Category Archives: Íþróttir

Upphaf átaks Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Félags héraðsskjalavarða á Íslandi í apríl 2011. Ljósmynd: Arnaldur Halldórsson fyrir ÍSÍ.

Heimildir um töp og glæstra sigra, dugnað og elju

Upphaf átaks Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Félags héraðsskjalavarða á Íslandi í apríl 2011. Ljósmynd: Arnaldur Halldórsson fyrir ÍSÍ.

Upphaf átaks Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Félags héraðsskjalavarða á Íslandi í apríl 2011. Ljósmynd: Arnaldur Halldórsson fyrir ÍSÍ.

Í tilefni af 100 ára afmæli Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands árið 2012 réðst sambandið og Félag héraðsskjalavarða á Íslandi í átak í söfnun skjala sem tengjast starfsemi íþróttafélaga og héraðssambanda um land allt, þannig að þau varðveitist á öruggan hátt og verði aðgengileg á héraðsskjalasöfnum landsins. Átakið hófst í apríl 2011 og er stefnt er að því ljúki í janúar 2013 um leið og afmælisári ÍSÍ lýkur og þá verði tekið saman yfirlit yfir þau skjalasöfn sem eru varðveitt á opinberum skjalasöfnum um land allt.

Fimleikasýning. Ljósmyndari óþekktur. Einkaskjalasafn 225. Íþróttabandalag Reykjavíkur. Borgarskjalasafn Reykjavíkur.

Fimleikasýning. Ljósmyndari óþekktur. Einkaskjalasafn 225. Íþróttabandalag Reykjavíkur. Borgarskjalasafn Reykjavíkur.

Borgarskjalasafn Reykjavíkur hefur á undanförnum árum staðið að skipulagðri söfnun skjalasafna íþróttafélaga í samvinnu við Íþróttabandalag Reykjavíkur. Öllum starfandi íþróttafélögum hefur verið ritað bréf og þau hvött til að afhenda Borgarskjalasafni skjöl sín til varðveislu. Sömuleiðis hefur verið reynt að hafa upp á skjölum eldri íþróttafélaga. Töluvert af heillegum skjalasöfnum hafa borist og hafa þau verið skráð og gengið frá þeim í öskjur til tryggilegrar geymslu til framtíðar og þannig að þau séu aðgengileg til rannsókna á lesstofu safnsins.

Fimleikasýning stúlkna. Ljósmyndari óþekktur. Einkaskjalasafn 225. Íþróttabandalag Reykjavíkur. Borgarskjalasafn Reykjavíkur.

Fimleikasýning stúlkna. Ljósmyndari óþekktur. Einkaskjalasafn 225. Íþróttabandalag Reykjavíkur. Borgarskjalasafn Reykjavíkur.

Fjöldi landsmanna hefur komið að íþróttum með einum eða öðrum hætti; sem þátttakandi, áhorfandi, stuðningsaðili eða á annan hátt. Skipulagt íþróttastarf hefur ekki síst verið blómlegt í Reykjavík, þar sem ótrúlegur fjöldi íþróttafélaga hefur starfað um lengri eða skemmri tíma. Fæst þessara félaga eiga sér skráða sögu og hún lifir mest í skjölum þeirra og í minni þeirra sem tóku þátt í störfum þeirra. Skjalasöfn íþróttafélaganna eru frumheimildir og vitnisburður um starfsemi þeirra; hvaða hugsjónir voru að baki, um baráttuna, þrotlausar æfingar til að ná árangri, töp og glæsta sigra, dugnað og elju einstakra manna við uppbyggingu félaganna, oft í ólaunuðu sjálfboðastarfi.

Handskrifaður happadrættismiði frá Íþróttafjelagi Reykjavíkur.Frá hvaða ári ætli hann sé? Varðveittur á Borgarskjalasafni Reyjavíkur.

Handskrifaður happadrættismiði frá Íþróttafjelagi Reykjavíkur.Frá hvaða ári ætli hann sé? Varðveittur á Borgarskjalasafni Reyjavíkur.

Íþróttafélög og þeir sem hafa undir höndum skjöl íþróttafélaga í Reykjavík eru hvattir til þess að hafa samband við Borgarskjalasafn Reykjavíkur sem er til hús í Grófarhúsi, Tryggvagötu 15 á 3. hæð. Safnið er opið virka daga kl. 10 til 16 og er sími þess 411 6060 og netfang borgarskjalasafn@reykjavik.is.

Texti: Svanhildur Bogadóttir

Þetta efni er frá Borgarskjalasafni Reykjavíkur

Dagskrá fyrir vígslu Íþróttaleikvangs Reykjavíkur - Laugardalsvallar 17. júní 1959.

Íþróttaleikvangur Reykjavíkur í Laugardal
Saga framkvæmdanna

Stúka Laugardalsvallar í byggingu. Ljósmyndari óþekktur. Einkaskjalasafn 225. Íþróttabandalag Reykjavíkur. Borgarskjalasafn ReykjavíkurHópfimleikar stúlkna. Ljósmyndari óþekktur. Einkaskjalasafn 225. Íþróttabandalag Reykjavíkur. Borgarskjalasafn ReykjavíkurKnattspyrnuleikur. Ljósmyndari óþekktur. Einkaskjalasafn 225. Íþróttabandalag Reykjavíkur. Borgarskjalasafn ReykjavíkurÍþróttaleikvangur Reykjavíkur – Laugardalsvöllur vígður 17. júní 1959. Ljósmyndari Gunnar Rúnar. Einkaskjalasafn 225. Íþróttabandalag Reykjavíkur. Borgarskjalasafn ReykjavíkurVið vígslu Íþróttaleikvangs Reykjavíkur – Laugardalsvallar. Ljósmyndari óþekktur. Einkaskjalasafn 225. Íþróttabandalag Reykjavíkur. Borgarskjalasafn ReykjavíkurTímataka á hlaupurum á Laugardalsvelli

Hugmynd um íþrótta- og skemmtisvæði fyrir Reykvíkinga í Laugardalnum mun fyrst hafa verið sett opinberlega fram af Sigurði Guðmundssyni málara árið 1871. Íbúafjöldi Reykjavíkur var þá 2000 manns og náði byggðin einungis að Þingholtsstræti. Þá var sú staðsetning talin vera of langt frá byggðinni og var svo talið enn undir miðja 20. öld.

Þann 2. apríl 1943 skipaði bæjarstjórn Reykjavíkur Laugardalsnefnd. Nefndin undirbjó tillögur um skipulagningu svæðisins og sendi þær til bæjarráðs hinn 24. júlí sama ár. Lagt var til að svæðið yrði skipulagt á þann veg að afnot þess yrðu sem fjölbreytilegust fyrir borgarbúa:

Á svæðinu ætti fyrst og fremst að koma upp sundlaugum og baðströnd, svo og nýtísku íþróttaleikvangi og æfingasvæðum með knattspyrnu-, handknattleiks- og tennisvöllum.

Utan þeirra svæða, sem ætluð yrðu til íþróttamannvirkja, yrði komið upp trjágróðri, bæði til skjóls og fegurðar, auk ræktunar skrautblóma til fegurðarauka. Á Laugarásnum yrði komið upp útsýnisturni, þar sem hvergi annarsstaðar í borginni gæfi að líta betra útsýni yfir hana og umhverfi hennar. Þá gerði nefndin og ráð fyrir að á svæðinu yrði reistur skáli fyrir útitónleika sem rúma myndi 5000 manns auk byggðasafns sem sýndi þróun höfuðstaðarins að ytra útliti.

Dagskrá fyrir vígslu Íþróttaleikvangs Reykjavíkur - Laugardalsvallar 17. júní 1959.

Dagskrá fyrir vígslu Íþróttaleikvangs Reykjavíkur – Laugardalsvallar 17. júní 1959.

Á árunum 1949-1950 var hafist handa við sjálfa vallargerðina. Vorið 1952 var sáð í völlinn eftir að hann hafði verið fínjafnaður og á sama tíma hófust framkvæmdir við áhorfendastæði og hlaupabraut. Sumarið 1953 hófst síðan undirbúningur að byggingu áhorfendastúkunnar, en fullgerð rúmaði hún 4000 áhorfendur, 85 m löng og 20 m breið. Gísli Halldórsson, arkitekt og forystumaður í íþróttahreyfingunni í áratugi, teiknaði Laugardalsvöllinn og hafði umsjón með framkvæmdum þar og hann teiknaði einnig Íþrótta- og sýningarhöll sem tekin var í gagnið í Laugardalnum árið 1965. Laugardalshöllin leysti af hólmi Hálogalandsbraggann, sem var rifinn árið 1968, og þar fóru lengi fram allir helstu kappleikir í handknattleik og körfubolta sem og margvísleg íþróttamót.

Á þjóðhátíðardaginn 17. júní 1959 var haldin hátíðleg vígsluhátíð leikvangsins, þrátt fyrir kulda og hvassviðri. Hófst hún með fjölmennri skrúðgöngu 530 manna hóps íþróttafólks úr íþróttafélögum Reykjavíkur. Á þessari vígsluhátíð skilaði Laugardalsnefnd leikvanginum af sér til bæjarstjórnar Reykjavíkur. Vígslumót var síðan haldið á honum dagana 3.-5. júlí og var það fjölmennasta íþróttamót sem efnt hafði verið til á Íslandi til þess dags.

Á vígsludaginn hinn 17. júní 1959 sagði í leiðara Morgunblaðsins:

Handtökin eru mörg og kostnaðurinn mikill við slík stórvirki. Engir telja þetta þó eftir því að hin ágætu mannvirki munu verða þróttmiklum æskulýð Íslands hvatning til aukinna dáða, sjálfum honum til þroska og þjóðinni allri til sæmdar.

Áhugavert er að skoða tillögur Laugardalsnefndar frá árinu 1943 og hversu margar af þeim hafa þegar komið til framkvæmda.

Texti: Þorgeir Ragnarsson.

Þetta efni er frá Borgarskjalasafni Reykjavíkur

Forsíða Viljans, handskrifaðs félagsblaðs Umf. Samhygðar, 7. ár 1915.

Ungmennafélagið Samhygð

Ungmennafélagið Samhygð í Gaulverjabæjarhreppi hefur allt frá stofnun þess á hvítasunnudag, 7. júní 1908 verið eitt af öflugustu ungmennafélögunum á Suðurlandi. Það voru þeir Ingimundur Jónsson í Holti, Páll Bjarnason í Hólum og Einar Einarsson í Brandshúsum sem voru helstu hvatamennirnir að stofnun félagsins. Stofnfélagar voru 22, 12 konur og 10 karlmenn og undirrituðu skuldbindingarskrá fyrir félagið. Að „vinna með alhug að heill þessa félagsskapar framförum sjálfra vor andlega og líkamlega, og að velferð þjóðar vorrar í öllu því sem þjóðlegt er gott og sómasamlegt.“ Samhygð var fátt óviðkomandi í hreppnum og félagið kom sér fljótlega upp bókasafni auk þess að reisa félagsheimilið Bjarmaland. Íþróttaiðkun fór hægt af stað en fyrsti keppandi Samhygðar sem öruggar sögur fara af var Brynjólfur Gíslason frá Haugi, lengi gestgjafi í Tryggvaskála á Selfossi, sem vann til verðlauna í langstökki og 800 metra hlaupi á Þjórsártúni 1923.

Forsíða Viljans, handskrifaðs félagsblaðs Umf. Samhygðar, 7. ár 1915.

Forsíða Viljans, handskrifaðs félagsblaðs Umf. Samhygðar, 7. ár 1915.

Í lögum félagsins var kveðið á um að það skyldi gefa út blað sem yrði lesið upp á fundum þess. Fyrsta tölublaðið var lesið á fundi 22. nóvember 1908. Ritstjóri blaðsins var áðurnefndur Einar Einarsson. Blaðið var kallað Viljinn. Einar ávarpaði félagsmenn svona í blaðinu:

Nú, kæri vinur, heilsar Viljinn ykkur í fyrsta sinn og óskar ykkur til hamingju og velgengni í framtíðinni. Hann vill leitast við að vera árvakur, fræðandi og gleðjandi og eftir föngum mentandi og gæta velsæmis í öllum greinum, forðast æsingar og stóryrði. Hann vill af fremsta megni auka einingu andans, leiðrétta þá sem villtir fara með hógværum anda án þess að vera of nærgöngull við einstaklinginn. Til þess vonast hann eftir sannri samhygð frá öllu sínu liði. Að svo mæltu hefur Viljinn göngu sína í besta trausti.

Á Héraðsskjalasafni Árnesinga eru skjöl félagsins varðveitt en Jón M. Ívarsson sem ritað hefur sögu félagsins hefur verið skjalasafninu innan handar við söfnun á skjölum Samhygðar og annarra íþróttafélaga í sýslunni. Sex afhendingar með skjölum Samhygðar eru á héraðsskjalasafninu.

Heimild

  • Jón M. Ívarsson: „Brot úr 100 ára sögu Samhygðar. Fyrri hluti.“ Árnesingur X, Selfossi 2009. Bls. 31-63.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Árnesinga

Tekist á í glímu á landsmótinu 1949.

Þeir slitu glímubeltin

Tekist á í glímu á landsmótinu 1949.

Vel tekið á því í glímukeppni. Ármann J. Lárusson og Rúnar Guðmundsson glíma.

Sumarið 1949 átti að halda landsmót UMFÍ á Eiðum og hafði UÍA veg og vanda að skipulagningu mótsins í samvinnu við UMFÍ. Vorið 1949 var eitt hið versta í manna minnum og snjór yfir öllu á Austurlandi fram í maí. Í bréfi frá 27. maí 1949 segir Ármann Halldórsson kennari á Eiðum að útilokað sé að halda landsmót þar á fyrirhuguðum tíma. Hinn 8. júní var óskað eftir því að HSK tæki að sér framkvæmd mótsins og reynt yrði að koma því upp í Hveragerði. Næstu þrjár vikurnar voru vel nýttar og helgina 2. – 3. júlí kepptu og sýndu um 250 íþróttamenn í vonskuveðri og var rigningin báða mótsdagana eins og verst getur verið á Suðurlandi. Þegar leið á sunnudag batnaði veðrið og þegar ræðuhöldum lauk og fimleikaflokkur Björns Jónssonar og Hugins á Seyðisfirði sýndi var komið glaða sólskin.

Björn Jónsson frá Firði, fyrirliði fimleikaflokks íþróttafélagsins Hugins á Seyðisfirði gerir æfingar á tvíslá.

Björn Jónsson frá Firði, fyrirliði fimleikaflokks íþróttafélagsins Hugins á Seyðisfirði gerir æfingar á tvíslá.

Þriggja manna framkvæmdanefnd mótsins var skipuð þeim: Hirti Jóhannssyni frá Núpum í Ölfusi, Jóhannesi Þorsteinssyni í Hveragerði og Daníel Ágústínussyni f.h. UMFÍ. Bóas Emilsson, seinna búsettur á Selfossi, frá UÍA var ráðinn framkvæmdastjóri mótsins. Einstæðar mynd frá landsmótinu frá Daníel Ágústínussyni voru afhentar Héraðsskjalasafni Árnesinga, 2011/35 Daníel Ágústínusson.

Einar Ingimundarson leggur Ágúst Ásgrímsson.

Ármann J. Lárusson og Rúnar Guðmundsson í hörku glímu.

Í Sögu landsmóta UMFÍ 1909-1990 er þessi skemmtilega lýsing á glímu.

Tekist var sterklega á og þegar heljarmenninn Einar Ingimundarson og Ágúst Ásgrímsson kúluvarpari tóku saman slitnuðu beltin eins og fífukveikur. Fór svo tvívegis. Einar hafði að lokum sigur eftir harða glímu og Ágúst hlaut harkalega byltu sem tæplega væri dæmt gild nú á dögum en þá giltu aðrar reglur. … Ármann J. Lárusson var þá kominn fram á sjónarsviðið, kornungur en glíminn og ákaflega sterkur. Einar Ingimundarson segir svo frá að þegar þeir tóku saman skipti engum togum að Ármann svipti honum út af pallinum af heljarafli og var Einar þó með hraustari mönum.

Einari tókst þó að sigra bæði Ármann og Rúnar og í heild var þetta afar öflug glímukeppni.

Heimild

  • Viðar Hreinsson, Jón Torfason og Höskuldur Þráinsson. Saga landsmóta UMFÍ. Reykjavík 1992. Bls. 110-118.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Árnesinga

Glímumenn

Að glíma fallega

Glímumenn

Glímumenn.

Á fyrstu árum tuttugustu aldar fór ungmennafélagshugsjónin um sveitir landsins eins og eldur um sinu. Í Austur-Skaftafellssýslu voru á þessum árum stofnuð ungmennafélög í hverjum hreppi. Meðal þess sem félögin höfðu á stefnuskrá sinni var að efla íþróttir, sem fram að þeim tíma höfði lítt verið stundaðar a.m.k. skipulega.

Eftirfarandi texti er úr grein birtist í Vísi, blaði ungmennafélagsins Mána í Nesjum í janúar 1909:

Íþróttir

…Hver ungur maður ætti að læra að glíma, og temja sér þegar í byrjun, að glíma vel og hugsa meira um að sýna listinni sóma með lipurð og fimleik, heldur en misþyrma henni með sviftingum og ofurkappi. Sá maður sem lærir að glíma, og vill læra að glíma fallega, má ekki eingöngu hafa það augnamið að standa sem fastast, heldur sýna list í að verjast mótstöðumanni sínum með lipurð, og kæra sig minna um þótt hann falli, því þótt mótstöðumaðurinn haldi velli er það ekki alltaf sönnun fyrir því að hann sé listfengari glímumaður en sá sem liggur.

Mér er óhætt að fullyrða að hver sá glímumaður, sem aðeins hefir það markmið fyrir augum að standa og fella mótstöðumann sinn, án tillits til listarinnar verður aldrei glímumaður, hvað oft sem hann æfir sig. Eins er með hvaða íþrótt sem er, að víðast þarf lipurð, og alltaf þurfa menn að hafa í huga að fegurðartilfinning fyrir því, að íþróttin sé leikin af list. Að þessu leyti eiga allar listir sammerkt.

Bjarni Guðmundsson.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Austur-Skaftafellssýslu

Liðsmenn Knattspyrnufélagsins Harðar og Fótboltafélags Ísafjarðar árið 1922

Knattspyrnufélagið Hörður

Liðsmenn Knattspyrnufélagsins Harðar og Fótboltafélags Ísafjarðar árið 1922

Liðsmenn Knattspyrnufélagsins Harðar og Fótboltafélags Ísafjarðar árið 1922. Síðarnefnda félagið var stofnað árið 1912 og höfðu piltarnir sem stofnuðu Hörð áður sótt æfingar hjá því félagi. Þegar knattspyrnulið bæjarins voru orðin tvö færðist mikið fjör í knattspyrnuiðkunina og voru kappleikir félaganna tíðir. Árið 1923 hætti Fótboltafélag Ísafjarðar að senda lið til keppni og var félaginu svo formlega slitið árið 1926. Eftir það hnignaði knattspyrnuiðkun um nokkurt skeið enda gátu Harðverjar þá einungis keppt innbyrðis og við gesti, t.d. erlenda sjóliða. Árið 1926 var hins vegar nýtt knattspyrnufélag, Vestri, stofnað af knattspyrnumönnum sem áður höfðu verið félagar í Fótboltafélagi Ísafjarðar.

Það var á vordögum 1919 sem 12 ungir menn komu saman í Sundstræti 41 á Ísafirði til að ræða stofnun knattspyrnufélags. Þeir höfðu áður sótt æfingar hjá Fótboltafélagi Ísafjarðar en fannst þörf á öðru félagi í bænum. Hlaut nýja félagið nafnið Knattspyrnufélagið Hörður og var fyrsta stjórnin skipuð Þórhalli Leóssyni formanni, Dagbjarti Sigurðssyni gjaldkera og Helga Guðmundssyni ritara.

Lengi vel hafði Hörður aðeins einn flokk fullorðinna en árið 1931 voru settir á stofn 2. og 3. flokkur og varð sá hópur pilta afar sigursæll er fram liðu stundir. Fram til 1933 var knattspyrna eina íþróttagreinin sem stunduð var innan félagsins en þá var stofnuð sérstök handknattleiksdeild stúlkna. Vorið 1937 gekkst Hörður fyrir námskeiði í frjálsum íþróttum og í kjölfarið eignaðist félagið fjölmarga snjalla frjálsíþróttamenn sem áttu Íslandsmet í sínum greinum og kepptu fyrir Íslands hönd á alþjóðavettvangi. Um og eftir 1940 var farið að stunda fimleikar og glímu innan vébanda félagins og um svipað leyti var farið að ræða stofnun skíðadeildar. Byggður var skíðaskáli í samvinnu við Skíðafélag Ísafjarðar og gjörbreyttist þá til hins betra öll aðstaða til að stunda skíðaíþróttina. Eignuðust Harðverjar marga afreksmenn á skíðum, konur og karla, sem urðu margfaldir Íslandsmeistarar og kepptu á alþjóðamótum, m.a. Ólympíuleikum.

Knattspyrnuleikur á Hrossataðsvöllum á Ísafirði um 1925

Knattspyrnuleikur á Hrossataðsvöllum á Ísafirði um 1925. Líklegt er að þarna hafi lið Fótboltafélags Ísafjarðar og Knattspyrnufélagsin Harðar att kappi hvort við annað. Vorið 1913 fékk Fótboltafélag Ísafjarðar heimild bæjarstjórnar til að ryðja sér leikvöll og setja upp markstangir á ytri hluta Eyrartúnsins. Leikvöllurinn var ruddur á svokölluðum Hrossataðsvöllum og þar var aðalknattspyrnuvöllur bæjarins um árabil, eða þar til Ísfirðingar gáfu sjálfum sér nýjan knattspyrnuvöll á Torfnesi í tilefni af aldarafmæli Ísafjarðarkaupstaðar árið 1966.

Hörður starfaði af krafti fram á seinni hluta 20. aldar en þá tók að draga af félaginu og undir lok aldarinnar var lítil starfsemi í gangi. Þá kom til sögunnar maður að nafni Hermann Níelsson, íþróttakennari, sem hafði verið alinn upp í Herði þegar starf félagsins var sem blómlegast. Tókst honum, ásamt samstarfsmönnum sínum, að byggja upp öfluga glímusveit innan félagsins jafnframt því sem teknar voru upp að nýju æfingar í frjálsum íþróttum og handbolta. Í dag, þegar styttist í aldarafmæli félagsins, starf Hörður af miklum krafti í þessum íþróttagreinum.

 

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Ísfirðinga

Úr gjörðabók Mánans

Knattspyrnufélag ungra drengja á Sauðárkróki

Úr gjörðabók Mánans

Úr gjörðabók Mánans.

Annan dag hvítasunnu árið 1939 hittist hópur ungra drengja á Sauðárkróki og stofnuðu með sér knattspyrnufélag. Hafði drengjunum ekki þótt nóg að gert til stuðnings knattspyrnuiðkunnar sinnar, þótt starfandi væri í bænum Ungmennafélagið Tindastóll, en þar réðu þeir eldri lögum og lofum.

Höfðu þeir nokkuð við, sömdu ítarleg lög og stunduðu síðan æfingar að kappi um nokkurt skeið. Félagið hlaut nafnið Knattspyrnufélagið Máninn, skammstafað K.F.M. og var innsigli þess hálfur máni. Félagið hélt gjörðabók sem bar að varðveitast í kassa með loki og félagið mun hafa átt einn fótbolta, sem kom auðvitað að góðum notum, þótt hann ætti til að springa með tilheyrandi fjárútlátum fyrir félagið.

Merki Mánans

Merki Mánans.

Lög félagsins bera með sér nokkra einræðistilburði ráðamanna. Þannig var formaður æðstaráð og dómstóll í öllum deilumálum og brot gegn félagssamþykktum vörðuðu brottrekstri. Þó mátti veita brotlegum inngöngu aftur „enda sé um algerða iðrun og yfirbót að ræða.“

Félagið starfaði til ársins 1942 og fer engum sögum af sigrum eða ósigrum félagsmanna en formlega var félagið lagt niður árið 1944, „gjörvöllu hreppsfélagi voru til ósegjanlegrar hryggðar“, eins og segir í sérstöku bréfi í tilefni niðurlagningarinnar. Sjóður félagsins sem taldi 145,03 krónur var afhentur Rauða krossi Íslands og gerðu gefendur ráð fyrir því að fé þetta yrði upphaf að sjóði til kaupa á sjúkrabifreið „svo auðvelt megi reynast að flytja úr víðlendu héraði voru mörgum hvillum plagaðra meðbræðra vorra og koma þeim skjótlega undir hendur þess manns eða manna, sem með kunna fara“. Hefur sjóðurinn eflaust komið að góðum notum, að minnsta kosti eignuðust Skagfirðingar sjúkrabíl og hafa drengirnir á Sauðárkróki þar lagt sinn skerf að mörkum.

Þess ber að geta að fullgildir félagsmenn þessa merkilega voru vel á þriðja tug og greiddu þeir gjald til félagsins 25 aura í senn. Heldur fækkaði félagsmönnum eftir því sem á leið, enda ýmislegt fleira nytsamlegt með peninga að gera á þessum tíma. Félagsmenn voru flestir á aldrinum 7-10 ára í upphafi og var fyrsti formaður Snorri Sigurðsson, sýslumanns á Sauðárkróki, þar í hópi elstu manna 10 ára að aldri.

Fórur félagsins bárust til Héraðsskjalasafns Skagfirðinga nú nýverið um hendur sr. Árna Sigurðssonar sem gegndi um tíma starfi gjaldkera félagsins.

 

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Skagfirðinga

Kátir krakkar á barnadegi Léttis árið 1973

Æskulýðsstarf hjá Hestamannafélaginu Létti

Kátir krakkar á barnadegi Léttis árið 1973

Kátir krakkar á barnadegi Léttis árið 1973.

Framanaf var barna- og unglingastarf innan félagins ekki með reglulegum hætti en á aðalfundi 1989 var skipað unglingaráð, sem falið var að skipuleggja þennan þátt félagsstarfsins. Stofnuð var unglingadeild fyrir aldurshópinn 5 – 16 ára og reynt að finna sem flesta fleti á starfinu svo krakkar á öllum aldri fyndu eitthvað við sitt hæfi. Á þeim tíma var óvíða komið unglingastarf hjá öðrum hestamannafélögum og fátt sem hægt var að hafa til hliðsjónar í þeim efnum.

Reiðnámskeið hafa síðan verið fastir liðir í starfinu, bæði á sumrin og á veturna. Í boði eru bæði námskeið fyrir byrjendur og svo námskeið fyrir krakka sem hafa einhverja reynslu en þá er farið í flóknari þætti, s.s. um reglur á mótum.

Knapar framtíðarinnar

Knapar framtíðarinnar. Mynd frá reiðnámskeiði í júní 1999.

Unglingadeildin hefur oft staðið fyrir ferðalögum, bæði reiðtúrum með grillveislum og rútferðum s.s. í Laufskálarétt.

Fyrsta mótið sem unglingadeildin stóð fyrir var haldið 11. júní 1989 og þótti takast mjög vel. Mun það hafa verið í fyrsta skipti sem sérstakt mót var haldið fyrir unglinga en myndband frá því móti var notað við kynningar á unglingastarfi hjá hestamannafélögum víðsvegar um landið.

Sýningar hafa líka verið snar þáttur í starfsemi unglingadeildarinnar enda hafa þær þann kost að nær allir krakkar geta tekið þátt í þeim, hvar svo sem þau eru stödd í reiðlistinni.

Loks er það félagshesthúsið Fjöðrin en húsið var keypt árið 1990 með það að markmiði að börn og unglingar gætu haft þar hesta ef þau ættu ekki kost á plássi annars staðar. Áhugasamir krakkar gátu fengið hest að láni en krakkarnir skiptu á milli sín hirðingu hrossanna, undir eftirliti húsvarðar. Núna hefur þessi þáttur unglingastarfsins fallið niður og húsið verið selt.

Heimild

  • F-128/93. Hestamannafélagið Léttir. Guðrún Hallgrímsdóttir: Æskulýðsstarf hjá Létti.

Hér má sjá gögn í skjalaskrá Héraðsskjalasafnsins á Akureyri um efnið.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafninu á Akureyri

Níu ára drengir í Skíðaráði Akureyrar í verðlaunasætum (10) vorið 1990

Andrésar Andar leikarnir á Akureyri

Níu ára drengir í Skíðaráði Akureyrar í verðlaunasætum (10) vorið 1990

Níu ára drengir í Skíðaráði Akureyrar í verðlaunasætum (10) vorið 1990.

Andrésar Andar leikarnir á Akureyri voru fyrst haldnir 3.-4. apríl 1976. Hugmyndin var nokkuð eldri en hún varð til á kaffistofu Almennra trygginga í Hafnarstræti. Það var meira fyrir tilviljun að margir þeirra sem unnu í húsinu og hittust í kaffistofunni voru áhugasamir um skíðaíþróttina og tengdust henni á einhvern hátt. Þá voru ekki landsmót fyrir yngstu aldurshópana og svo til eingöngu keppt í þeim flokkum heima í héraði en það var vilji ,,kaffiklúbbsins” að efna til barnamóts á skíðum fyrir allt land. Eftir nokkrar bollaleggingar og umræður kom til tals að tengja mótið Andrési Önd og leyfi til þess að nota Andrés var auðsótt.

Það var kaffiklúbburinn sem skipaði að verulegu leyti fyrstu framkvæmdanefndina og þeir aðilar unnu síðan að leikunum í fjöldamörg ár. Auk framkvæmdanefndarinnar koma mjög margir sjálfboðaliðar að mótinu, svo allt gangi upp. Aðeins einu sinni síðan 1976 hafa leikarnir fallið niður en það var árið 2003.

Sigurvegarar í stökki 11 ára drengja vorið 1992

Sigurvegarar í stökki 11 ára drengja vorið 1992. F.v. Þórarinn Jóhannsson Akureyri, Björgvin Björgvinsson Dalvík, Hjörtur Jónsson Akureyri.

Fyrsta árið voru 148 keppendur skráðir til leiks en fljótlega fór þeim fjölgandi og hin seinni ár hafa keppendur verið á bilinu 700 til 800. Andrésar leikarnir eru því lang fjölmennasta skíðamót landsins.

Fyrsta mótsskráin

Fyrsta mótsskráin.

Í fyrstu var einungis keppt í svigi og stórsvigi drengja og stúlkna en frá árinu 1980 hefur einnig verið keppt í göngu. Um tíma var keppt í stökki drengja en það var lagt niður og í staðinn kom risasvig. Síðar kom inn leikjabraut, án tímatöku, og þrautabraut í göngu og nú er einnig farið að keppa á brettum. Margt af þekktasta skíðafólki landsins byrjaði feril sinn á leikunum og má þar nefna fólk eins og Björgvin Björgvinsson, Nönnu Leifsdóttur, Kristin Björnsson, Guðrúnu H. Kristjánsdóttur, Daníel Hilmarsson og Guðrúnu Jónu Magnúsdóttur. Guðrún Jóna sigraði bæði í svigi og stórsvigi í sínum aldursflokki fimm ár í röð 1976-1980.

Stutt saga frá Andrésar-móti 1995

Merki Andrésar Andar leikanna á Akureyri

Merki Andrésar Andar leikanna á Akureyri.

Það er mikil stemmning í kringum unga skíðafólkið, gleðin skín úr nær hverju andliti í fjallinu og þá sérstaklega þeirra yngstu. Ég spurði eina sjö ára stúlku hvernig henni hefði gengið í sviginu. ,,Jú, bara mjög vel,” sagði hún. Ég spurði þá númer hvað hún hefði orðið. Og ekki stóð á svarinu: ,,Númer sautján.” Síðar kom í ljós að rásnúmer hennar var sautján. Það var jú aðalmálið hjá þeirri stuttu að vera með. Tíminn í brautinni skipti hana engu máli.

 

Heimildir:

  • F-339/4. Andrésar Andar leikarnir. Hermann Sigtryggsson: „Andrésar Andar leikarnir á Akureyri 30 ára“. Úrslit 20. – 23. apríl 2005.
  • F-339/11. Andrésar Andar leikarnir. Margrét Blöndal: „Andrésar Andar leikarnir 35 ára“. Andrésar Andar leikarnir 2010. 1:1, 2010. Morgunblaðið.
  • Valur B. Jónatansson: „Andrés“ Morgunblaðið 25. apríl 1995, 2D.

Hér má sjá gögn í skjalaskrá Héraðsskjalasafnsins á Akureyri um efnið.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafninu á Akureyri

Sundskáli Svarfdæla

Sundskáli Svarfdæla

Sundskáli Svarfdæla

Sundskáli Svarfdæla.

Sundskáli Svarfdæla var vígður sumardaginn fyrsta, 25. apríl 1929. Helsti hvatamaður að byggingu hans var Kristinn Jónsson sem þá kenndi sund í Svarfaðardal og á Dalvík. Það var einnig hann sem benti á hentuga staðsetningu við volgar uppsprettur í landi Tjarnargarðshorns. Bygging sundskálans tók tvö ár og var að miklu leyti unnin í sjálfboðavinnu félaga í ungmennafélögum í Svarfaðardal og Dalvík. Sveinbjörn Jónsson á Akureyri var byggingarmeistari og Arngrímur Jóhannesson á Dalvík yfirsmiður. Stærð laugarinnar er 12,5 x 5 m.

Sundskálabyggingin er um margt merkileg. Hún er ein af fyrstu yfirbyggðum sundlaugum í landinu og þak hennar er steinsteypt. Það þótti einstætt afrek á sínum tíma að bygging af þessu tagi reis í fámennu byggðarlagi. Svo vel var að byggingunni staðið að engar skemmdir urðu á húsinu þegar jarðskjálfarnir dundu yfir Dalvík og Svarfaðardal 1934. Sundskálinn var í mikilli og samfelldri notkun bæði til kennslu og fyrir almenning. Hann var endurbyggður árið 1988 og er ennþá í notkunarhæfu ástandi.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Svarfdæla