Tag Archives: Íþróttagagnasafn

Afrekaskrá Íslands – Met og meistarar 1948

Íþróttagagnasafn Eysteins Hallgrímssonar

Á héraðsskjalasafni Þingeyinga er að finna íþróttagagnasafn Eysteins Hallgrímssonar frá Grímshúsum í Aðaldal. Erfingjar Eysteins heitins afhentu safnið til vaðveislu hér en það er geysimikið að vöxtum, samtals yfir 5.000 númer í 199 skjalaöskjum. Safnið geymir mikilsverðar upplýsingar um þróun íþróttastarfs í Suður-Þingeyjarsýslu og raunar á landinu öllu. Hér um að ræða afrekaskrár og skýrslur, íþróttablöð, bækur, ársrit og afmælisrit íþróttafélaga, íþróttabandalaga, Ungmennafélags Íslands, ÍSÍ og sérsambanda ÍSÍ svo nokkuð sé nefnt.

Eysteinn Hallgrímsson fæddist í Grímshúsum í Aðaldal S-Þingeyjarsýslu 19. mars 1929. Hann lést að heimili sínu 1. ágúst 1990. Foreldrar hans voru hjónin í Grímshúsum Hallgrímur Óli Guðmundsson (f. 29. september 1897 – d. 14. september 1954) og Kristjana Árnadóttir (f. 21.september 1907 – d. 11. september 1987).

Forsíða ársskýrslu HSÞ 1969

Forsíða ársskýrslu HSÞ 1969.

Eysteinn starfaði alla sína tíð að búinu, fyrst með foreldrum sínum og síðan í félagsbúi með bróður sínum. Hann var vel virkur í félagsmálum og sat í stjórn U.M.F Geisla um tíma. Einnig var hann áhugasamur frímerkjasafnari og einn af stofnendum frímerkjaklúbbsins Öskju á Húsavík og ritstjóri árbókar klúbbsins. Þá var hann félagi í Lionsklúbbnum Náttfara meðan hann starfaði. Aðalstarf hans að félagsmálum var fyrir H.S.Þ. Hann skráði um árabil árangur í íþróttum og safnaði heimildum þar um.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Þingeyinga