Leiðari

Norræni skjaladagurinn er að þessu sinni helgaður ungmennafélögum í víðasta skilningi. Má það teljast heppilegt viðfangsefni því flest héraðsskjalasöfn varðveita slík gögn.

Um og upp úr aldamótunum 1900 fór almenn félagsstarfssemi mjög vaxandi í landinu, búnaðarfélög og lestrarfélög urðu víða til á síðari hluta 19. aldar en nú bættust við kvenfélög, sóknarnefndir, bindindisfélög og ekki síst ungmennafélög sem komu „til sögunnar eins og vorregn á skrælnaða jörð. Unga fólkið tók þeim fagnandi og leiddi þau til öndvegis um landið allt“ (Jón M. Ívarsson: Vormenn Íslands, bls. 22).

Mörg íþróttafélög komust á legg um þetta leyti. Kom svo að íþróttafélögin stofnuðu Íþróttasamband Íslands, 28. janúar 1912. Einn helsti forgöngumaðurinn var Sigurjón Pétursson glímukappi sem oftast er kenndur við Álafoss.

Skátaflokkur var stofnaður í Reykjavík sumarið 1911 en starfaði ekki reglulega þannig að stofndagur fyrsta skátafélagsins er talinn 2. nóvember 1912. Næstu ár bættust við fleiri skátafélög, árið 1922 komst fyrsta kvenskátafélagið á laggirnar og 1924 varð til Bandalag íslenskra skáta. Nafn hreyfingarinnar er dregið af enska orðinu „scout“, þ.e. njósnari, sem fyrir atbeina Pálma Pálssonar kennara í MR var íslenskað í skáti.

Fyrsta ungmennafélagið, sem bar það heiti, var stofnað á Akureyri 7. janúar 1906 og nefndist Ungmennafélag Akureyrar. Frumkvöðlar þess voru Þórhallur Bjarnason prentari og Jóhannes Jósefsson glímukappi en þeir höfðu kynnst félagsskap ungs fólks í Noregi og Danmörku á námsárum sínum ytra. Ný og ný ungmennafélög spruttu upp og fljótlega komust tengsl á milli þeirra. Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) var stofnað á Þingvöllum dagana 2.-4. ágúst 1907 og tímaritið Skinfaxi hóf göngu sína í október 1909 og hefur verið vettvangur hreyfingarinnar æ síðan.

Ungmennafélagshreyfingin var þjóðleg í bestu merkingu þess orðs og fáni hennar var hvítbláinn, hvítur kross á bláum feldi. Stefnt var að ræktun lands og lýðs með málfundum og fræðslufundum, blaðaútgáfu, stofnun bókasafna og ræktun tungunnar, m.a. með leiklistarstarfsemi. Þau unnu að skógrækt en á síðari árum landvernd í víðum skilningi. Mörg félögin komu sér líka upp félagsheimili. Þá kom til íþróttastarf sem einnig vegur þungt á verkefnaskrá hreyfingarinnar.

Landsmótin mega heita uppskeruhátíðir hreyfingarinnar. Það fyrsta var haldið á Akureyri 17. júní 1909, síðan 1911 og 1914 en þá varð hlé á mótahaldi til 1940. Upp frá því hafa þau verið haldin með nokkurn veginn þriggja ára millibili. Árið 1992 bættust svo við ungmennalandsmót sem sömuleiðis standa með blóma. Um frekari verkefni ungmennafélaganna skal vísað til stórfróðlegrar bókar Jóns M. Ívarssonar: Vormenn Íslands. Saga UMFÍ í 100 ár, sem kom út 2007.

Ungar stúlkar búast til skíðaferðar

Ungar stúlkar búast til skíðaferðar. ÞÍ. Ljósmyndasafn Jóns Bjarnasonar.

Ljósmynd á forsíðu skjaladagsvefjarins:
Kristín Bogadóttir fyrir Borgarskjalasafn Reykjavíkur.