Category Archives: Æskulýðsstarf

Æskulíf

Hve glöð er vor æska

Æskulíf

Æskulíf. Ljósmyndari: Gunnar Rúnar. Varðveitt í einkaskjalasafni E-225 – Íþróttabandalag Reykjavíkur. Borgarskjalasafn Reykjavíkur.

Fyrir ekki svo löngu síðan voru ekki til tölvur, tölvuleikir, net eða annað sem glepur tíma frá æskunni í dag. Sjónvarpið var ekki á fimmtudögum og fór í sumarleyfi í júlí. Ekki var eins mikið um námskeið og skipulagt starf á sumrin eins og nú er. Krakkar voru meira úti að leika sér.

Á sumrin voru krakkar úti allan daginn meira og minna og alltaf var hægt að finna upp á einhverju til að leika sér eða vera eitthvað að djöflast og á veturna voru þau úti eftir skóla. Krakkar hreyfðu sig meira og kunnu meira að finna upp á leikjum og kunnu að meta að lenda í ævintýrum. Það var ekki fylgst eins mikið með krökkunum og í dag og þeir höfðu meira frelsi.

Krakkarnir voru jafnvel fleiri í hverri fjölskyldu en nú er og það þótti sjálfsagt að þeir væru úti að leika sér. Í hvaða hverfi sem var í Reykjavík hittust krakkar eftir skóla í hópum og fóru í alls konar leiki sem oft voru fundnir upp á staðnum. Nær allir aldurshópar léku sér saman og voru oft mikil læti og fjör. Það var verið á leikvöllum, skólalóðum, boltavöllum eða þar sem var pláss. Yfirleitt léku krakkar í sama hverfi sér saman og það var stundum rígur á milli hverfa.

Farið var í alls konar boltaleiki, snú snú, teyjó, hjólböruhlaup, eltingaleiki, feluleiki, fallin spýta og parís. Oft voru leikirnir spunnir upp á staðnum. Til dæmis var leitað eftir fjársjóðum, farið í langstökkskeppnir og reynt að finna upp á nýju. Síðan voru búnar til teygjubyssur og fleiri hentug vopn.

Krakkarnir voru að leik þar til kallað var í kvöld mat kl. 19. Síðan fóru margir út að leika eftir mat og flestir átt að vera komnir inn kl. 20. Stundum voru krakkarnir blautir og skítugir upp fyrir haus þegar þeir komu inn og voru þá drifnir í boð og fengu jafnvel kakó á eftir.

Krakkarnir skiluðu sér misvel heim og stundum þurfti að kalla út lögreglu til að svipast um eftir þeim og lögreglan fylgdist líka með að útivistartíma væri fylgt. Ekki var mikið um að krakkar slösuðust en þó hefur það eflaust komið fyrir. Foreldrar fylgdust ekki mikið með krökkunum, heldur treystu þeim til að halda sér í hverfinu, passa sig og skila sér heim á réttum tíma. Þetta mundi eflaust kallast kæruleysi í dag, en það er hægt að sjá bæði kosti og galla í þeim breytingum sem nú hafa orðið.

Texti: Ásgeir Michael Einarsson

Hve glöð er vor æskaHve glöð er vor æskaHve glöð er vor æskaHve glöð er vor æska

 

Til fróðleiks er hér listi yfir leiki sem voru vinsælir á árum áður

Þetta efni er frá Borgarskjalasafni Reykjavíkur

Á leikvellinum. Bæklingar um leikvelli borgarinnar frá 1978.

Leikvellir og gæsluvellir í Reykjavík

Á leikvellinum. Bæklingar um leikvelli borgarinnar frá 1978.

Á leikvellinum. Bæklingar um leikvelli borgarinnar frá 1978. Þar kemur fram að smábarnagæsluvellir séu 32, aðrir gæsluvellir 2, opin leiksvæði 51, sparkvellir 19, körfuboltavellir 13 og starfsvellir 4 eða samtals 120 talsins.

Svipmyndir frá gæsluvöllum borgarinnar.

Svipmyndir frá gæsluvöllum borgarinnar.

Fyrsti skipulagði barnaleikvöllurinn í Reykjavík var opnaður við Grettisgötu á sumardaginn fyrsta árið 1915 að frumkvæði Kvenréttindafélags Íslands. Næstu áratugi fjölgaði gæsluvöllum hægt, skömmu eftir 1950 voru t.d. aðeins sjö slíkir í bænum auk þess við Grettisgötu voru vellirnir við Njálsgötu, Freyjugötu, Hringbraut, Vesturvallagötu og í Mæðragarðinum við Lækjargötu. Þeir voru opnir börnum á öllum aldri og leit gæslukona eftir þeim. Skúlagötuvöllurinn, sá sjöundi í röðinni, var síðan tekinn í gagnið árið 1953. Þeir voru opnir nokkrar klukkustundir á dag, fyrir og eftir hádegi og voru fyrst og fremst hugsaðir sem útivistarsvæði þar sem forráðamönnum barna var gefinn kostur á að hafa þau í öruggri gæslu frá umferð og annarri hættu.

Börn að leik á gæsluvelli.

Börn að leik á gæsluvelli.

Eftir 1960 fjölgaði leikvöllum ört því með vaxandi bílaumferð þurfti að gefa börnum kost á öruggri gæslu fáeina tíma á dag. Jafnframt voru þeir einnig mikilvæg aðstoð við barnafjölskyldur og var ætlað að létta undir með húsmæðrum. Árið 1962 voru alls nítján barnaleikvellir í borginni en auk þess var Reykvíkingum séð fyrir 31 leiksvæði fyrir börn og unglinga. Slíkum gæslulausum svæðum átti jafnframt eftir að fjölga næstu áratugi og þau skiptust í opin svæði með nokkrum leiktækjum, sparkvelli og körfuboltavelli.

Yfirlit yfir leikvelli í Reykjavík árið 1978.

Yfirlit yfir leikvelli í Reykjavík árið 1978.

Börnin kunnu vissulega að meta leikvellina og þegar þeir voru vinsælastir þyrptust yngstu borgararnir þangað og dvöldust oft löngum stundum. Og fullorðna fólkið hafði ánægju af að staldra við og fylgjast með lífinu á völlunum. Sumir krakkarnir fóru í stórfiskaleik, aðrir í síðastaleik eða boltaleik, enn aðrir vógu salt, róluðu sér, fóru í rennibrautir eða einhver önnur leiktæki. Og þeir voru ófáir sem dunduðu sér í sandkassanum, sátu þar með spaða í hönd og byggðu hvert stórhýsið af öðru af engu minni alúð en hinir fullorðnu, sem reistu smá hús og stór í nýjum íbúðarhverfum. Þannig liðu dagarnir hver af öðrum og ný leiktæki komu til sögu, t.d. klifurgrindur og jafnvægisslár sem börnin gátu ólmast í.

Á áttunda áratugnum og sér í lagi þeim níunda fór aðsókn að barnagæsluvöllum borgarinnar hins vegar hraðminnkandi enda aðstæður mjög breyttar frá fyrri tíð.

Texti: Eggert Þór Bernharðsson, sagnfræðingur.

Starfsreglur fyrir gæslukonur.

Starfsreglur fyrir gæslukonur.

Þetta efni er frá Borgarskjalasafni Reykjavíkur