Tag Archives: Velvakandi

Algengt var um miðja síðustu öld að ferðast á vörubíl með „boddý“ á pallinum. Þarna eru unglingar að búa sig til ferðar frá Höfn

Unglingafélagið Velvakandi

Algengt var um miðja síðustu öld að ferðast á vörubíl með „boddý“ á pallinum. Þarna eru unglingar að búa sig til ferðar frá Höfn

Algengt var um miðja síðustu öld að ferðast á vörubíl með „boddý“ á pallinum. Þarna eru unglingar að búa sig til ferðar frá Höfn.

Á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar var starfandi á Höfn Unglingafélagið Velvakandi. Flestir unglingar á aldrinum milli fermingar og tvítugs munu hafa verið félagsmenn og nutu þeir aðstoðar Hallgríms Sæmundssonar kennara og æskulýðsfrömuðar. Strax á upphafsárum félagsins var ráðist í byggingu um 40m² húss í Laxárdal í Lóni sem í daglegu tali var nefnt „Skálinn“. Unglingarnir víluðu ekki fyrir sér að skreppa í Skálann af og til allan ársins hring og gista þar yfir nótt, þrátt fyrir langa göngu og oft í slæmri færð, því yfirleitt var ekki akfært alla leið.

Gestabók úr skálanum er varðveitt í Héraðsskjalasafninu þar sem m.a. má finna þessa færslu:

2. janúar 1959 fóru 13 félagar og fararstjóri hingað inn í skála.

Óli Júlíusson ók okkur inn að mýri en Jens Albertsson ók farangrinum inn í „skála“ frá vegamótunum. Var Bragi Gunnarsson með Jens en Páll Imsland sat uppá jappanum frá vegamótunum og inn í skála.

Bíllinn festist í læknum innan við hrygginn og náðist hann ekki fyrr en þeir sem komu gangandi komu til hjálpar, voru þá settar á hann keðjur og komst þá klakklaust það sem eftir var leiðarinnar. Voru þá stúlkurnar komnar inn eftir og byrjaðar að grafa snjóinn frá dyrunum, en fennt hafði fyrir alla suðurhliðina. Var þá dótið tínt út úr bílnum og fór hann svo úteftir. Um eittleytið komu svo þeir sem ókomnir voru, var þá tekið til í húsinu og borðað, svo fóru flestir út að renna sér á texplötum og aðrir á rassinum niður brekkurnar. Þá fóru allir inn að spila nema Hallgrímur sem labbaði inn í Hafradal. Síðan skemmtu menn sér við spurningakeppni.

Var þá skipt niður í vaktir og lögðust menn svo til svefns, en ekki sváfu víst allir vel og skemmtu sumir sér við að spila eða syngja. Fyrstur á vakt var Páll, þá Hildigerður og síðan hver af öðrum. Um hálfníuleytið voru þó allir komnir úr svefnpokunum og borðuðu og var þá tekið til við að spyrja aftur, en er menn ætluðu að ganga út hafði fennt fyrir dyrnar svo menn komust ekki út. Skreið þá Hildigerður út um gluggann og var hent reku á eftir og mokaði hún frá dyrunum. Um tólfleytið fóru menn að búa sig undir heimferðina.

Norðan stinnigskaldi, frost 6-8 stig, skafrenningur.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Austur-Skaftafellssýslu