Category Archives: Vélhjólaklúbbar

Félagar úr Eldingu æfa fáka sína á Reykjavíkurflugvelli.

Þeyst um á skellinöðrum

Félagar úr Eldingu æfa fáka sína á Reykjavíkurflugvelli.

Félagar úr Eldingu æfa fáka sína á Reykjavíkurflugvelli. Ljósmynd: Gunnar Rúnar Ólafsson fyrir Æskulýðsráð Reykjavíkur (Ljósmyndasafn Reykjavíkur).

Forsíða á fyrstu fundagerðarbók Vélhjólaklúbbsins Eldingar í Reykjavík. Þar má smá merki félagsins.

Forsíða á fyrstu fundagerðarbók Vélhjólaklúbbsins Eldingar í Reykjavík. Þar má sjá merki félagsins.

Þegar Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur tæmdi húsið að Fríkirkjuvegi 11 við flutning, komu í ljós á háalofti mikið af eldri skjölum tengdum æskulýðsmálum í Reykjavík og voru þau afhent Borgarskjalsafni til varðveislu. Þar á meðal fundust skjöl frá Vélhjólaklúbbnum Eldingu sem er elsti vélhjólaklúbbur landsins. Meðal skjala í safninu eru fundargerðabók Vélhjólaklúbbsins Eldingar, frá 16. nóvember 1960 til 13. febrúar 1963 og gestabók frá 13. apríl 1972 til 10. apríl 1975.

Fyrsta Gestabók Vélhjólaklúbbsins Eldingar í Reykjavík sem stofnaður var árið 1960.

Fyrsta Gestabók Vélhjólaklúbbsins Eldingar í Reykjavík sem stofnaður var árið 1960.

Á vefsíðu Bifhjólasamtaka Íslands kemur fram að þótt mótorhjól hafi verið notuð á Íslandi í yfir 100 ár, þá hafi fyrsti mótorhjólaklúbburinn ekki stofnaður fyrr en 55 árum eftir að fyrsta hjólið kom til landsins. Árið 1945 voru skráð á landinu 127 hjól og þar af 42 í Reykjavík, en tíu árum seinna árið 1956 eru hjólin í Reykjavík orðin 60 talsins.

Möguleg ástæða þess að ekki var komin klúbbur fyrr gæti verið sú að meira var litið á vélhjólin sem fararskjóta og atvinnutæki heldur en leiktæki og afþreyingu en þess má geta að árið 1956 eru meðal skráðra eigenda vélhjóla Tóbakseinkasala ríkisins, Ríkisútvarpið, Rúgbrauðsgerðin, Landssíminn og Almennar tryggingar. Í nóvember 1960 er síðan stofnaður Vélhjólaklúbburinn Elding sem er eiginlegt upphaf hjólamenningar á Íslandi eins og við þekkjum í dag.

Fundargerð frá 25. október 2961, þar sem lýst er starfsemi klúbbsins.

Fundargerð frá 25. október 2961, þar sem lýst er starfsemi klúbbsins.

Njáll Gunnlaugsson skrifaði árið 2004 ritið Þá riðu hetjur um héruð, 100 ára sögu mótorhjólsins á Íslandi sem Pjaxi ehf gaf út en það rit er meðal annars fáanlegt hjá Bifhjólasamtökum Íslands (Sniglum).

Þá skrifaði Snædís Góa Guðmundsdóttir BA ritgerð í félagsfræði í júní 2010 undir heitinu „Ekkert lögmál er öllum þekkt: Hefðir og lífsstíll 1% mótorhjólamanna“. Í ritgerð hennar kemur eftirfarandi fram:

Bifhjólaklúbburinn Elding var stofnaður í nóvember árið 1960 af Jóni Pálssyni. Markmiðið með stofnun klúbbsins var að koma á föstum fundum fyrir liðsmenn þar sem fræðsla um umferðamál yrði komið á. Með þessu átti að koma skellinöðrustrákunum af götunni. Annað markmiðið var að fá viðeigandi æfingarsvæði fyrir æfingar á vélhjólum og einnig aðstöðu til viðgerða á þeim. Aðstaða klúbbsins var í golfskálanum í Litlu-Öskjuhlíð og var maður kallaður Siggi Palestína aðaldriffjöður klúbbsins. Hann kenndi akstur og fór með liðsmenn í ferðir. Meðlimir áttu ekki að mæta á skítugum eða á illa búnum hjólum á fundi eða í ferðir með Sigga sem gerði það að verkum að umskipti til hins betra urðu fljótt á bæði hjólum og eigendum þeirra. Meðlimir fengu einnig verðlaun fyrir góða mætingu, þeir máttu æfa á skellinöðrunum í aðstöðu á Reykjavíkurflugvelli (Njáll Gunnlaugsson, 2004). Klúbburinn Elding fór eftir ákveðnum lögum. Þar kom meðal annars fram að allir geta orðið meðlimir bæði strákar og stelpur frá 14 ára og eldri sem hafa áhuga á viðgerðum og notkun vélhjóla. Markmiðin voru meðal annars að koma á föstum fræðslu-og skemmtikvöldum fyrir meðlimi, fræðsla um umferðamál, fá æfingarsvæði og koma á æfingum. Gefa félögum færi á að gera við sín eigin hjól, efna til hæfnisprófa og ferðalaga. Umferðalögreglan í Reykjavík og Æskulýðsráð Reykjavíkur voru með einn ráðunaut hvor áfundum, þeir voru með í ráðum hvað varðar klúbbinn og gæta hagsmuna klúbbsins út á við. Klúbbstjórnin samanstóð af þremur mönnum og tveimur öðrum til vara, sem voru skipaðir af ráðunautum klúbbsins. Stjórnin og ráðanautar sömdu reglur um hæfnispróf umferðinni og aðra þætti sem viðkom starfi klúbbsins. Meðlimir mæti vel á fundi og æfingar klúbbsins og vernda heiður hans með góðri framkomu sérstaklega í umferðinni. (Njáll Gunnlaugsson, 2004).

Elding var vinsæll klúbbur og voru 207 skráðir félagar frá 1962. Hins vegar dró úr hjólaæðinu þegar meðlimir fengu aldur til að taka bílpróf. Nokkrir meðlimir héldu samt áfram.

(Snædís Góa Guðmundsdóttir, 2010, bls. 44-45)

Samantekt: Svanhildur Bogadóttir.

Heimildir

  • Hjólamenningin. Bifhjólasamtök Íslands. http://www.sniglar.is/hjolamenningin/49-hjolamenningin.
  • Njáll Gunnlaugsson (2004). Þá riðu hetjur um héruð, 100 ára sögu mótorhjólsins á Íslandi. Pjaxi ehf. Reykjavík. M.a. fáanlegt hjá Bifhjólasamtökum Íslands (Sniglum).
  • Snædís Góa Guðmundsdóttir (2010). Ekkert lögmál er öllum þekkt: Hefðir og lífsstíll 1% mótorhjólamanna. BA ritgerð í félagsfræði við Háskóla Íslands. Óbirt. Sótt 5. nóv. 2012 á Skemmuna http://skemman.is/en/stream/get/1946/5272/15776/1/BA_ritgerd_1.pdf.

Þetta efni er frá Borgarskjalasafni Reykjavíkur