Æskulíf

Hve glöð er vor æska

Æskulíf

Æskulíf. Ljósmyndari: Gunnar Rúnar. Varðveitt í einkaskjalasafni E-225 – Íþróttabandalag Reykjavíkur. Borgarskjalasafn Reykjavíkur.

Fyrir ekki svo löngu síðan voru ekki til tölvur, tölvuleikir, net eða annað sem glepur tíma frá æskunni í dag. Sjónvarpið var ekki á fimmtudögum og fór í sumarleyfi í júlí. Ekki var eins mikið um námskeið og skipulagt starf á sumrin eins og nú er. Krakkar voru meira úti að leika sér.

Á sumrin voru krakkar úti allan daginn meira og minna og alltaf var hægt að finna upp á einhverju til að leika sér eða vera eitthvað að djöflast og á veturna voru þau úti eftir skóla. Krakkar hreyfðu sig meira og kunnu meira að finna upp á leikjum og kunnu að meta að lenda í ævintýrum. Það var ekki fylgst eins mikið með krökkunum og í dag og þeir höfðu meira frelsi.

Krakkarnir voru jafnvel fleiri í hverri fjölskyldu en nú er og það þótti sjálfsagt að þeir væru úti að leika sér. Í hvaða hverfi sem var í Reykjavík hittust krakkar eftir skóla í hópum og fóru í alls konar leiki sem oft voru fundnir upp á staðnum. Nær allir aldurshópar léku sér saman og voru oft mikil læti og fjör. Það var verið á leikvöllum, skólalóðum, boltavöllum eða þar sem var pláss. Yfirleitt léku krakkar í sama hverfi sér saman og það var stundum rígur á milli hverfa.

Farið var í alls konar boltaleiki, snú snú, teyjó, hjólböruhlaup, eltingaleiki, feluleiki, fallin spýta og parís. Oft voru leikirnir spunnir upp á staðnum. Til dæmis var leitað eftir fjársjóðum, farið í langstökkskeppnir og reynt að finna upp á nýju. Síðan voru búnar til teygjubyssur og fleiri hentug vopn.

Krakkarnir voru að leik þar til kallað var í kvöld mat kl. 19. Síðan fóru margir út að leika eftir mat og flestir átt að vera komnir inn kl. 20. Stundum voru krakkarnir blautir og skítugir upp fyrir haus þegar þeir komu inn og voru þá drifnir í boð og fengu jafnvel kakó á eftir.

Krakkarnir skiluðu sér misvel heim og stundum þurfti að kalla út lögreglu til að svipast um eftir þeim og lögreglan fylgdist líka með að útivistartíma væri fylgt. Ekki var mikið um að krakkar slösuðust en þó hefur það eflaust komið fyrir. Foreldrar fylgdust ekki mikið með krökkunum, heldur treystu þeim til að halda sér í hverfinu, passa sig og skila sér heim á réttum tíma. Þetta mundi eflaust kallast kæruleysi í dag, en það er hægt að sjá bæði kosti og galla í þeim breytingum sem nú hafa orðið.

Texti: Ásgeir Michael Einarsson

Hve glöð er vor æskaHve glöð er vor æskaHve glöð er vor æskaHve glöð er vor æska

 

Til fróðleiks er hér listi yfir leiki sem voru vinsælir á árum áður

Þetta efni er frá Borgarskjalasafni Reykjavíkur