (fjölrit) 1932-1933. Skátablaðið (fjölrit), 1934.

 

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Skagfirðinga

Kátir krakkar á barnadegi Léttis árið 1973

Æskulýðsstarf hjá Hestamannafélaginu Létti

Kátir krakkar á barnadegi Léttis árið 1973

Kátir krakkar á barnadegi Léttis árið 1973.

Framanaf var barna- og unglingastarf innan félagins ekki með reglulegum hætti en á aðalfundi 1989 var skipað unglingaráð, sem falið var að skipuleggja þennan þátt félagsstarfsins. Stofnuð var unglingadeild fyrir aldurshópinn 5 – 16 ára og reynt að finna sem flesta fleti á starfinu svo krakkar á öllum aldri fyndu eitthvað við sitt hæfi. Á þeim tíma var óvíða komið unglingastarf hjá öðrum hestamannafélögum og fátt sem hægt var að hafa til hliðsjónar í þeim efnum.

Reiðnámskeið hafa síðan verið fastir liðir í starfinu, bæði á sumrin og á veturna. Í boði eru bæði námskeið fyrir byrjendur og svo námskeið fyrir krakka sem hafa einhverja reynslu en þá er farið í flóknari þætti, s.s. um reglur á mótum.

Knapar framtíðarinnar

Knapar framtíðarinnar. Mynd frá reiðnámskeiði í júní 1999.

Unglingadeildin hefur oft staðið fyrir ferðalögum, bæði reiðtúrum með grillveislum og rútferðum s.s. í Laufskálarétt.

Fyrsta mótið sem unglingadeildin stóð fyrir var haldið 11. júní 1989 og þótti takast mjög vel. Mun það hafa verið í fyrsta skipti sem sérstakt mót var haldið fyrir unglinga en myndband frá því móti var notað við kynningar á unglingastarfi hjá hestamannafélögum víðsvegar um landið.

Sýningar hafa líka verið snar þáttur í starfsemi unglingadeildarinnar enda hafa þær þann kost að nær allir krakkar geta tekið þátt í þeim, hvar svo sem þau eru stödd í reiðlistinni.

Loks er það félagshesthúsið Fjöðrin en húsið var keypt árið 1990 með það að markmiði að börn og unglingar gætu haft þar hesta ef þau ættu ekki kost á plássi annars staðar. Áhugasamir krakkar gátu fengið hest að láni en krakkarnir skiptu á milli sín hirðingu hrossanna, undir eftirliti húsvarðar. Núna hefur þessi þáttur unglingastarfsins fallið niður og húsið verið selt.

Heimild

 • F-128/93. Hestamannafélagið Léttir. Guðrún Hallgrímsdóttir: Æskulýðsstarf hjá Létti.

Hér má sjá gögn í skjalaskrá Héraðsskjalasafnsins á Akureyri um efnið.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafninu á Akureyri

Níu ára drengir í Skíðaráði Akureyrar í verðlaunasætum (10) vorið 1990

Andrésar Andar leikarnir á Akureyri

Níu ára drengir í Skíðaráði Akureyrar í verðlaunasætum (10) vorið 1990

Níu ára drengir í Skíðaráði Akureyrar í verðlaunasætum (10) vorið 1990.

Andrésar Andar leikarnir á Akureyri voru fyrst haldnir 3.-4. apríl 1976. Hugmyndin var nokkuð eldri en hún varð til á kaffistofu Almennra trygginga í Hafnarstræti. Það var meira fyrir tilviljun að margir þeirra sem unnu í húsinu og hittust í kaffistofunni voru áhugasamir um skíðaíþróttina og tengdust henni á einhvern hátt. Þá voru ekki landsmót fyrir yngstu aldurshópana og svo til eingöngu keppt í þeim flokkum heima í héraði en það var vilji ,,kaffiklúbbsins” að efna til barnamóts á skíðum fyrir allt land. Eftir nokkrar bollaleggingar og umræður kom til tals að tengja mótið Andrési Önd og leyfi til þess að nota Andrés var auðsótt.

Það var kaffiklúbburinn sem skipaði að verulegu leyti fyrstu framkvæmdanefndina og þeir aðilar unnu síðan að leikunum í fjöldamörg ár. Auk framkvæmdanefndarinnar koma mjög margir sjálfboðaliðar að mótinu, svo allt gangi upp. Aðeins einu sinni síðan 1976 hafa leikarnir fallið niður en það var árið 2003.

Sigurvegarar í stökki 11 ára drengja vorið 1992

Sigurvegarar í stökki 11 ára drengja vorið 1992. F.v. Þórarinn Jóhannsson Akureyri, Björgvin Björgvinsson Dalvík, Hjörtur Jónsson Akureyri.

Fyrsta árið voru 148 keppendur skráðir til leiks en fljótlega fór þeim fjölgandi og hin seinni ár hafa keppendur verið á bilinu 700 til 800. Andrésar leikarnir eru því lang fjölmennasta skíðamót landsins.

Fyrsta mótsskráin

Fyrsta mótsskráin.

Í fyrstu var einungis keppt í svigi og stórsvigi drengja og stúlkna en frá árinu 1980 hefur einnig verið keppt í göngu. Um tíma var keppt í stökki drengja en það var lagt niður og í staðinn kom risasvig. Síðar kom inn leikjabraut, án tímatöku, og þrautabraut í göngu og nú er einnig farið að keppa á brettum. Margt af þekktasta skíðafólki landsins byrjaði feril sinn á leikunum og má þar nefna fólk eins og Björgvin Björgvinsson, Nönnu Leifsdóttur, Kristin Björnsson, Guðrúnu H. Kristjánsdóttur, Daníel Hilmarsson og Guðrúnu Jónu Magnúsdóttur. Guðrún Jóna sigraði bæði í svigi og stórsvigi í sínum aldursflokki fimm ár í röð 1976-1980.

Stutt saga frá Andrésar-móti 1995

Merki Andrésar Andar leikanna á Akureyri

Merki Andrésar Andar leikanna á Akureyri.

Það er mikil stemmning í kringum unga skíðafólkið, gleðin skín úr nær hverju andliti í fjallinu og þá sérstaklega þeirra yngstu. Ég spurði eina sjö ára stúlku hvernig henni hefði gengið í sviginu. ,,Jú, bara mjög vel,” sagði hún. Ég spurði þá númer hvað hún hefði orðið. Og ekki stóð á svarinu: ,,Númer sautján.” Síðar kom í ljós að rásnúmer hennar var sautján. Það var jú aðalmálið hjá þeirri stuttu að vera með. Tíminn í brautinni skipti hana engu máli.

 

Heimildir:

 • F-339/4. Andrésar Andar leikarnir. Hermann Sigtryggsson: „Andrésar Andar leikarnir á Akureyri 30 ára“. Úrslit 20. – 23. apríl 2005.
 • F-339/11. Andrésar Andar leikarnir. Margrét Blöndal: „Andrésar Andar leikarnir 35 ára“. Andrésar Andar leikarnir 2010. 1:1, 2010. Morgunblaðið.
 • Valur B. Jónatansson: „Andrés“ Morgunblaðið 25. apríl 1995, 2D.

Hér má sjá gögn í skjalaskrá Héraðsskjalasafnsins á Akureyri um efnið.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafninu á Akureyri

Sundskáli Svarfdæla

Sundskáli Svarfdæla

Sundskáli Svarfdæla

Sundskáli Svarfdæla.

Sundskáli Svarfdæla var vígður sumardaginn fyrsta, 25. apríl 1929. Helsti hvatamaður að byggingu hans var Kristinn Jónsson sem þá kenndi sund í Svarfaðardal og á Dalvík. Það var einnig hann sem benti á hentuga staðsetningu við volgar uppsprettur í landi Tjarnargarðshorns. Bygging sundskálans tók tvö ár og var að miklu leyti unnin í sjálfboðavinnu félaga í ungmennafélögum í Svarfaðardal og Dalvík. Sveinbjörn Jónsson á Akureyri var byggingarmeistari og Arngrímur Jóhannesson á Dalvík yfirsmiður. Stærð laugarinnar er 12,5 x 5 m.

Sundskálabyggingin er um margt merkileg. Hún er ein af fyrstu yfirbyggðum sundlaugum í landinu og þak hennar er steinsteypt. Það þótti einstætt afrek á sínum tíma að bygging af þessu tagi reis í fámennu byggðarlagi. Svo vel var að byggingunni staðið að engar skemmdir urðu á húsinu þegar jarðskjálfarnir dundu yfir Dalvík og Svarfaðardal 1934. Sundskálinn var í mikilli og samfelldri notkun bæði til kennslu og fyrir almenning. Hann var endurbyggður árið 1988 og er ennþá í notkunarhæfu ástandi.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Svarfdæla

 

Fyrstu lög Íþróttafélagsins Þróttar

Íþróttafélagið Þróttur

Íþróttafélagið Þróttur var stofnað hinn 5. júlí 1923 á Norðfirði. Hinn 10. september sama ár voru lög félagsins samþykkt á félagsfundi og voru lögin þegar undirrituð af 59 félagsmönnum sem teljast stofnfélagar Þróttar.

Fyrstu lög Íþróttafélagsins Þróttar

Fyrstu lög Íþróttafélagsins Þróttar.

Knattspyrnulið Þróttar árið 1927

Knattspyrnulið Þróttar árið 1927. Myndin er tekin að afloknum leik við Héraðsmenn á sumarsamkomu Egils rauða.

Handboltalið Þróttar árið 1942 ásamt Stefáni Þorleifssyni þjálfara liðsins

Handboltalið Þróttar árið 1942 ásamt Stefáni Þorleifssyni þjálfara liðsins. Ljósmynd: Björn Björnsson.

Íþróttafélagið Þróttur er með mikla starfsemi í öllum greinum íþrótta í Neskaupstað.

Heimildir

 • Smári Geirsson. Norðfjarðarsaga II, síðari hluti frá 1895-1929.
 • Gerðabækur og gögn félagsins í vörslu Héraðsskjalasafns Neskaupstaðar.
 • Myndir í eigu og vörslu Skjala- og myndasafns og Héraðsskjalasafns Neskaupstaðar.

 

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Neskaupstaðar