Sundskáli Svarfdæla

Sundskáli Svarfdæla

Sundskáli Svarfdæla

Sundskáli Svarfdæla.

Sundskáli Svarfdæla var vígður sumardaginn fyrsta, 25. apríl 1929. Helsti hvatamaður að byggingu hans var Kristinn Jónsson sem þá kenndi sund í Svarfaðardal og á Dalvík. Það var einnig hann sem benti á hentuga staðsetningu við volgar uppsprettur í landi Tjarnargarðshorns. Bygging sundskálans tók tvö ár og var að miklu leyti unnin í sjálfboðavinnu félaga í ungmennafélögum í Svarfaðardal og Dalvík. Sveinbjörn Jónsson á Akureyri var byggingarmeistari og Arngrímur Jóhannesson á Dalvík yfirsmiður. Stærð laugarinnar er 12,5 x 5 m.

Sundskálabyggingin er um margt merkileg. Hún er ein af fyrstu yfirbyggðum sundlaugum í landinu og þak hennar er steinsteypt. Það þótti einstætt afrek á sínum tíma að bygging af þessu tagi reis í fámennu byggðarlagi. Svo vel var að byggingunni staðið að engar skemmdir urðu á húsinu þegar jarðskjálfarnir dundu yfir Dalvík og Svarfaðardal 1934. Sundskálinn var í mikilli og samfelldri notkun bæði til kennslu og fyrir almenning. Hann var endurbyggður árið 1988 og er ennþá í notkunarhæfu ástandi.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Svarfdæla