Tag Archives: Héraðsskjalasafn Vestmannaeyja

Leikfimihópur stúlkna í Vestmannaeyjum um miðjan fjórða áratug síðustu aldar

Leikfimihópur stúlkna í Vestmannaeyjum um miðjan fjórða áratug síðustu aldar

Leikfimihópur stúlkna í Vestmannaeyjum um miðjan fjórða áratug síðustu aldar

Leikfimihópur stúlkna í Vestmannaeyjum með þjálfara sínum um miðjan fjórða áratug síðustu aldar.

Nokkru fyrir miðja tuttugustu öld þjálfaði Loftur Guðmundsson ungar stúlkur í Vestmannaeyjum í leikfimi. Á myndinni er hann í hópi stúlknanna sem hann þjálfaði.

Aftari röð frá vinstri: Erna Árnadóttir Bifröst, Erla Ísleifsdóttir, Loftur Guðmundsson, þjálfari og rithöfundur, Magnea Waage og Sesselja Einarsdóttir.

Í miðjunni er Stefanía Sigurðardóttir.

Fremri röð frá vinstri: Fanney Vilhjálmsdóttir, Sigríður Bjarnadóttir Hoffelli og Lóa Ágústsdóttir Baldurshaga.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja

 

Knattspyrnumenn úr Íþróttafélaginu Þór í Vestmannaeyjum í kringum 1925-1930

Karl Vilmundarson

Knattspyrnumenn úr Íþróttafélaginu Þór í Vestmannaeyjum í kringum 1925-1930

Knattspyrnumenn úr Íþróttafélaginu Þór í Vestmannaeyjum um 1925-1930.
Efsta röð frá vinstri: Þórarinn Guðmundsson frá Háeyri, Óskar Valdason Sandgerði, Tómas Snorrason Hlíðarenda, Aðalsteinn Gunnlaugsson Gjábakka, Skarphéðinn Vilmundarson Hamri (frá Hjarðarholti).
Miðröð frá vinstri: Haraldur Sigurðsson Pétursborg, Þorgeir Sturluson Valhöll og Gísli Finnsson.
Fremsta röð frá vinstri: Oddgeir Kristjánsson Heiðarbrún, Sigurjón Helgason Lambhaga og ólympíufarinn Karl Vilmundarson Hjarðarholti.

Síðastur íslensku frjálsíþróttamannanna til þess að keppa á Ólympíuleikunum í Berlín 1936 var Karl Vilmundarson frá Hjarðarholti (1909-1983). Hann keppti í tugþraut. Þátttaka hans í þrautinni varð hins vegar endaslepp, og hann hætti eftir tvær greinar. Hann missti af 100 metra hlaupinu, en fékk þó að hlaupa einn og varð útkoman eftir því. Langstökkið gekk ekki betur, og gerði hann tvö stökk ógild. Þriðja stökkið mældist svo ekki nema 5,62 metrar, sem olli Karli slíkum vonbrigðum að hann hætti keppni. Karl var hins vegar fyrsti íslenski tugþrautarkappinn og náði sem slíkur góðum árangri, er nálgast það besta og varð methafi í vissum greinum frjálsra íþrótta. Karl var auk þess mjög snjall knattspyrnumaður.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja

 

Sigurður Sigurðsson

Sigurður Sigurðsson

Sigurður Sigurðsson

Sigurður Sigurðsson.

Sigurður Sigurðsson (1914-1982) frá Hólmi í Vestmannaeyjum var einn fremsti íþróttamaður Íslendinga á sinni tíð og því var vel við hæfi að hann væri í hinum stóra og glæsilega hópi sem Ísland sendi á Ólympíuleikana í Berlín árið 1936. Það sýndi sig að þetta var rétt ákvörðun, því Sigurður stóð sig best allra íslensku þátttakendanna. Hann varð fyrstur Íslendinga til þess að komast í undanúrslit á Ólympíuleikum og setti jafnframt Íslandsmet sem stóð í 10 ár.

Sigurður var einn fjögurra frjálsíþróttamanna sem Ísland sendi á leikana og keppti bæði í hástökki og þrístökki. Hann jafnaði Íslandsmetið í hástökki með því að stökkva 1,80 metra, en komst svo ekki í undanúrslit, til þess hefði hann þurft að stökkva 1,85. Til þess að komast í aðalkeppnina í þrístökkinu þurfti Sigurður að stökkva yfir 14 metra og það tókst í annarri tilraun. Stökkið var viðurkennt sem Íslandsmet, en svo gekk honum ekki eins vel í aðalkeppninni, stökk „aðeins“ 13,68 metra og varð 22 í röðinni í keppninni. Afrek hans í undanúrslitunum réttlætti þó fullkomlega þátttöku Íslendinga á leikunum og verður lengi í minnum haft. Hafa verður í huga að íslensku þátttakendurnir komu frá litlu landi þar sem aðstæður til iðkunar íþrótta voru mjög frumstæðar á þessum tíma og allt íþróttalíf miklum erfiðleikum háð.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja

 

Friðrik Jesson

Friðrik Jesson

Friðrik Jesson

Friðrik Jesson.

Friðrik Jesson (1906-1992) var íþróttakennari, ljósmyndari og forstöðumaður Náttúrugripasafnsins í Vestmannaeyjum um áratuga skeið. Á yngri árum keppti hann í ýmsum íþróttagreinum og varð margfaldur Íslandsmeistari. Friðrik var t.d. í vaskri sveit Eyjamanna sem hélt Íslandsmetinu í stangartökki um áratugaskeið.

Friðrik lærði til íþróttakennara í Kaupmannahöfn og er hann kom heim frá námi hafði hann í farteskinu handknattleikinn, sem hann kynnti fyrir landsmönnum. Hann hélt fyrsta utanhússmótið í handknattleik árið 1925.

Friðrik var einn af stofnendum Knattspyrnufélagsins Týs, árið 1921, 15 ára gamall. Hann sat lengi í stjórn félagsins og varð heiðursfélagi þess. Friðrik var jafnframt stofnandi að Sundfélagi Vestmannaeyja og Skátafélaginu Faxa. Hann hlaut þjónustumerki og heiðursorðu ÍSÍ og garpsmerki FRÍ fyrir afrek í frjálsum íþróttum. Friðrik var sæmdur hinni íslensku Fálkaorðu fyrir störf sín.

Hann kenndi leikfimi við Barnaskóla Vestmannaeyja 1929-1963 og jafnframt við Gagnfræðaskólann í Vestmannaeyjum 1929-1932. Á árunum 1921-1939 kenndi Friðrik sund við Sundskálann undir Löngu í sex sumur. Eftir að Miðhúsalaugin tók til starfa 1934, kenndi hann þar sund á sumrum, allt til ársins 1963.

Friðrik Jesson fór með flokki íþróttakennara á Ólympíuleikana í Berlín 1936 og sýndi þar íslenska glímu við góðan orðstír.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja

 

Miðhúsalaugin (sundlaugin) í Vestmannaeyjum með sjóveitutankana í baksýn

Miðhúsalaugin í Vestmannaeyjum

Miðhúsalaugin (sundlaugin) í Vestmannaeyjum með sjóveitutankana í baksýn

Miðhúsalaugin (sundlaugin) í Vestmannaeyjum með sjóveitutankana í baksýn. Myndina tók Friðrik Jesson íþróttakennari einhvern tímann á fyrstu starfsárum sundlaugarinnar.

Miðhúsalaugin var opnuð 14. nóvember 1934, með sjómannanámskeiði. Almenningur fékk hins vegar ekki aðgang að lauginni fyrr en sumarið eftir. Laugin var steinsteypt, 20 x 12 metrar að stærð. Dýpt laugarinnar var einn metri að norðan og tveir að sunnan. Fyrstu áratugina var sjór í lauginni. Hún fékk sjó frá sjóveitunni á Skansinum, og var hann hitaður upp í 22-28 gráður, allt eftir veðurfari. Seinna fékk laugin heitt vatn frá Rafstöðinni. Til að fylla laugina þurfti 330 tonn af sjó. Miðhúsalaugin fór undir hraun í eldgosinu á Heimaey í mars 1973.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja

 

Íþróttamannvirki í Vestmannaeyjum

Íþróttir og æskulýðsstarf í Vestmannaeyjum á 20. öld

Íþróttamannvirki í Vestmannaeyjum

Sundlaugin og fleiri íþróttamannvirki í Vestmannaeyjum.

Þróttmikið og öflugt íþróttalíf hefur löngum verið í Vestmannaeyjum, sérstaklega frá aldamótunum 1900. Þaðan hafa margir fræknir afreksmenn komið og mörg Íslandsmetin verið slegin í gegnum tíðina, sérstaklega í frjálsum íþróttum. Fjölbreytni íþróttagreina hefur verið í öndvegi og má þar nefna t.d. sund, fimleika, frjálsar íþróttir, golf og síðast en ekki hvað síst boltagreinarnar, handbolta og fótbolta, sem Eyjamenn hafa löngum lagt ríka áherslu á að kynna fyrir yngstu kynslóðinni, og stundað markvisst uppbyggingarstarf, sem vakið hefur þjóðarathygli, t.d. með íþróttamótum fyrir unga fólkið.

Skipulögð íþróttastarfsemi hófst í Eyjum árið 1922, en á árunum 1929-1945 var starfandi Íþróttaráð Vestmannaeyja. Íþróttabandalag Vestmannaeyja (ÍBV) var stofnað í maí 1945, og var fyrsti formaður þess Vigfús Ólafsson, kennari frá Gíslholti. Síðan hefur ÍBV verið burðarrásin í íþróttastarfseminni í Vestmannaeyjum.

Í dag eru Vestmannaeyjar einn helsti íþróttabær landsins, með einni glæsilegustu íþróttamiðstöð landsins, með þremur löglegum handboltavöllum, bestu innisundlaug landsins og stórglæsilegu útisvæði við sundlaugina, með heitum pottum, vaðlaug og rennibraut (sjá myndina að ofan). Í bænum er fjölnota íþróttahús, Eimskipshöllin, Hásteinsvöllurinn (með nýrri stúku), ásamt fjórum öðrum knattspyrnuvöllum og einn skemmtilegasti og eftirsóttasti golfvöllur landsins.

Það segir sig sjálft að Vestmannaeyingar hafa átt afreksmenn í röðum Ólympíufara Íslands, allt frá Ólympíuleikunum í Berlín 1936. Fulltrúar Vestmannaeyinga á leikunum í Berlín voru frjálsíþróttamennirnir og keppendurnir Sigurður Sigurðsson og Karl Vilmundarson, ásamt Friðriki Jessyni, íþróttakennara, sem fór með hópi íþróttakennara á leikana til þess að sýna og kynna íslenska glímu.

Á Héraðsskjalasafninu í Vestmannaeyjum er fjölbreytt safn skjala úr sögu hinna ýmsu íþróttafélaga í bænum og mikið magn skjala sem jafnframt tengjast öflugu æskulýðsstarfi í bænum í gegnum tíðina, sem ber vitni þrotlausri og óeigingjarnri sjálfboðavinnu fjölda manna sem lagt hafa hönd á plóginn til þess að æskan geti stundað æfingar og keppni af kappi á sómasamlegan hátt.

Meðal þess sem er að finna í safninu eru skjöl eftirtaldra íþróttafélaga:

  • Knattspyrnufélag Vestmannaeyja (1916-1920)
  • Knattspyrnufélagið Týr (1921-1996)
  • Sundfélag ÍBV (1978-2006)

Og einnig skjöl eftirfarandi æskulýðsfélaga:

  • Ungmennafélag Vestmannaeyja (1927-1929)
  • Skátafélagið Faxi (1938-)
  • KFUM og K (1924-1971)
  • Barnastúkan Fanney nr. 48 1928-1949)

Á næsta ári er svo að að Íþróttafélagið Þór bætist í hópinn. Þá verða liðin 100 ár frá stofnun félagsins og lokið verður við að skrifa sögu félagsins. En skjalasafn Þórs er talvert stórt að vöxtum og spannar nánast alla 20. öldina.

Einnig er í safninu mikið magn skjala varðandi Íþrótta- og æskulýðsráð Vestmannaeyjabæjar, sem hefur mikla sögu að segja úr sögu sundkennslu, Miðhúsalaugarinnar og Íþróttamiðstöðvarinnar í Vestmannaeyjum.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja