Tag Archives: UMFÍ

Forsíða Viljans, handskrifaðs félagsblaðs Umf. Samhygðar, 7. ár 1915.

Ungmennafélagið Samhygð

Ungmennafélagið Samhygð í Gaulverjabæjarhreppi hefur allt frá stofnun þess á hvítasunnudag, 7. júní 1908 verið eitt af öflugustu ungmennafélögunum á Suðurlandi. Það voru þeir Ingimundur Jónsson í Holti, Páll Bjarnason í Hólum og Einar Einarsson í Brandshúsum sem voru helstu hvatamennirnir að stofnun félagsins. Stofnfélagar voru 22, 12 konur og 10 karlmenn og undirrituðu skuldbindingarskrá fyrir félagið. Að „vinna með alhug að heill þessa félagsskapar framförum sjálfra vor andlega og líkamlega, og að velferð þjóðar vorrar í öllu því sem þjóðlegt er gott og sómasamlegt.“ Samhygð var fátt óviðkomandi í hreppnum og félagið kom sér fljótlega upp bókasafni auk þess að reisa félagsheimilið Bjarmaland. Íþróttaiðkun fór hægt af stað en fyrsti keppandi Samhygðar sem öruggar sögur fara af var Brynjólfur Gíslason frá Haugi, lengi gestgjafi í Tryggvaskála á Selfossi, sem vann til verðlauna í langstökki og 800 metra hlaupi á Þjórsártúni 1923.

Forsíða Viljans, handskrifaðs félagsblaðs Umf. Samhygðar, 7. ár 1915.

Forsíða Viljans, handskrifaðs félagsblaðs Umf. Samhygðar, 7. ár 1915.

Í lögum félagsins var kveðið á um að það skyldi gefa út blað sem yrði lesið upp á fundum þess. Fyrsta tölublaðið var lesið á fundi 22. nóvember 1908. Ritstjóri blaðsins var áðurnefndur Einar Einarsson. Blaðið var kallað Viljinn. Einar ávarpaði félagsmenn svona í blaðinu:

Nú, kæri vinur, heilsar Viljinn ykkur í fyrsta sinn og óskar ykkur til hamingju og velgengni í framtíðinni. Hann vill leitast við að vera árvakur, fræðandi og gleðjandi og eftir föngum mentandi og gæta velsæmis í öllum greinum, forðast æsingar og stóryrði. Hann vill af fremsta megni auka einingu andans, leiðrétta þá sem villtir fara með hógværum anda án þess að vera of nærgöngull við einstaklinginn. Til þess vonast hann eftir sannri samhygð frá öllu sínu liði. Að svo mæltu hefur Viljinn göngu sína í besta trausti.

Á Héraðsskjalasafni Árnesinga eru skjöl félagsins varðveitt en Jón M. Ívarsson sem ritað hefur sögu félagsins hefur verið skjalasafninu innan handar við söfnun á skjölum Samhygðar og annarra íþróttafélaga í sýslunni. Sex afhendingar með skjölum Samhygðar eru á héraðsskjalasafninu.

Heimild

  • Jón M. Ívarsson: „Brot úr 100 ára sögu Samhygðar. Fyrri hluti.“ Árnesingur X, Selfossi 2009. Bls. 31-63.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Árnesinga

Tekist á í glímu á landsmótinu 1949.

Þeir slitu glímubeltin

Tekist á í glímu á landsmótinu 1949.

Vel tekið á því í glímukeppni. Ármann J. Lárusson og Rúnar Guðmundsson glíma.

Sumarið 1949 átti að halda landsmót UMFÍ á Eiðum og hafði UÍA veg og vanda að skipulagningu mótsins í samvinnu við UMFÍ. Vorið 1949 var eitt hið versta í manna minnum og snjór yfir öllu á Austurlandi fram í maí. Í bréfi frá 27. maí 1949 segir Ármann Halldórsson kennari á Eiðum að útilokað sé að halda landsmót þar á fyrirhuguðum tíma. Hinn 8. júní var óskað eftir því að HSK tæki að sér framkvæmd mótsins og reynt yrði að koma því upp í Hveragerði. Næstu þrjár vikurnar voru vel nýttar og helgina 2. – 3. júlí kepptu og sýndu um 250 íþróttamenn í vonskuveðri og var rigningin báða mótsdagana eins og verst getur verið á Suðurlandi. Þegar leið á sunnudag batnaði veðrið og þegar ræðuhöldum lauk og fimleikaflokkur Björns Jónssonar og Hugins á Seyðisfirði sýndi var komið glaða sólskin.

Björn Jónsson frá Firði, fyrirliði fimleikaflokks íþróttafélagsins Hugins á Seyðisfirði gerir æfingar á tvíslá.

Björn Jónsson frá Firði, fyrirliði fimleikaflokks íþróttafélagsins Hugins á Seyðisfirði gerir æfingar á tvíslá.

Þriggja manna framkvæmdanefnd mótsins var skipuð þeim: Hirti Jóhannssyni frá Núpum í Ölfusi, Jóhannesi Þorsteinssyni í Hveragerði og Daníel Ágústínussyni f.h. UMFÍ. Bóas Emilsson, seinna búsettur á Selfossi, frá UÍA var ráðinn framkvæmdastjóri mótsins. Einstæðar mynd frá landsmótinu frá Daníel Ágústínussyni voru afhentar Héraðsskjalasafni Árnesinga, 2011/35 Daníel Ágústínusson.

Einar Ingimundarson leggur Ágúst Ásgrímsson.

Ármann J. Lárusson og Rúnar Guðmundsson í hörku glímu.

Í Sögu landsmóta UMFÍ 1909-1990 er þessi skemmtilega lýsing á glímu.

Tekist var sterklega á og þegar heljarmenninn Einar Ingimundarson og Ágúst Ásgrímsson kúluvarpari tóku saman slitnuðu beltin eins og fífukveikur. Fór svo tvívegis. Einar hafði að lokum sigur eftir harða glímu og Ágúst hlaut harkalega byltu sem tæplega væri dæmt gild nú á dögum en þá giltu aðrar reglur. … Ármann J. Lárusson var þá kominn fram á sjónarsviðið, kornungur en glíminn og ákaflega sterkur. Einar Ingimundarson segir svo frá að þegar þeir tóku saman skipti engum togum að Ármann svipti honum út af pallinum af heljarafli og var Einar þó með hraustari mönum.

Einari tókst þó að sigra bæði Ármann og Rúnar og í heild var þetta afar öflug glímukeppni.

Heimild

  • Viðar Hreinsson, Jón Torfason og Höskuldur Þráinsson. Saga landsmóta UMFÍ. Reykjavík 1992. Bls. 110-118.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Árnesinga

Forsíða gerðabókar Sambandsþinga UMFÍ

Ungmennafélags Íslands

Stofnþing Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) var haldið á Þingvöllum dagana 2. til 4. ágúst 1907. Starfið varð fljótlega afar blómlegt og teygðist um nánast allt land. Sambandsþing voru haldin á þriggja til fjögurra árabili. Má sjá í fundargerðarbókum að umræður urðu oft fjörugar og stundum var tekist allharkalega á.

Forsíða gerðabókar Sambandsþinga UMFÍ

Forsíða gerðabókar Sambandsþinga UMFÍ.

Hér er forsíða fyrstu gjörðabókarinnar sem hefst árið 1908. Í fundargerð sambandsþingsins 1914, sem fór fram dagana 12. til 14. júní í Reykjavík, sjást nokkur áhersluatriði starfsins á þessum árum. Fyrsta og annað mál fimmta þingfundar var íþróttir og lagabreytingar en auk þess var rætt um heimilisiðnað sem var mjög áberandi í starfi margra ungmennafélaga á þessum árum. Félögin vildu efla verkmenningu og handiðnað og búa að sínu í landinu, nýta landsins gæði.

Opna úr gerðabókinni

Opna úr gerðabókinni.

Guðmundur Davíðsson, sá sem hóf máls á þjóðgarðshugmyndinni (fjórða mál), var einmitt einn helsti hvatamaður að því að Þingvöllur var gerður að þjóðgarði. Hann mælti líka fyrir tillögu um fuglafriðun (sjöunda mál) og má víðar sjá í fundargerðum áhuga ungmennafélagsforkólfa á dýravernd almennt. Fimmti liður á dagskránni er „Fyrirlestrarmál“ en það var liður í fræðslu á vegum ungmennafélaganna sem fengu menn til að fara um landið og halda fyrirlestra. Einn kunnasti fyrirlesarinn fyrstu árin var Guðmundur Hjaltason. Fer ekki illa á að rifja upp lokin á hugvekju hans um fegurðina:

Það er sönnum æskulýð eðlilegt að vilja vera vel til fara, vera vel búinn. Þessháttar fegurðarþrá er góð sé henni stjórnað vel. Annars verður hún að óþarfri og skaðlegri skrautgirni. Það er og sönnum æskulýð sæmandi að vilja hafa fallegt í kringum sig utan húss og innan, hafa allt hreinlegt og reglulegt, prýða kringum sig með fallegum myndum eða blómum, heyra fagran söng eða hljóðfæraslátt, eiga sér einhverja ofurlitla jarðneska paradís. Það sómir líka sönnum æskulýð að bera sig vel, hreyfa sig og ganga fallega og eru íþróttir ágætt meðal til þess að læra fallegan limaburð og lipurleik í öllum hreyfingum, já, lipurleik og lagni í líkamlegri vinnu.

Heimildir

  • Jón M. Ívarsson: Vormenn Íslands, bls. 38.

Þetta efni er frá Þjóðskjalasafni Íslands