Category Archives: Íþróttir

Neðri-Sandvík í Borgarnesi.

Þegar nýi íþróttavöllurinn var tekinn undir bragga

Neðri-Sandvík í Borgarnesi.

Neðri-Sandvík í Borgarnesi. Ljósmynd sem sýnir svæðið eftir að búið er að reisa braggana. Úr albúmi Jóns Guðmundssonar Hundastapa.

Að kvöldi 19. september 1940 var sá langþráði draumur félaga Ungmennafélagsins Skallagríms í Borgarnesi að fá íþróttavöll alveg við að verða loksins að veruleika. Þetta átti að verða grasvöllur, sá fyrsti hér á landi.

Um þetta má lesa í ritgerð þar sem Friðrik Þorvaldsson hafnarvörður og stjórnarmaður í ungmennafélaginu skrifar eftirfarandi:

[Um kvöldið] hafði hópur ungmennafélaga unnið við að tyrfa knattspyrnuvöllinn í Neðri-Sandvík en aðrir unnið við að rista og flytja þökur ofan frá Hamri. Svo vel hafði verkið sótzt undanfarin kvöld, að ákveðið var að sækja síðustu þökurnar næstu kvöldstund, enda liðið fram á nótt og aðeins fáeinir fermetrar óþaktir. Þannig mætti njóta síðustu handtakanna án strangasta álags, og að verki loknu mætti fá hvíld til að hugleiða önnur aðkallandi verkefni.

En þessi áform urðu að engu. Næsta dag var Friðrik snemma á fótum. Von var á Eldborginni með morgunflóðinu en hún var að koma úr söluferð frá Englandi. Friðrik skrifar:

Ég var því snemma á ferli og gladdist mjög er ég sá skip utan Miðfjarðarskers. Ekki hafði ég lengi horft er mér fannst sem skipið bæri hraðar að en ég átti að venjast. Þetta reyndist vera herflutningaskip og er það kenndi bryggjunnar þustu frá borði fans vopnaðra manna. En á meðan hermennirnir hnöppuðust saman á bryggjunni og sötruðu úr stórum föntum te, sem þeim var borið í einhverskonar keröldum, nálgaðist sú stund, sem varð erfið, bæði fyrir mig og ungmennafélagið. Herstjórnin hafði sjáanlega aflað sér upplýsinga því óðar en varði krafðist hún að fá til sinna þarfa samkomuhúsið og íþróttavöllinn.

Þrátt fyrir mikla óánægju ungmennafélaga létu þeir undan kröfum breska hersins og síðustu grasþökurnar voru því aldrei sóttar og enginn knattspyrnuleikur var háður á þessum grasvelli. Risu þarna síðan upp herbúðir miklar. Þegar setuliðið fór undir stríðslok fékk ungmennafélagið íþróttasvæðið afhent á ný. Var þá svæðið í slæmu ásigkomulagi og kostaði mikla vinnu að ryðja það á ný. Gerði félagið þarna síðan malarvöll sem notaður var til knattspyrnu- og íþróttaæfinga alveg þar til nýi íþróttavöllurinn hjá Íþróttahúsinu var tekinn í notkun. Nú stendur Menntaskóli Borgfirðinga á svæðinu.

Heimildir:

  • Jón Helgason. Hundrað ár í Borgarnesi. 1967. Bls. 301-302.
  • Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar. „Ungmennafélagið Skallagrímur í Borgarnesi“, EF 30 27-2. Ritgerð skrifuð í fyrirhugað afmælisrit UMF Skallagríms á 60 ára afmæli þess eftir Friðrik Þorvaldsson.
Bls 5 úr ritgerð eftir Friðrik Þorvaldsson

Bls 5 úr ritgerð eftir Friðrik Þorvaldsson, sem skrifuð var í fyrirhugað afmælisrit UMF Skallagríms á 60 ára afmæli þess.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar

Víðavangshlaup í Kópavogi, líklega árið 1958

Víðavangshlaup í Kópavogi

Víðavangshlaup í Kópavogi, líklega árið 1958

Víðavangshlaup í Kópavogi, líklega árið 1958. Myndin er úr ljósmyndasafni Héraðsskjalasafns Kópavogs og er ljósmyndarinn óþekktur.

Þrír fræknir piltar takast á í víðavangshlaupi er átti sér stað sumardaginn fyrsta árið 1960 í Kópavogi. Á fyrri myndinni er Daði Eysteinn Jónsson fremstur í flokki til vinstri, Franklín Brynjólfsson fyrir miðju og Jón Ingi Ragnarsson til hægri. Í bakgrunni má sjá nýja viðbyggingu við Kópavogsskóla, en í nýju byggingunni var stór fimleikasalur, búningsklefi og húsvarðaríbúð. Á seinni myndinni fylgjast bæjarbúar með lokasprettinum, en Daði Eysteinn vann hlaupið. Jón Ingi kemur næstur á vinstri hönd Daða og Franklín fylgir fast á eftir þeim tveim. Í bakgrunni má sjá Félagsheimili Kópavogs sem var tekið í notkun árinu áður. Þetta var fyrsta skipulagða víðavangshlaup Ungmennafélagsins Breiðabliks.

Víðavangshlaup í Kópavogi, líklega árið 1958.

Mynd 2. Víðavangshlaup í Kópavogi, líklega árið 1958. Myndin er úr ljósmyndasafni Héraðsskjalasafns Kópavogs og er ljósmyndarinn óþekktur.

 

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Kópavogs

 

Blikar fagna

Baráttuglaðir Blikar

Blikar fagna

Á myndinni sjást Þór Hreiðarsson (t.h.) og Bjarni Bjarnason (t.v.) baða út höndum. Á milli þeirra sést dómari leiksins, Ragnar Magnússon. Guðmundur H. Jónsson og Ólafur Hákonarson fallast í faðma. Myndin er úr ljósmyndasafni Héraðsskjalasafns Kópavogs og er ljósmyndarinn líklegast Marteinn Heiðarsson.

Um 500 knattspyrnuáhugamenn mættu á Melavöllinn þann 31. október árið 1971 til þess að fylgjast með knattspyrnuleik ríkjandi bikarmeistara Fram á móti Breiðablik, sem þá lék í 2. deild. Veðrið var erfitt viðureignar og bjuggust margir við að leiknum yrði frestað. Framarar sóttu ákaft en án árangurs og náðu baráttuglaðir Blikar að verjast öllum sóknum. Á 35. mínútu leiksins skoraði Breiðablik óvænt þegar Guðmundur Þórðarson, sóknarmaður Breiðabliks, lagði boltann fram hjá markverði Fram og í netið. Þetta reyndist vera eina mark leiksins og tryggði Breiðablik þátttökurétt í sínum fyrsta bikarúrslitaleik í sögu félagsins. Sá leikur fór fram þann 6. nóvember sama ár og var andstæðingurinn Víkingur frá Reykjavík. Leiknum með sigri Reykjavíkurliðsins, en merkilegast við leikinn var að bæði liðin voru á þessum tíma í 2. deild á Íslandsmótinu.

 

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Kópavogs

 

Forsíða Vetrarbrautarinnar 1918-1919

Gluggað í gjörðabækur

Fundur Umf. Vonar 10. ágúst 1942 að Stakkabergi

Fundin sóttu 13 félagar. Gerðir fundarins voru þessar. 1. Söngur. 2. Formaður setti fundin og tilnefndi … fundarstjóra og … fundar ritara. 3. Rætt um áskorun (um boðhlaup) frá úmf. Dögun. Samþykkt var með öllum greiddum atkvæðum að hafna áskoruninni. 4. Farið í leiki. 5. Súngin nokkur lög. Upplesið  Samþ. Fundi slitið.

Gjörðabók Ungmennafélagsins Vonar í Klofningshreppi 1936-1946.

 Aðalfundur Umf. Stjörnunnar 15. febrúar 1925

Jóh. B. Jónasson flutti fyrirlestur um ungmennafélagsskapinn hjer í sveit. Áminnti hann fjelagsmenn um að leggja meiri stund á andlegt uppeldi sitt en verið hefur að undanförnu og temja sjer í hvervetna að koma fram sem sannir ungmennafélagar. Var fyrirlesara þakkað með lófataki.

Gjörðabók ofl. Ungmennafjelagsins “Stjarnan” Saurbæjarhreppi 1917-1957. Bls. 101

 Baðstofukveld Umf. Unnar djúpúðgu 10. apríl 1932 á Laugum

Klukkan 9 að kvöldi hófst baðstofukvöldið, þá voru samankomnir á staðnum 18 fjelagar og 3 gestir. Byrjað var þá strags á vinnunni, hver hafði sitt verk að vinna …. Vinnan var margskonar svo sem: saumur, prjón, spuni, þóf, gjarða- og reiphaldasmíði, gimbing, bókband o.fl. Nokkrir pilta og stúlkur skiftust á að lesa upp og kveða. Lesið var úr fornsögum og þjóðsögum, en kveðið mest lausavísur og smárímur. Þegar vinnan hafði staðið yfir 3 klukkustundir var kaffi með brauði um borð borið og var háð þar allfjörug samdrykkja. Að því loknu voru borð upp tekin og allir söfnuðust saman og áttu að síðustu þarna hátíðlega stund.

U.M.F. Unnur djúpúðga. Fundargerðir 1929-1935.

 Aðalfundur Sundfélags Hörðdælinga 4. júní 1939 í Laugardal

Tillaga kom fram um það að félagið komi sér upp girðingu til að rækta í trjáplöntur við sundlaugina og kýs þrjá menn til að athuga og undirbúa málið fyrir næsta vor. Tillagan var samþykkt.

Gjörðabók Sundfélags Hörðdælinga 1932-1940.

 

Forsíða Vetrarbrautarinnar 1918-1919

Forsíða Vetrarbrautarinnar 1918-1919, tímarits Ungmennafélagsins Ólafs pá í Laxárdalshreppi, Dalasýslu.

Fundur Umf. Ólafs Páa 7. júní 1925 að Spákellsstöðum

Formaður átaldi fundar- og félagsmenn fyrir þögn á fundum og hvatti menn til að tala og tala eins og maður væri að tala við kunningja sinn. … Á þessum fundi vor fluttar eftirtaldar ræður, auk upplesturs – og samtals – sem óþarflega mikið var gert að. Formaður Skúli Jóhannesson 16 ræður. Jóhann Bjarnason 13 ræður. Hallgrímur Jónsson 13 ræður. Óskar Sumarliðason gjaldk. 11 ræður. Fleiri töluðu ekki.

Fundarbók ungmennafélagsins “Ólafur Pái” 1909-1928.

 Fundur Umf. Dögunar 24. mars 1929 í Túngarði

K. G. bar fram tillögu um að félagar Dögunar legðu niður kossa sem almenna kveðju á fundum og samkomum félagsins. Sagði hún að sér findist þettað vera spor í áttina að temja sér kurteisa framkomu. Fleiri voru á sama máli og var tillagan rædd frá ímsum hliðum var síðan samþigt af öllum viðstöddum félagsmönnum.

Gjörðabók ungmennafélagsins “Dögun” 1922-1936. Bls. 39

 Fundur Umf. Æskunnar 3. apríl 1932 á Nesodda

Fundurinn ákveður að byggja hús á Nesodda að stærð 10×12 ál. á næstkomandi vori ef hægt verður að fá lán til byggjingarinnar og er stjórninni falið framkvæmd á því og jafnframt að sjá um innkaup á efni.

Samkvæmt reikningum félagsins fyrir árið 1932 varð byggingakostnaður hússins 2.138,12 kr. Félagið þurfti að taka að láni 1.500 kr lán, sem það lauk að borga af 1941.

Gjörðabók Umf. Æskan 1930-1934

Reikningar Umf. Æskan 1928-1939 og 1940-1950.

Kvöldvaka Umf. Vöku í janúar 1960 í Búðardal

Var leikinn skemmtiþáttur. Brynjólfur Haraldsson las upp sögu. Ingibjörg Kristinsdóttir söng gamanvísur. Gísli Brynjólfsson las upp glens um hreppsbúa. Spurningaþáttur undir stjórn Jóns Finnssonar. Síðan var Félagsvist og að lokum dansað. Veitingar sem Guðbjörg og Dísa sáu um voru alveg indislegar.

Gjörðabók U.M.F. “Tilraun” / “Vaka” í Skarðshreppi. 1929-1986.

Gjörðabók Ungmennafélagsins Völu í Skarðshreppi, Dalasýslu.

Gjörðabók Ungmennafélagsins Vöku í Skarðshreppi, Dalasýslu.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Dalasýslu

Afrekaskrá Íslands – Met og meistarar 1948

Íþróttagagnasafn Eysteins Hallgrímssonar

Á héraðsskjalasafni Þingeyinga er að finna íþróttagagnasafn Eysteins Hallgrímssonar frá Grímshúsum í Aðaldal. Erfingjar Eysteins heitins afhentu safnið til vaðveislu hér en það er geysimikið að vöxtum, samtals yfir 5.000 númer í 199 skjalaöskjum. Safnið geymir mikilsverðar upplýsingar um þróun íþróttastarfs í Suður-Þingeyjarsýslu og raunar á landinu öllu. Hér um að ræða afrekaskrár og skýrslur, íþróttablöð, bækur, ársrit og afmælisrit íþróttafélaga, íþróttabandalaga, Ungmennafélags Íslands, ÍSÍ og sérsambanda ÍSÍ svo nokkuð sé nefnt.

Eysteinn Hallgrímsson fæddist í Grímshúsum í Aðaldal S-Þingeyjarsýslu 19. mars 1929. Hann lést að heimili sínu 1. ágúst 1990. Foreldrar hans voru hjónin í Grímshúsum Hallgrímur Óli Guðmundsson (f. 29. september 1897 – d. 14. september 1954) og Kristjana Árnadóttir (f. 21.september 1907 – d. 11. september 1987).

Forsíða ársskýrslu HSÞ 1969

Forsíða ársskýrslu HSÞ 1969.

Eysteinn starfaði alla sína tíð að búinu, fyrst með foreldrum sínum og síðan í félagsbúi með bróður sínum. Hann var vel virkur í félagsmálum og sat í stjórn U.M.F Geisla um tíma. Einnig var hann áhugasamur frímerkjasafnari og einn af stofnendum frímerkjaklúbbsins Öskju á Húsavík og ritstjóri árbókar klúbbsins. Þá var hann félagi í Lionsklúbbnum Náttfara meðan hann starfaði. Aðalstarf hans að félagsmálum var fyrir H.S.Þ. Hann skráði um árabil árangur í íþróttum og safnaði heimildum þar um.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Þingeyinga