Dagskrá

Eftirtalin skjalasöfn bjóða upp á opið hús á skjaladeginum, eða sýningar tengdar deginum.

Þjóðskjalasafn Íslands

Laugavegi 162, 105 Reykjavík

Þjóðskjalasafn Íslands er með opið hús að Laugavegi 162. Dagskráin fer fram í skrifstofubyggingu safnsins að Laugavegi 162, 3. hæð, gengið inn um portið.
Sjá dagskrá.

Borgarskjalasafn Reykjavíkur

Tryggvagötu 15, 101 Reykjavík

9. – 30. nóvember 2012
Sýningin „Hve glöð er vor æska?“ á 3. hæð í stigagangi Grófarhúss, Tryggvagötu 15. Meðal annars fjallað um byggingu og vígslu Laugardagsvallar, Félagsmiðstöðina Tónabæ á árum áður, siglingaklúbba í Nauthólsvík og iðkun íþrótta í Reykjavík. Opin mánudaga – föstudaga kl 10 – 18 og laugardaga og sunnudaga kl 13 – 17. Aðgangur ókeypis.

Héraðsskjalasafn Akraneskaupstaðar

Dalbraut 1, 300 Akranes

Héraðsskjalasafn Akraness tileinkar skjaladaginn Golfklúbbnum Leyni og sýnir skjöl og myndir frá starfsemi klúbbsins. Héraðsskjalasafnið verður opið frá kl 11:00 – 14:00. Heitt á könnunni.

Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar

Bjarnarbraut 4-6, 310 Borgarnes

Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar verður ekki með opið hús á norræna skjaladeginum, en sýnir í vikunni þar á eftir, 12. – 16. nóvember, skjöl og myndir sem tengjast Ungmennafélaginu Skallagrími í Borgarnesi.

Héraðsskjalasafn Dalasýslu

Miðbraut 11, 370 Búðardalur

Héraðsskjalasafn Dalasýslu verður með sýningu á skjölum frá æskulýðs- og íþróttafélögum í Dölum á norræna skjaladaginn. Sýningin verður í Byggðasafni Dalamanna á Laugum í Sælingsdal laugardaginn 10. nóvember kl. 13 – 17. Tekið á móti skjölum og fleiri gögnum frá félögunum.

ATHUGIÐ! Þar sem veðurspár gera ráð fyrir leiðinlegu veðri fyrir laugardaginn verður sýningu Héraðsskjalasafns Dalasýslu frestað til sunnudagsins 11. nóvember í von um betra veður til ferða milli bæja.

Héraðsskjalasafnið Ísafirði

Gamla sjúkrahúsinu, Safnahúsinu Eyrartúni, 400 Ísafjörður

„Knattspyrnufélagið Hörður“ er heiti sýningar sem Skjalasafnið Ísafirði verður með í tilefni af norræna skjaladeginum sem verður haldinn 10. nóvember nk. Fyrir skömmu afhenti Knattspyrnufélagið Hörður Skjalasafninu Ísafirði verulegt magn skjala og ljósmynda tilheyrandi starfsemi félagsins. Sýnd verðar skjöl og ljósmyndir úr þessari afhendingu en félagið á sér langa sögu, stofnað 27. maí 1919. Fram til ársins 1933 var knattspyrna eina íþróttagreinin sem stunduð var innan félagsins en þá var stofnuð sérstök handknattleiksdeild stúlkna og seinna bættust við frjálsar íþróttir, fimleikar, glíma og skíði. Eignuðust Harðverjar marga góða íþróttamenn sem voru fremstir á sínu sviði, margfaldir Íslandsmeistarar og kepptu á alþjóðamótum, m.a. Ólympíuleikum.

Sýningin er í Gamla sjúkrahúsinu, Safnahúsinu við Eyrartún á Ísafirði, og verður opin í nóvember á opnunartíma hússins, frá kl. 13 til 18 á virkum dögum og kl. 13 til 16 á laugardögum.

Héraðsskjalasafn Svarfdæla

Ráðhúsi Dalvíkur, 620 Dalvík

Héraðsskjalasafn Svarfdæla opnar sýningu á skjölum og myndum úr starfi ungmenna- og íþróttafélaga í Dalvíkurbyggð í andyri Bergs á norræna skjaladaginn, laugardaginn 10. nóvember kl 14:00. Sýningin verður opin út nóvember.

Héraðsskjalasafn Þingeyinga

Safnahúsinu, Stóragarði 17, 640 Húsavík

Opið hús á föstudeginum 9. nóvember frá 10:00 – 16:00 þar sem gögn ungmennafélaga verða til sýnis.

Héraðsskjalasafn Austur-Skaftafellssýslu

Nýheimum, Litlubrú 2, 780 Höfn

Á bókasafninu verður sýning á myndum og skjölum kl 13:00 – 16:00 á laugardaginn, 10. nóvember. Kaffi á könnunni. Sýningin verður síðan höfð uppi út nóvembermánuð.