
Upphaf átaks Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Félags héraðsskjalavarða á Íslandi í apríl 2011. Ljósmynd: Arnaldur Halldórsson fyrir ÍSÍ.
Í tilefni af 100 ára afmæli Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands árið 2012 réðst sambandið og Félag héraðsskjalavarða á Íslandi í átak í söfnun skjala sem tengjast starfsemi íþróttafélaga og héraðssambanda um land allt, þannig að þau varðveitist á öruggan hátt og verði aðgengileg á héraðsskjalasöfnum landsins. Átakið hófst í apríl 2011 og er stefnt er að því ljúki í janúar 2013 um leið og afmælisári ÍSÍ lýkur og þá verði tekið saman yfirlit yfir þau skjalasöfn sem eru varðveitt á opinberum skjalasöfnum um land allt.

Fimleikasýning. Ljósmyndari óþekktur. Einkaskjalasafn 225. Íþróttabandalag Reykjavíkur. Borgarskjalasafn Reykjavíkur.
Borgarskjalasafn Reykjavíkur hefur á undanförnum árum staðið að skipulagðri söfnun skjalasafna íþróttafélaga í samvinnu við Íþróttabandalag Reykjavíkur. Öllum starfandi íþróttafélögum hefur verið ritað bréf og þau hvött til að afhenda Borgarskjalasafni skjöl sín til varðveislu. Sömuleiðis hefur verið reynt að hafa upp á skjölum eldri íþróttafélaga. Töluvert af heillegum skjalasöfnum hafa borist og hafa þau verið skráð og gengið frá þeim í öskjur til tryggilegrar geymslu til framtíðar og þannig að þau séu aðgengileg til rannsókna á lesstofu safnsins.

Fimleikasýning stúlkna. Ljósmyndari óþekktur. Einkaskjalasafn 225. Íþróttabandalag Reykjavíkur. Borgarskjalasafn Reykjavíkur.
Fjöldi landsmanna hefur komið að íþróttum með einum eða öðrum hætti; sem þátttakandi, áhorfandi, stuðningsaðili eða á annan hátt. Skipulagt íþróttastarf hefur ekki síst verið blómlegt í Reykjavík, þar sem ótrúlegur fjöldi íþróttafélaga hefur starfað um lengri eða skemmri tíma. Fæst þessara félaga eiga sér skráða sögu og hún lifir mest í skjölum þeirra og í minni þeirra sem tóku þátt í störfum þeirra. Skjalasöfn íþróttafélaganna eru frumheimildir og vitnisburður um starfsemi þeirra; hvaða hugsjónir voru að baki, um baráttuna, þrotlausar æfingar til að ná árangri, töp og glæsta sigra, dugnað og elju einstakra manna við uppbyggingu félaganna, oft í ólaunuðu sjálfboðastarfi.

Handskrifaður happadrættismiði frá Íþróttafjelagi Reykjavíkur.Frá hvaða ári ætli hann sé? Varðveittur á Borgarskjalasafni Reyjavíkur.
Íþróttafélög og þeir sem hafa undir höndum skjöl íþróttafélaga í Reykjavík eru hvattir til þess að hafa samband við Borgarskjalasafn Reykjavíkur sem er til hús í Grófarhúsi, Tryggvagötu 15 á 3. hæð. Safnið er opið virka daga kl. 10 til 16 og er sími þess 411 6060 og netfang borgarskjalasafn@reykjavik.is.
Texti: Svanhildur Bogadóttir
Þetta efni er frá Borgarskjalasafni Reykjavíkur