Category Archives: Ungmennafélög

Forsíða Viljans, handskrifaðs félagsblaðs Umf. Samhygðar, 7. ár 1915.

Ungmennafélagið Samhygð

Ungmennafélagið Samhygð í Gaulverjabæjarhreppi hefur allt frá stofnun þess á hvítasunnudag, 7. júní 1908 verið eitt af öflugustu ungmennafélögunum á Suðurlandi. Það voru þeir Ingimundur Jónsson í Holti, Páll Bjarnason í Hólum og Einar Einarsson í Brandshúsum sem voru helstu hvatamennirnir að stofnun félagsins. Stofnfélagar voru 22, 12 konur og 10 karlmenn og undirrituðu skuldbindingarskrá fyrir félagið. Að „vinna með alhug að heill þessa félagsskapar framförum sjálfra vor andlega og líkamlega, og að velferð þjóðar vorrar í öllu því sem þjóðlegt er gott og sómasamlegt.“ Samhygð var fátt óviðkomandi í hreppnum og félagið kom sér fljótlega upp bókasafni auk þess að reisa félagsheimilið Bjarmaland. Íþróttaiðkun fór hægt af stað en fyrsti keppandi Samhygðar sem öruggar sögur fara af var Brynjólfur Gíslason frá Haugi, lengi gestgjafi í Tryggvaskála á Selfossi, sem vann til verðlauna í langstökki og 800 metra hlaupi á Þjórsártúni 1923.

Forsíða Viljans, handskrifaðs félagsblaðs Umf. Samhygðar, 7. ár 1915.

Forsíða Viljans, handskrifaðs félagsblaðs Umf. Samhygðar, 7. ár 1915.

Í lögum félagsins var kveðið á um að það skyldi gefa út blað sem yrði lesið upp á fundum þess. Fyrsta tölublaðið var lesið á fundi 22. nóvember 1908. Ritstjóri blaðsins var áðurnefndur Einar Einarsson. Blaðið var kallað Viljinn. Einar ávarpaði félagsmenn svona í blaðinu:

Nú, kæri vinur, heilsar Viljinn ykkur í fyrsta sinn og óskar ykkur til hamingju og velgengni í framtíðinni. Hann vill leitast við að vera árvakur, fræðandi og gleðjandi og eftir föngum mentandi og gæta velsæmis í öllum greinum, forðast æsingar og stóryrði. Hann vill af fremsta megni auka einingu andans, leiðrétta þá sem villtir fara með hógværum anda án þess að vera of nærgöngull við einstaklinginn. Til þess vonast hann eftir sannri samhygð frá öllu sínu liði. Að svo mæltu hefur Viljinn göngu sína í besta trausti.

Á Héraðsskjalasafni Árnesinga eru skjöl félagsins varðveitt en Jón M. Ívarsson sem ritað hefur sögu félagsins hefur verið skjalasafninu innan handar við söfnun á skjölum Samhygðar og annarra íþróttafélaga í sýslunni. Sex afhendingar með skjölum Samhygðar eru á héraðsskjalasafninu.

Heimild

 • Jón M. Ívarsson: „Brot úr 100 ára sögu Samhygðar. Fyrri hluti.“ Árnesingur X, Selfossi 2009. Bls. 31-63.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Árnesinga

Tekist á í glímu á landsmótinu 1949.

Þeir slitu glímubeltin

Tekist á í glímu á landsmótinu 1949.

Vel tekið á því í glímukeppni. Ármann J. Lárusson og Rúnar Guðmundsson glíma.

Sumarið 1949 átti að halda landsmót UMFÍ á Eiðum og hafði UÍA veg og vanda að skipulagningu mótsins í samvinnu við UMFÍ. Vorið 1949 var eitt hið versta í manna minnum og snjór yfir öllu á Austurlandi fram í maí. Í bréfi frá 27. maí 1949 segir Ármann Halldórsson kennari á Eiðum að útilokað sé að halda landsmót þar á fyrirhuguðum tíma. Hinn 8. júní var óskað eftir því að HSK tæki að sér framkvæmd mótsins og reynt yrði að koma því upp í Hveragerði. Næstu þrjár vikurnar voru vel nýttar og helgina 2. – 3. júlí kepptu og sýndu um 250 íþróttamenn í vonskuveðri og var rigningin báða mótsdagana eins og verst getur verið á Suðurlandi. Þegar leið á sunnudag batnaði veðrið og þegar ræðuhöldum lauk og fimleikaflokkur Björns Jónssonar og Hugins á Seyðisfirði sýndi var komið glaða sólskin.

Björn Jónsson frá Firði, fyrirliði fimleikaflokks íþróttafélagsins Hugins á Seyðisfirði gerir æfingar á tvíslá.

Björn Jónsson frá Firði, fyrirliði fimleikaflokks íþróttafélagsins Hugins á Seyðisfirði gerir æfingar á tvíslá.

Þriggja manna framkvæmdanefnd mótsins var skipuð þeim: Hirti Jóhannssyni frá Núpum í Ölfusi, Jóhannesi Þorsteinssyni í Hveragerði og Daníel Ágústínussyni f.h. UMFÍ. Bóas Emilsson, seinna búsettur á Selfossi, frá UÍA var ráðinn framkvæmdastjóri mótsins. Einstæðar mynd frá landsmótinu frá Daníel Ágústínussyni voru afhentar Héraðsskjalasafni Árnesinga, 2011/35 Daníel Ágústínusson.

Einar Ingimundarson leggur Ágúst Ásgrímsson.

Ármann J. Lárusson og Rúnar Guðmundsson í hörku glímu.

Í Sögu landsmóta UMFÍ 1909-1990 er þessi skemmtilega lýsing á glímu.

Tekist var sterklega á og þegar heljarmenninn Einar Ingimundarson og Ágúst Ásgrímsson kúluvarpari tóku saman slitnuðu beltin eins og fífukveikur. Fór svo tvívegis. Einar hafði að lokum sigur eftir harða glímu og Ágúst hlaut harkalega byltu sem tæplega væri dæmt gild nú á dögum en þá giltu aðrar reglur. … Ármann J. Lárusson var þá kominn fram á sjónarsviðið, kornungur en glíminn og ákaflega sterkur. Einar Ingimundarson segir svo frá að þegar þeir tóku saman skipti engum togum að Ármann svipti honum út af pallinum af heljarafli og var Einar þó með hraustari mönum.

Einari tókst þó að sigra bæði Ármann og Rúnar og í heild var þetta afar öflug glímukeppni.

Heimild

 • Viðar Hreinsson, Jón Torfason og Höskuldur Þráinsson. Saga landsmóta UMFÍ. Reykjavík 1992. Bls. 110-118.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Árnesinga

Forsíða gerðabókar Sambandsþinga UMFÍ

Ungmennafélags Íslands

Stofnþing Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) var haldið á Þingvöllum dagana 2. til 4. ágúst 1907. Starfið varð fljótlega afar blómlegt og teygðist um nánast allt land. Sambandsþing voru haldin á þriggja til fjögurra árabili. Má sjá í fundargerðarbókum að umræður urðu oft fjörugar og stundum var tekist allharkalega á.

Forsíða gerðabókar Sambandsþinga UMFÍ

Forsíða gerðabókar Sambandsþinga UMFÍ.

Hér er forsíða fyrstu gjörðabókarinnar sem hefst árið 1908. Í fundargerð sambandsþingsins 1914, sem fór fram dagana 12. til 14. júní í Reykjavík, sjást nokkur áhersluatriði starfsins á þessum árum. Fyrsta og annað mál fimmta þingfundar var íþróttir og lagabreytingar en auk þess var rætt um heimilisiðnað sem var mjög áberandi í starfi margra ungmennafélaga á þessum árum. Félögin vildu efla verkmenningu og handiðnað og búa að sínu í landinu, nýta landsins gæði.

Opna úr gerðabókinni

Opna úr gerðabókinni.

Guðmundur Davíðsson, sá sem hóf máls á þjóðgarðshugmyndinni (fjórða mál), var einmitt einn helsti hvatamaður að því að Þingvöllur var gerður að þjóðgarði. Hann mælti líka fyrir tillögu um fuglafriðun (sjöunda mál) og má víðar sjá í fundargerðum áhuga ungmennafélagsforkólfa á dýravernd almennt. Fimmti liður á dagskránni er „Fyrirlestrarmál“ en það var liður í fræðslu á vegum ungmennafélaganna sem fengu menn til að fara um landið og halda fyrirlestra. Einn kunnasti fyrirlesarinn fyrstu árin var Guðmundur Hjaltason. Fer ekki illa á að rifja upp lokin á hugvekju hans um fegurðina:

Það er sönnum æskulýð eðlilegt að vilja vera vel til fara, vera vel búinn. Þessháttar fegurðarþrá er góð sé henni stjórnað vel. Annars verður hún að óþarfri og skaðlegri skrautgirni. Það er og sönnum æskulýð sæmandi að vilja hafa fallegt í kringum sig utan húss og innan, hafa allt hreinlegt og reglulegt, prýða kringum sig með fallegum myndum eða blómum, heyra fagran söng eða hljóðfæraslátt, eiga sér einhverja ofurlitla jarðneska paradís. Það sómir líka sönnum æskulýð að bera sig vel, hreyfa sig og ganga fallega og eru íþróttir ágætt meðal til þess að læra fallegan limaburð og lipurleik í öllum hreyfingum, já, lipurleik og lagni í líkamlegri vinnu.

Heimildir

 • Jón M. Ívarsson: Vormenn Íslands, bls. 38.

Þetta efni er frá Þjóðskjalasafni Íslands

Algengt var um miðja síðustu öld að ferðast á vörubíl með „boddý“ á pallinum. Þarna eru unglingar að búa sig til ferðar frá Höfn

Unglingafélagið Velvakandi

Algengt var um miðja síðustu öld að ferðast á vörubíl með „boddý“ á pallinum. Þarna eru unglingar að búa sig til ferðar frá Höfn

Algengt var um miðja síðustu öld að ferðast á vörubíl með „boddý“ á pallinum. Þarna eru unglingar að búa sig til ferðar frá Höfn.

Á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar var starfandi á Höfn Unglingafélagið Velvakandi. Flestir unglingar á aldrinum milli fermingar og tvítugs munu hafa verið félagsmenn og nutu þeir aðstoðar Hallgríms Sæmundssonar kennara og æskulýðsfrömuðar. Strax á upphafsárum félagsins var ráðist í byggingu um 40m² húss í Laxárdal í Lóni sem í daglegu tali var nefnt „Skálinn“. Unglingarnir víluðu ekki fyrir sér að skreppa í Skálann af og til allan ársins hring og gista þar yfir nótt, þrátt fyrir langa göngu og oft í slæmri færð, því yfirleitt var ekki akfært alla leið.

Gestabók úr skálanum er varðveitt í Héraðsskjalasafninu þar sem m.a. má finna þessa færslu:

2. janúar 1959 fóru 13 félagar og fararstjóri hingað inn í skála.

Óli Júlíusson ók okkur inn að mýri en Jens Albertsson ók farangrinum inn í „skála“ frá vegamótunum. Var Bragi Gunnarsson með Jens en Páll Imsland sat uppá jappanum frá vegamótunum og inn í skála.

Bíllinn festist í læknum innan við hrygginn og náðist hann ekki fyrr en þeir sem komu gangandi komu til hjálpar, voru þá settar á hann keðjur og komst þá klakklaust það sem eftir var leiðarinnar. Voru þá stúlkurnar komnar inn eftir og byrjaðar að grafa snjóinn frá dyrunum, en fennt hafði fyrir alla suðurhliðina. Var þá dótið tínt út úr bílnum og fór hann svo úteftir. Um eittleytið komu svo þeir sem ókomnir voru, var þá tekið til í húsinu og borðað, svo fóru flestir út að renna sér á texplötum og aðrir á rassinum niður brekkurnar. Þá fóru allir inn að spila nema Hallgrímur sem labbaði inn í Hafradal. Síðan skemmtu menn sér við spurningakeppni.

Var þá skipt niður í vaktir og lögðust menn svo til svefns, en ekki sváfu víst allir vel og skemmtu sumir sér við að spila eða syngja. Fyrstur á vakt var Páll, þá Hildigerður og síðan hver af öðrum. Um hálfníuleytið voru þó allir komnir úr svefnpokunum og borðuðu og var þá tekið til við að spyrja aftur, en er menn ætluðu að ganga út hafði fennt fyrir dyrnar svo menn komust ekki út. Skreið þá Hildigerður út um gluggann og var hent reku á eftir og mokaði hún frá dyrunum. Um tólfleytið fóru menn að búa sig undir heimferðina.

Norðan stinnigskaldi, frost 6-8 stig, skafrenningur.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Austur-Skaftafellssýslu

Glímumenn

Að glíma fallega

Glímumenn

Glímumenn.

Á fyrstu árum tuttugustu aldar fór ungmennafélagshugsjónin um sveitir landsins eins og eldur um sinu. Í Austur-Skaftafellssýslu voru á þessum árum stofnuð ungmennafélög í hverjum hreppi. Meðal þess sem félögin höfðu á stefnuskrá sinni var að efla íþróttir, sem fram að þeim tíma höfði lítt verið stundaðar a.m.k. skipulega.

Eftirfarandi texti er úr grein birtist í Vísi, blaði ungmennafélagsins Mána í Nesjum í janúar 1909:

Íþróttir

…Hver ungur maður ætti að læra að glíma, og temja sér þegar í byrjun, að glíma vel og hugsa meira um að sýna listinni sóma með lipurð og fimleik, heldur en misþyrma henni með sviftingum og ofurkappi. Sá maður sem lærir að glíma, og vill læra að glíma fallega, má ekki eingöngu hafa það augnamið að standa sem fastast, heldur sýna list í að verjast mótstöðumanni sínum með lipurð, og kæra sig minna um þótt hann falli, því þótt mótstöðumaðurinn haldi velli er það ekki alltaf sönnun fyrir því að hann sé listfengari glímumaður en sá sem liggur.

Mér er óhætt að fullyrða að hver sá glímumaður, sem aðeins hefir það markmið fyrir augum að standa og fella mótstöðumann sinn, án tillits til listarinnar verður aldrei glímumaður, hvað oft sem hann æfir sig. Eins er með hvaða íþrótt sem er, að víðast þarf lipurð, og alltaf þurfa menn að hafa í huga að fegurðartilfinning fyrir því, að íþróttin sé leikin af list. Að þessu leyti eiga allar listir sammerkt.

Bjarni Guðmundsson.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Austur-Skaftafellssýslu

Á sumarsamkomu Ungmennafélagsins Egils rauða í Kirkjubólsteigi árið 1922.

Ungmennafélagið Egill rauði

Á sumarsamkomu Ungmennafélagsins Egils rauða í Kirkjubólsteigi árið 1922.

Á sumarsamkomu Ungmennafélagsins Egils rauða í Kirkjubólsteigi sennilega árið 1922. Á myndinni sjást tjöld sem reist voru vegna sölu veitinga og fjær eru hestar samkomugesta á beit. Ljósmynd: Björn Björnssson.

Hinn 13.júní 1915 var ungmennafélag stofnað í Norðfjarðarsveit er nefnt var „Ungmennafélagið Egill rauði“. Þá þegar gerðust 22 einstaklingar, 13 karlar og 9 konur, stofnfélagar.

Fyrstu árin sem Ungmennafélagið Egill rauði starfaði undirrituðu nýir félagar eftirfarandi skuldbindingar:

Ég undirritaður meðlimur þessa félags, skuldbind mig til, að vinna að því, að fremsta megni að útrýma allri tóbaks nautn að svo miklu leyti sem hægt er.

Hindra blót og ljótan munnsöfnuð, áfengisnautn og allt sem er siðspillandi. Ég skal vinna af alhug að heill þessa félags, framförum sjálfs míns, andlega og líkamlega og að velferð og sóma þjóðarinnar í öllu því, sem þjóðlegt er, gott og gagnlegt. – Lögum og fyrirskipunum félagsins vil ég í öllu hlýða og leggja fram krafta mína sérplægnislaust til allra þeirra starfa er mér kynni að verða falið á hendur að vinna fyrir félagið.

Meðal þeirra verkefna sem Ungmennafélagið Egill rauði stóð fyrir um áraraðir voru sumarsamkomur í Kirkjubólsteigi í Norðfirði.

Um tíma gaf Ungmennafélagið Egill rauði út handskrifað félagsblað, Vorboða, sem hóf göngu sína árið 1917.

Forsíða fyrsta tölublaðs Vorboða

Forsíða fyrsta tölublaðs Vorboða.

Ungmennafélagið Egill rauði er enn starfandi árið 2012.

Heimildir

 • Smári Geirsson. Norðfjarðarsaga II, síðari hluti frá 1895-1929.
 • Gerðabækur og gögn félagsins í vörslu Héraðsskjalasafns Neskaupstaðar.
 • Myndir í eigu og vörslu Skjala- og myndasafns og Héraðsskjalasafns Neskaupstaðar.

 

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Neskaupstaðar

 

Upphaf fundargerðar stofnfundar Ungmennafélags Norðfjarðar

Ungmennafélag Norðfjarðar

Upphaf fundargerðar stofnfundar Ungmennafélags Norðfjarðar

Upphaf fundargerðar stofnfundar Ungmennafélags Norðfjarðar.

Hinn 16.október 1910 var haldinn fundur í Góðtemplarahúsinu á Nesi í Norðfirði í þeim tilgangi að ræða stofnun ungmennafélags í byggðarlaginu. Fundarboðendur voru þeir Valdimar Sigmundsson Long skólastjóri og Guðmundur Halldórsson.

Á fundinum rakti Guðmundur Halldórsson sögu ungmennafélagshreyfingarinnar á Íslandi en þegar hann hafði lokið máli sínu greindi Valdimar frá stefnu og starfsemi ungmennafélaganna. Þegar fundarboðendur hofðu flutt framsöguerindi sín var skorað á fundarmenn að gerast félagar í ungmennafélagi sem stofnað yrði á fundinum og gáfu sig strax fram 25 menn sem undirrituðu skuldbindingaskrá Ungmennafélags Íslands. Því næst var félagið stofnað og fór þegar fram stjórnarkjör. Valdimar Sigmundsson var kjörinn formaður félagsins, Hjálmar Ólafsson ritari og Jónas Andrésson gjaldkeri. Hinni nýkjörnu stjórn var falið að semja lög félagsins.

1. gr. Félagið heitir „Ungmennafélag Norðfjarðar“.

2. gr. Tilgangur félagsins er þessi:

1. Að reyna af alefli að vekja löngun hjá æskulýðnum til þess að vinna að frelsi, framförum og heill sjálfra sín og þjóðfélagsins.

2. Að temja sér að beita starfskröftum sínum bæði innan félags og utan.

3. Að reyna af fremsta megni að styðja vernda og efla allt það sem þjóðlegt er, gott og gagnlegt, og annað það, sem horfir til gagns og sóma íslensku þjóðinni. Sérstaklega skal lögð stund á að fegra og hreinsa móðurmálið.

3. gr. Að tilgangi sínum vinnur félagið meó því að halda fundi og umræður fari fram, upplestur, söngur, íþróttir og annað það, sem lýtur að líkamlegu og andlegu atgerfi.

4. gr. Félagar geta þeir einir orðið sem eru heimilisfastir innan þessa héraðs og eru 14 ára að aldri, vilja vita starf sitt á kristilegum grundvelli og gangast undir skuldbingingaskrá U .M.F. Íslands.

Unnið að byggingu sundlaugar er Ungmennafélagið Norðfiðingur hóf að byggja árið 1912

Unnið á vegum Málfundafélagsins Austra árið 1920 að byggingu sundlaugarinnar er Ungmennafélagið Norðfiðingur hóf að byggja árið 1912.

Eitt af verkefnum félgasins var að hefja framkvæmdir við byggingu sundlaugar á Norðfirði árið 1912, sem var þó ekkki lokið við fyrr en 1920 og þá að frumkvæði Málfundafélagsins Austra á Norðfirði.

Ekki eru til heimildir um starfsemi Ungmennafélags Norðfjarðar eftir árið 1913. Vera kann að félagið hafi starfað eitthvað lengur en víst er að á árinu 1913 dró verulega úr þeim krafti sem verið hafði í félagsstarfinu.

Heimildir

 • Smári Geirsson. Norðfjarðarsaga II, síðari hluti frá 1895-1929.
 • Gerðabækur og gögn félagsins í vörslu Héraðsskjalasafns Neskaupstaðar.
 • Myndir í eigu og vörslu Skjala- og myndasafns og Héraðsskjalasafns Neskaupstaðar.

 

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Neskaupstaðar

 

Fyrsta opna bókarinnar

Mótabók Aftureldingar og Drengs

Fyrsta opna bókarinnar

Fyrsta opna bókarinnar.

Bókin er einn mesti dýrgripur Héraðsskjalasafns Mosfellsbæjar og segja má að umbúnaður hennar sé ekki minni dýrgripur, en bókin liggur í trékassa sem útskorinn er af Ríkharði Jónssyni myndhöggvara og tréskurðarlistamanni. Þar fyrir utan koma tveir járnkassar.

Á fyrstu síðu bókarinnar er að finna kvæði eftir Björn Bjarnarson bónda, hreppsnefndar- og alþingismann frá Grafarholti í Mosfellssveit.

Á sömu opnu er skrautrituð lýsing á bókinni, rituð af Steindóri Björnssyni sem kenndi sig við Gröf og var sonur Björns frá Grafarholti. Þess ber að geta að Steindór skrifaði sjö fyrstu mótin í bókina.

Fyrsta mótið sem getið er í bókinni var haldið á Mógilsáreyrum í Kollafirði 14. júlí 1918 milli keppenda frá Ungmennafélögunum Aftureldingu og Drengs úr Kjós. Keppendur voru 19 talsins og keppt var í fimm greinum, íslenskri glímu, langstökki, hástökki, 100m hlaupi og 50m sundi.

Síðasta mót sem skráð er í bókina er frá 1953 og var haldið á Leirvogstungubökkum. Keppendur voru 16 talsins og keppt var í 7 greinum, 100m hlaupi, kúluvarpi, kringlukasti, hástökki, langstökki, spjótkasti og 3000m hlaupi. Auk Ungmennafélaganna Aftureldingar og Drengs tók Ungmennafélag Kjalnesinga nú einnig þátt í mótinu.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Mosfellsbæjar

 

Neðri-Sandvík í Borgarnesi.

Þegar nýi íþróttavöllurinn var tekinn undir bragga

Neðri-Sandvík í Borgarnesi.

Neðri-Sandvík í Borgarnesi. Ljósmynd sem sýnir svæðið eftir að búið er að reisa braggana. Úr albúmi Jóns Guðmundssonar Hundastapa.

Að kvöldi 19. september 1940 var sá langþráði draumur félaga Ungmennafélagsins Skallagríms í Borgarnesi að fá íþróttavöll alveg við að verða loksins að veruleika. Þetta átti að verða grasvöllur, sá fyrsti hér á landi.

Um þetta má lesa í ritgerð þar sem Friðrik Þorvaldsson hafnarvörður og stjórnarmaður í ungmennafélaginu skrifar eftirfarandi:

[Um kvöldið] hafði hópur ungmennafélaga unnið við að tyrfa knattspyrnuvöllinn í Neðri-Sandvík en aðrir unnið við að rista og flytja þökur ofan frá Hamri. Svo vel hafði verkið sótzt undanfarin kvöld, að ákveðið var að sækja síðustu þökurnar næstu kvöldstund, enda liðið fram á nótt og aðeins fáeinir fermetrar óþaktir. Þannig mætti njóta síðustu handtakanna án strangasta álags, og að verki loknu mætti fá hvíld til að hugleiða önnur aðkallandi verkefni.

En þessi áform urðu að engu. Næsta dag var Friðrik snemma á fótum. Von var á Eldborginni með morgunflóðinu en hún var að koma úr söluferð frá Englandi. Friðrik skrifar:

Ég var því snemma á ferli og gladdist mjög er ég sá skip utan Miðfjarðarskers. Ekki hafði ég lengi horft er mér fannst sem skipið bæri hraðar að en ég átti að venjast. Þetta reyndist vera herflutningaskip og er það kenndi bryggjunnar þustu frá borði fans vopnaðra manna. En á meðan hermennirnir hnöppuðust saman á bryggjunni og sötruðu úr stórum föntum te, sem þeim var borið í einhverskonar keröldum, nálgaðist sú stund, sem varð erfið, bæði fyrir mig og ungmennafélagið. Herstjórnin hafði sjáanlega aflað sér upplýsinga því óðar en varði krafðist hún að fá til sinna þarfa samkomuhúsið og íþróttavöllinn.

Þrátt fyrir mikla óánægju ungmennafélaga létu þeir undan kröfum breska hersins og síðustu grasþökurnar voru því aldrei sóttar og enginn knattspyrnuleikur var háður á þessum grasvelli. Risu þarna síðan upp herbúðir miklar. Þegar setuliðið fór undir stríðslok fékk ungmennafélagið íþróttasvæðið afhent á ný. Var þá svæðið í slæmu ásigkomulagi og kostaði mikla vinnu að ryðja það á ný. Gerði félagið þarna síðan malarvöll sem notaður var til knattspyrnu- og íþróttaæfinga alveg þar til nýi íþróttavöllurinn hjá Íþróttahúsinu var tekinn í notkun. Nú stendur Menntaskóli Borgfirðinga á svæðinu.

Heimildir:

 • Jón Helgason. Hundrað ár í Borgarnesi. 1967. Bls. 301-302.
 • Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar. „Ungmennafélagið Skallagrímur í Borgarnesi“, EF 30 27-2. Ritgerð skrifuð í fyrirhugað afmælisrit UMF Skallagríms á 60 ára afmæli þess eftir Friðrik Þorvaldsson.
Bls 5 úr ritgerð eftir Friðrik Þorvaldsson

Bls 5 úr ritgerð eftir Friðrik Þorvaldsson, sem skrifuð var í fyrirhugað afmælisrit UMF Skallagríms á 60 ára afmæli þess.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar

Forsíða Vetrarbrautarinnar 1918-1919

Gluggað í gjörðabækur

Fundur Umf. Vonar 10. ágúst 1942 að Stakkabergi

Fundin sóttu 13 félagar. Gerðir fundarins voru þessar. 1. Söngur. 2. Formaður setti fundin og tilnefndi … fundarstjóra og … fundar ritara. 3. Rætt um áskorun (um boðhlaup) frá úmf. Dögun. Samþykkt var með öllum greiddum atkvæðum að hafna áskoruninni. 4. Farið í leiki. 5. Súngin nokkur lög. Upplesið  Samþ. Fundi slitið.

Gjörðabók Ungmennafélagsins Vonar í Klofningshreppi 1936-1946.

 Aðalfundur Umf. Stjörnunnar 15. febrúar 1925

Jóh. B. Jónasson flutti fyrirlestur um ungmennafélagsskapinn hjer í sveit. Áminnti hann fjelagsmenn um að leggja meiri stund á andlegt uppeldi sitt en verið hefur að undanförnu og temja sjer í hvervetna að koma fram sem sannir ungmennafélagar. Var fyrirlesara þakkað með lófataki.

Gjörðabók ofl. Ungmennafjelagsins “Stjarnan” Saurbæjarhreppi 1917-1957. Bls. 101

 Baðstofukveld Umf. Unnar djúpúðgu 10. apríl 1932 á Laugum

Klukkan 9 að kvöldi hófst baðstofukvöldið, þá voru samankomnir á staðnum 18 fjelagar og 3 gestir. Byrjað var þá strags á vinnunni, hver hafði sitt verk að vinna …. Vinnan var margskonar svo sem: saumur, prjón, spuni, þóf, gjarða- og reiphaldasmíði, gimbing, bókband o.fl. Nokkrir pilta og stúlkur skiftust á að lesa upp og kveða. Lesið var úr fornsögum og þjóðsögum, en kveðið mest lausavísur og smárímur. Þegar vinnan hafði staðið yfir 3 klukkustundir var kaffi með brauði um borð borið og var háð þar allfjörug samdrykkja. Að því loknu voru borð upp tekin og allir söfnuðust saman og áttu að síðustu þarna hátíðlega stund.

U.M.F. Unnur djúpúðga. Fundargerðir 1929-1935.

 Aðalfundur Sundfélags Hörðdælinga 4. júní 1939 í Laugardal

Tillaga kom fram um það að félagið komi sér upp girðingu til að rækta í trjáplöntur við sundlaugina og kýs þrjá menn til að athuga og undirbúa málið fyrir næsta vor. Tillagan var samþykkt.

Gjörðabók Sundfélags Hörðdælinga 1932-1940.

 

Forsíða Vetrarbrautarinnar 1918-1919

Forsíða Vetrarbrautarinnar 1918-1919, tímarits Ungmennafélagsins Ólafs pá í Laxárdalshreppi, Dalasýslu.

Fundur Umf. Ólafs Páa 7. júní 1925 að Spákellsstöðum

Formaður átaldi fundar- og félagsmenn fyrir þögn á fundum og hvatti menn til að tala og tala eins og maður væri að tala við kunningja sinn. … Á þessum fundi vor fluttar eftirtaldar ræður, auk upplesturs – og samtals – sem óþarflega mikið var gert að. Formaður Skúli Jóhannesson 16 ræður. Jóhann Bjarnason 13 ræður. Hallgrímur Jónsson 13 ræður. Óskar Sumarliðason gjaldk. 11 ræður. Fleiri töluðu ekki.

Fundarbók ungmennafélagsins “Ólafur Pái” 1909-1928.

 Fundur Umf. Dögunar 24. mars 1929 í Túngarði

K. G. bar fram tillögu um að félagar Dögunar legðu niður kossa sem almenna kveðju á fundum og samkomum félagsins. Sagði hún að sér findist þettað vera spor í áttina að temja sér kurteisa framkomu. Fleiri voru á sama máli og var tillagan rædd frá ímsum hliðum var síðan samþigt af öllum viðstöddum félagsmönnum.

Gjörðabók ungmennafélagsins “Dögun” 1922-1936. Bls. 39

 Fundur Umf. Æskunnar 3. apríl 1932 á Nesodda

Fundurinn ákveður að byggja hús á Nesodda að stærð 10×12 ál. á næstkomandi vori ef hægt verður að fá lán til byggjingarinnar og er stjórninni falið framkvæmd á því og jafnframt að sjá um innkaup á efni.

Samkvæmt reikningum félagsins fyrir árið 1932 varð byggingakostnaður hússins 2.138,12 kr. Félagið þurfti að taka að láni 1.500 kr lán, sem það lauk að borga af 1941.

Gjörðabók Umf. Æskan 1930-1934

Reikningar Umf. Æskan 1928-1939 og 1940-1950.

Kvöldvaka Umf. Vöku í janúar 1960 í Búðardal

Var leikinn skemmtiþáttur. Brynjólfur Haraldsson las upp sögu. Ingibjörg Kristinsdóttir söng gamanvísur. Gísli Brynjólfsson las upp glens um hreppsbúa. Spurningaþáttur undir stjórn Jóns Finnssonar. Síðan var Félagsvist og að lokum dansað. Veitingar sem Guðbjörg og Dísa sáu um voru alveg indislegar.

Gjörðabók U.M.F. “Tilraun” / “Vaka” í Skarðshreppi. 1929-1986.

Gjörðabók Ungmennafélagsins Völu í Skarðshreppi, Dalasýslu.

Gjörðabók Ungmennafélagsins Vöku í Skarðshreppi, Dalasýslu.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Dalasýslu