Category Archives: Allt

Fyrir Category Grid View Gallery.

Á sumarsamkomu Ungmennafélagsins Egils rauða í Kirkjubólsteigi árið 1922.

Ungmennafélagið Egill rauði

Á sumarsamkomu Ungmennafélagsins Egils rauða í Kirkjubólsteigi árið 1922.

Á sumarsamkomu Ungmennafélagsins Egils rauða í Kirkjubólsteigi sennilega árið 1922. Á myndinni sjást tjöld sem reist voru vegna sölu veitinga og fjær eru hestar samkomugesta á beit. Ljósmynd: Björn Björnssson.

Hinn 13.júní 1915 var ungmennafélag stofnað í Norðfjarðarsveit er nefnt var „Ungmennafélagið Egill rauði“. Þá þegar gerðust 22 einstaklingar, 13 karlar og 9 konur, stofnfélagar.

Fyrstu árin sem Ungmennafélagið Egill rauði starfaði undirrituðu nýir félagar eftirfarandi skuldbindingar:

Ég undirritaður meðlimur þessa félags, skuldbind mig til, að vinna að því, að fremsta megni að útrýma allri tóbaks nautn að svo miklu leyti sem hægt er.

Hindra blót og ljótan munnsöfnuð, áfengisnautn og allt sem er siðspillandi. Ég skal vinna af alhug að heill þessa félags, framförum sjálfs míns, andlega og líkamlega og að velferð og sóma þjóðarinnar í öllu því, sem þjóðlegt er, gott og gagnlegt. – Lögum og fyrirskipunum félagsins vil ég í öllu hlýða og leggja fram krafta mína sérplægnislaust til allra þeirra starfa er mér kynni að verða falið á hendur að vinna fyrir félagið.

Meðal þeirra verkefna sem Ungmennafélagið Egill rauði stóð fyrir um áraraðir voru sumarsamkomur í Kirkjubólsteigi í Norðfirði.

Um tíma gaf Ungmennafélagið Egill rauði út handskrifað félagsblað, Vorboða, sem hóf göngu sína árið 1917.

Forsíða fyrsta tölublaðs Vorboða

Forsíða fyrsta tölublaðs Vorboða.

Ungmennafélagið Egill rauði er enn starfandi árið 2012.

Heimildir

 • Smári Geirsson. Norðfjarðarsaga II, síðari hluti frá 1895-1929.
 • Gerðabækur og gögn félagsins í vörslu Héraðsskjalasafns Neskaupstaðar.
 • Myndir í eigu og vörslu Skjala- og myndasafns og Héraðsskjalasafns Neskaupstaðar.

 

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Neskaupstaðar

 

Upphaf fundargerðar stofnfundar Ungmennafélags Norðfjarðar

Ungmennafélag Norðfjarðar

Upphaf fundargerðar stofnfundar Ungmennafélags Norðfjarðar

Upphaf fundargerðar stofnfundar Ungmennafélags Norðfjarðar.

Hinn 16.október 1910 var haldinn fundur í Góðtemplarahúsinu á Nesi í Norðfirði í þeim tilgangi að ræða stofnun ungmennafélags í byggðarlaginu. Fundarboðendur voru þeir Valdimar Sigmundsson Long skólastjóri og Guðmundur Halldórsson.

Á fundinum rakti Guðmundur Halldórsson sögu ungmennafélagshreyfingarinnar á Íslandi en þegar hann hafði lokið máli sínu greindi Valdimar frá stefnu og starfsemi ungmennafélaganna. Þegar fundarboðendur hofðu flutt framsöguerindi sín var skorað á fundarmenn að gerast félagar í ungmennafélagi sem stofnað yrði á fundinum og gáfu sig strax fram 25 menn sem undirrituðu skuldbindingaskrá Ungmennafélags Íslands. Því næst var félagið stofnað og fór þegar fram stjórnarkjör. Valdimar Sigmundsson var kjörinn formaður félagsins, Hjálmar Ólafsson ritari og Jónas Andrésson gjaldkeri. Hinni nýkjörnu stjórn var falið að semja lög félagsins.

1. gr. Félagið heitir „Ungmennafélag Norðfjarðar“.

2. gr. Tilgangur félagsins er þessi:

1. Að reyna af alefli að vekja löngun hjá æskulýðnum til þess að vinna að frelsi, framförum og heill sjálfra sín og þjóðfélagsins.

2. Að temja sér að beita starfskröftum sínum bæði innan félags og utan.

3. Að reyna af fremsta megni að styðja vernda og efla allt það sem þjóðlegt er, gott og gagnlegt, og annað það, sem horfir til gagns og sóma íslensku þjóðinni. Sérstaklega skal lögð stund á að fegra og hreinsa móðurmálið.

3. gr. Að tilgangi sínum vinnur félagið meó því að halda fundi og umræður fari fram, upplestur, söngur, íþróttir og annað það, sem lýtur að líkamlegu og andlegu atgerfi.

4. gr. Félagar geta þeir einir orðið sem eru heimilisfastir innan þessa héraðs og eru 14 ára að aldri, vilja vita starf sitt á kristilegum grundvelli og gangast undir skuldbingingaskrá U .M.F. Íslands.

Unnið að byggingu sundlaugar er Ungmennafélagið Norðfiðingur hóf að byggja árið 1912

Unnið á vegum Málfundafélagsins Austra árið 1920 að byggingu sundlaugarinnar er Ungmennafélagið Norðfiðingur hóf að byggja árið 1912.

Eitt af verkefnum félgasins var að hefja framkvæmdir við byggingu sundlaugar á Norðfirði árið 1912, sem var þó ekkki lokið við fyrr en 1920 og þá að frumkvæði Málfundafélagsins Austra á Norðfirði.

Ekki eru til heimildir um starfsemi Ungmennafélags Norðfjarðar eftir árið 1913. Vera kann að félagið hafi starfað eitthvað lengur en víst er að á árinu 1913 dró verulega úr þeim krafti sem verið hafði í félagsstarfinu.

Heimildir

 • Smári Geirsson. Norðfjarðarsaga II, síðari hluti frá 1895-1929.
 • Gerðabækur og gögn félagsins í vörslu Héraðsskjalasafns Neskaupstaðar.
 • Myndir í eigu og vörslu Skjala- og myndasafns og Héraðsskjalasafns Neskaupstaðar.

 

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Neskaupstaðar

 

Sigurjón Pétursson stingur sér til sunds

Íþróttaskólinn á Álafossi

Sigurjón Pétursson stingur sér til sunds

Sigurjón Pétursson stingur sér til sunds af hærri dýfingarpallinum. Úr myndasafni Péturs Sigurjónssonar.

Telja má að sá maður sem mest áhrif hafði á íþróttaiðkun Mosfellinga í upphafi 20. aldar hafi verið Sigurjón Pétursson sem kenndur var við Álafoss.

Sigurjón taldi sund vera allra meina bót og sá möguleikana í ylvolgri Varmánni til ýmiskonar sundiðkunar. Hann útbjó búningaaðstöðu við ána og var skáli vígður 12. júní 1927 Morgunblaðið greindi m.a. svo frá:

Á sunnudaginn 12. júní 1927 … verður opnaður nýr sundskáli að Álafossi í Mosfellssveit. Við það tækifæri verða margar sundþrautir háðar. …

Þar verður sýnt Kafsund, björgun, skriðsund, lífgunartilraunir.

Knattleikur í vatni sýndur í fyrsta sinn á Íslandi. – Stúlkur sýna björgun og ýmis sund. ….

(Saga Mosfellsbæjar, bls. 305)

Árið 1928 tók íþróttaskóli fyrir börn og unglinga til starfa. Hann var starfræktur á Álafossi að undirlagi Sigurjóns.

Í skólanum var sund ásamt leikfimi í fyrirrúmi, þar sem sundaðstaðan við ána gegndi lykilhlutverki. Þar hafði Sigurjón látið reisa tvo dýfingarpalla 2. og 3. metra háa og var reglulega keppt í sundi, sundknattleik og dýfingum. Þá var byggt hús fyrir nemendur íþróttaskólans og útipallur sem gegndi bæði hlutverki við íþróttaiðkun og í sýningum.

Andanum í skólanum er best lýst af Guðjóni Hjartarsyni sem dvaldi í skólanum árið 1936 þá 9 ára gamall:

Sigurjón stjórnaði þessu mikið sjálfur. Dagurinn hófst með fánahyllingu, sem var mikil og hátíðleg athöfn, nánast eins og sjá má í skátabúðum. Okkur drengjunum var stillt upp í röð. Við stóðum teinréttir og fáninn var hylltur eftir vissum mjög formföstum reglum. Að því búnu var framreiddur morgunverður, sem var hafragrautur, rúgbrauð og lýsi.

Deginum var skipt í það sem nú kallast annir, en þær voru sund, leikfimi og gönguferðir. Hápunktur sumarsins var Fánadagurinn, sem var íþróttamót og skemmtun.

(Saga Mosfellsbæjar, bls. 307-308)

Glímumenn, sjá má verksmiðjuhúsin á Álafossi í baksýn. Úr myndasafni Péturs SigurjónssonarGrímur Norðdahl frá Úlfarsfelli og Jón Sturluson frá Fljótshólum í glímutökum. Úr myndasafni Gríms NorðdahlSigurjón Pétursson stingur sér til sunds af hærri dýfingarpallinum. Úr myndasafni Péturs SigurjónssonarTvö sundknattleikslið við búningsaðstöðuna á Álafossi. Úr myndasafni Péturs SigurjónssonarKeppni í sundknattleik í fullum gangi. Úr myndasafni Péturs SigurjónssonarStúlkur sýna leikfimiæfingar á sýningarpallinum við áhorfendabrekkuna. Úr myndasafni Péturs SigurjónssonarBörn sýna leikfimiæfingar á svæðinu fyrir neðan sýningarpallinn. Til hægri má sjá í sundlaugarbygginguna í byggingu. (Nú þekkt sem stúdíó Sigurrósar). Úr myndasafni Péturs SigurjónssonarStangarstökk. Úr myndasafni Gríms NorðdahlStúlkur sýna fimiæfingar á hesti. Fyrir neðan sýningarpallinn. Úr myndasafni Péturs SigurjónssonarMenn sýna fimiæfingar á svifrá. Úr myndasafni Péturs Sigurjónssonar

Heimild

 • Bjarki Bjarnason og Magnús Guðmundsson, Mosfellsbær, saga byggðar í 1100 ár. Reykjavík 2005.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Mosfellsbæjar

 

Fyrsta opna bókarinnar

Mótabók Aftureldingar og Drengs

Fyrsta opna bókarinnar

Fyrsta opna bókarinnar.

Bókin er einn mesti dýrgripur Héraðsskjalasafns Mosfellsbæjar og segja má að umbúnaður hennar sé ekki minni dýrgripur, en bókin liggur í trékassa sem útskorinn er af Ríkharði Jónssyni myndhöggvara og tréskurðarlistamanni. Þar fyrir utan koma tveir járnkassar.

Á fyrstu síðu bókarinnar er að finna kvæði eftir Björn Bjarnarson bónda, hreppsnefndar- og alþingismann frá Grafarholti í Mosfellssveit.

Á sömu opnu er skrautrituð lýsing á bókinni, rituð af Steindóri Björnssyni sem kenndi sig við Gröf og var sonur Björns frá Grafarholti. Þess ber að geta að Steindór skrifaði sjö fyrstu mótin í bókina.

Fyrsta mótið sem getið er í bókinni var haldið á Mógilsáreyrum í Kollafirði 14. júlí 1918 milli keppenda frá Ungmennafélögunum Aftureldingu og Drengs úr Kjós. Keppendur voru 19 talsins og keppt var í fimm greinum, íslenskri glímu, langstökki, hástökki, 100m hlaupi og 50m sundi.

Síðasta mót sem skráð er í bókina er frá 1953 og var haldið á Leirvogstungubökkum. Keppendur voru 16 talsins og keppt var í 7 greinum, 100m hlaupi, kúluvarpi, kringlukasti, hástökki, langstökki, spjótkasti og 3000m hlaupi. Auk Ungmennafélaganna Aftureldingar og Drengs tók Ungmennafélag Kjalnesinga nú einnig þátt í mótinu.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Mosfellsbæjar

 

Leikfimihópur stúlkna í Vestmannaeyjum um miðjan fjórða áratug síðustu aldar

Leikfimihópur stúlkna í Vestmannaeyjum um miðjan fjórða áratug síðustu aldar

Leikfimihópur stúlkna í Vestmannaeyjum um miðjan fjórða áratug síðustu aldar

Leikfimihópur stúlkna í Vestmannaeyjum með þjálfara sínum um miðjan fjórða áratug síðustu aldar.

Nokkru fyrir miðja tuttugustu öld þjálfaði Loftur Guðmundsson ungar stúlkur í Vestmannaeyjum í leikfimi. Á myndinni er hann í hópi stúlknanna sem hann þjálfaði.

Aftari röð frá vinstri: Erna Árnadóttir Bifröst, Erla Ísleifsdóttir, Loftur Guðmundsson, þjálfari og rithöfundur, Magnea Waage og Sesselja Einarsdóttir.

Í miðjunni er Stefanía Sigurðardóttir.

Fremri röð frá vinstri: Fanney Vilhjálmsdóttir, Sigríður Bjarnadóttir Hoffelli og Lóa Ágústsdóttir Baldurshaga.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja

 

Knattspyrnumenn úr Íþróttafélaginu Þór í Vestmannaeyjum í kringum 1925-1930

Karl Vilmundarson

Knattspyrnumenn úr Íþróttafélaginu Þór í Vestmannaeyjum í kringum 1925-1930

Knattspyrnumenn úr Íþróttafélaginu Þór í Vestmannaeyjum um 1925-1930.
Efsta röð frá vinstri: Þórarinn Guðmundsson frá Háeyri, Óskar Valdason Sandgerði, Tómas Snorrason Hlíðarenda, Aðalsteinn Gunnlaugsson Gjábakka, Skarphéðinn Vilmundarson Hamri (frá Hjarðarholti).
Miðröð frá vinstri: Haraldur Sigurðsson Pétursborg, Þorgeir Sturluson Valhöll og Gísli Finnsson.
Fremsta röð frá vinstri: Oddgeir Kristjánsson Heiðarbrún, Sigurjón Helgason Lambhaga og ólympíufarinn Karl Vilmundarson Hjarðarholti.

Síðastur íslensku frjálsíþróttamannanna til þess að keppa á Ólympíuleikunum í Berlín 1936 var Karl Vilmundarson frá Hjarðarholti (1909-1983). Hann keppti í tugþraut. Þátttaka hans í þrautinni varð hins vegar endaslepp, og hann hætti eftir tvær greinar. Hann missti af 100 metra hlaupinu, en fékk þó að hlaupa einn og varð útkoman eftir því. Langstökkið gekk ekki betur, og gerði hann tvö stökk ógild. Þriðja stökkið mældist svo ekki nema 5,62 metrar, sem olli Karli slíkum vonbrigðum að hann hætti keppni. Karl var hins vegar fyrsti íslenski tugþrautarkappinn og náði sem slíkur góðum árangri, er nálgast það besta og varð methafi í vissum greinum frjálsra íþrótta. Karl var auk þess mjög snjall knattspyrnumaður.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja

 

Sigurður Sigurðsson

Sigurður Sigurðsson

Sigurður Sigurðsson

Sigurður Sigurðsson.

Sigurður Sigurðsson (1914-1982) frá Hólmi í Vestmannaeyjum var einn fremsti íþróttamaður Íslendinga á sinni tíð og því var vel við hæfi að hann væri í hinum stóra og glæsilega hópi sem Ísland sendi á Ólympíuleikana í Berlín árið 1936. Það sýndi sig að þetta var rétt ákvörðun, því Sigurður stóð sig best allra íslensku þátttakendanna. Hann varð fyrstur Íslendinga til þess að komast í undanúrslit á Ólympíuleikum og setti jafnframt Íslandsmet sem stóð í 10 ár.

Sigurður var einn fjögurra frjálsíþróttamanna sem Ísland sendi á leikana og keppti bæði í hástökki og þrístökki. Hann jafnaði Íslandsmetið í hástökki með því að stökkva 1,80 metra, en komst svo ekki í undanúrslit, til þess hefði hann þurft að stökkva 1,85. Til þess að komast í aðalkeppnina í þrístökkinu þurfti Sigurður að stökkva yfir 14 metra og það tókst í annarri tilraun. Stökkið var viðurkennt sem Íslandsmet, en svo gekk honum ekki eins vel í aðalkeppninni, stökk „aðeins“ 13,68 metra og varð 22 í röðinni í keppninni. Afrek hans í undanúrslitunum réttlætti þó fullkomlega þátttöku Íslendinga á leikunum og verður lengi í minnum haft. Hafa verður í huga að íslensku þátttakendurnir komu frá litlu landi þar sem aðstæður til iðkunar íþrótta voru mjög frumstæðar á þessum tíma og allt íþróttalíf miklum erfiðleikum háð.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja

 

Friðrik Jesson

Friðrik Jesson

Friðrik Jesson

Friðrik Jesson.

Friðrik Jesson (1906-1992) var íþróttakennari, ljósmyndari og forstöðumaður Náttúrugripasafnsins í Vestmannaeyjum um áratuga skeið. Á yngri árum keppti hann í ýmsum íþróttagreinum og varð margfaldur Íslandsmeistari. Friðrik var t.d. í vaskri sveit Eyjamanna sem hélt Íslandsmetinu í stangartökki um áratugaskeið.

Friðrik lærði til íþróttakennara í Kaupmannahöfn og er hann kom heim frá námi hafði hann í farteskinu handknattleikinn, sem hann kynnti fyrir landsmönnum. Hann hélt fyrsta utanhússmótið í handknattleik árið 1925.

Friðrik var einn af stofnendum Knattspyrnufélagsins Týs, árið 1921, 15 ára gamall. Hann sat lengi í stjórn félagsins og varð heiðursfélagi þess. Friðrik var jafnframt stofnandi að Sundfélagi Vestmannaeyja og Skátafélaginu Faxa. Hann hlaut þjónustumerki og heiðursorðu ÍSÍ og garpsmerki FRÍ fyrir afrek í frjálsum íþróttum. Friðrik var sæmdur hinni íslensku Fálkaorðu fyrir störf sín.

Hann kenndi leikfimi við Barnaskóla Vestmannaeyja 1929-1963 og jafnframt við Gagnfræðaskólann í Vestmannaeyjum 1929-1932. Á árunum 1921-1939 kenndi Friðrik sund við Sundskálann undir Löngu í sex sumur. Eftir að Miðhúsalaugin tók til starfa 1934, kenndi hann þar sund á sumrum, allt til ársins 1963.

Friðrik Jesson fór með flokki íþróttakennara á Ólympíuleikana í Berlín 1936 og sýndi þar íslenska glímu við góðan orðstír.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja

 

Miðhúsalaugin (sundlaugin) í Vestmannaeyjum með sjóveitutankana í baksýn

Miðhúsalaugin í Vestmannaeyjum

Miðhúsalaugin (sundlaugin) í Vestmannaeyjum með sjóveitutankana í baksýn

Miðhúsalaugin (sundlaugin) í Vestmannaeyjum með sjóveitutankana í baksýn. Myndina tók Friðrik Jesson íþróttakennari einhvern tímann á fyrstu starfsárum sundlaugarinnar.

Miðhúsalaugin var opnuð 14. nóvember 1934, með sjómannanámskeiði. Almenningur fékk hins vegar ekki aðgang að lauginni fyrr en sumarið eftir. Laugin var steinsteypt, 20 x 12 metrar að stærð. Dýpt laugarinnar var einn metri að norðan og tveir að sunnan. Fyrstu áratugina var sjór í lauginni. Hún fékk sjó frá sjóveitunni á Skansinum, og var hann hitaður upp í 22-28 gráður, allt eftir veðurfari. Seinna fékk laugin heitt vatn frá Rafstöðinni. Til að fylla laugina þurfti 330 tonn af sjó. Miðhúsalaugin fór undir hraun í eldgosinu á Heimaey í mars 1973.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja

 

Íþróttamannvirki í Vestmannaeyjum

Íþróttir og æskulýðsstarf í Vestmannaeyjum á 20. öld

Íþróttamannvirki í Vestmannaeyjum

Sundlaugin og fleiri íþróttamannvirki í Vestmannaeyjum.

Þróttmikið og öflugt íþróttalíf hefur löngum verið í Vestmannaeyjum, sérstaklega frá aldamótunum 1900. Þaðan hafa margir fræknir afreksmenn komið og mörg Íslandsmetin verið slegin í gegnum tíðina, sérstaklega í frjálsum íþróttum. Fjölbreytni íþróttagreina hefur verið í öndvegi og má þar nefna t.d. sund, fimleika, frjálsar íþróttir, golf og síðast en ekki hvað síst boltagreinarnar, handbolta og fótbolta, sem Eyjamenn hafa löngum lagt ríka áherslu á að kynna fyrir yngstu kynslóðinni, og stundað markvisst uppbyggingarstarf, sem vakið hefur þjóðarathygli, t.d. með íþróttamótum fyrir unga fólkið.

Skipulögð íþróttastarfsemi hófst í Eyjum árið 1922, en á árunum 1929-1945 var starfandi Íþróttaráð Vestmannaeyja. Íþróttabandalag Vestmannaeyja (ÍBV) var stofnað í maí 1945, og var fyrsti formaður þess Vigfús Ólafsson, kennari frá Gíslholti. Síðan hefur ÍBV verið burðarrásin í íþróttastarfseminni í Vestmannaeyjum.

Í dag eru Vestmannaeyjar einn helsti íþróttabær landsins, með einni glæsilegustu íþróttamiðstöð landsins, með þremur löglegum handboltavöllum, bestu innisundlaug landsins og stórglæsilegu útisvæði við sundlaugina, með heitum pottum, vaðlaug og rennibraut (sjá myndina að ofan). Í bænum er fjölnota íþróttahús, Eimskipshöllin, Hásteinsvöllurinn (með nýrri stúku), ásamt fjórum öðrum knattspyrnuvöllum og einn skemmtilegasti og eftirsóttasti golfvöllur landsins.

Það segir sig sjálft að Vestmannaeyingar hafa átt afreksmenn í röðum Ólympíufara Íslands, allt frá Ólympíuleikunum í Berlín 1936. Fulltrúar Vestmannaeyinga á leikunum í Berlín voru frjálsíþróttamennirnir og keppendurnir Sigurður Sigurðsson og Karl Vilmundarson, ásamt Friðriki Jessyni, íþróttakennara, sem fór með hópi íþróttakennara á leikana til þess að sýna og kynna íslenska glímu.

Á Héraðsskjalasafninu í Vestmannaeyjum er fjölbreytt safn skjala úr sögu hinna ýmsu íþróttafélaga í bænum og mikið magn skjala sem jafnframt tengjast öflugu æskulýðsstarfi í bænum í gegnum tíðina, sem ber vitni þrotlausri og óeigingjarnri sjálfboðavinnu fjölda manna sem lagt hafa hönd á plóginn til þess að æskan geti stundað æfingar og keppni af kappi á sómasamlegan hátt.

Meðal þess sem er að finna í safninu eru skjöl eftirtaldra íþróttafélaga:

 • Knattspyrnufélag Vestmannaeyja (1916-1920)
 • Knattspyrnufélagið Týr (1921-1996)
 • Sundfélag ÍBV (1978-2006)

Og einnig skjöl eftirfarandi æskulýðsfélaga:

 • Ungmennafélag Vestmannaeyja (1927-1929)
 • Skátafélagið Faxi (1938-)
 • KFUM og K (1924-1971)
 • Barnastúkan Fanney nr. 48 1928-1949)

Á næsta ári er svo að að Íþróttafélagið Þór bætist í hópinn. Þá verða liðin 100 ár frá stofnun félagsins og lokið verður við að skrifa sögu félagsins. En skjalasafn Þórs er talvert stórt að vöxtum og spannar nánast alla 20. öldina.

Einnig er í safninu mikið magn skjala varðandi Íþrótta- og æskulýðsráð Vestmannaeyjabæjar, sem hefur mikla sögu að segja úr sögu sundkennslu, Miðhúsalaugarinnar og Íþróttamiðstöðvarinnar í Vestmannaeyjum.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja