Tag Archives: Andvarar

Sprækir skátar á toppi Tindastóls

Eitt sinn skáti…

Skagfirskir skátar

Skagfirskir skátar.

Hinn 22. mars 1929 var stofnað skátafélag á Sauðárkróki og fékk það nafnið Andvarar. Rekja má stofnun félagsins til áhuga héraðslæknisins Jónasar Kristjánssonar, sem síðar stóð fyrir stofnun Náttúrulækningafélags Íslands. Jónas var mikill áhugamaður um tóbaksbindindi og stofnaði ásamt ungu fólki á Sauðárkróki Tóbaksbindindisfélag í byrjun sama árs. Taldi hann að skátahreyfingin væri hentugur vettvangur til að útbreiða baráttuna gegn tóbakinu, auk þess sem það hefði góð áhrif á siðferði ungs fólks. Var félaginu skipt í þrjá flokka: Fálka, Þresti og Svani.

Helsti forystumaður skáta á Sauðárkróki um árabil var Franch Michelsen, síðar úrsmiður í Reykjavík. Franch var hjartað og sálin í félagsskapnum og stóð fyrir margvíslegum samkomum og ferðalögum að skátahætti. Árið 1932 stóð félagið að útgáfu skátablaðsins Hegrinn og var það fyrsta blaðið sem skátahreyfingin á Íslandi gaf úr. Var blaðið fjölritað í nokkrum eintökum og kom út þrívegis á því ári og einu sinni á árinu 1933. Ári síðar hófu Andvarar útgáfu Skátablaðsins sem einnig var fjölritað í 400 eintökum og kom út undir merkjum þess um tíma. Franch Michelsen var ritstjóri allra blaðanna og höfundur megin þorra textans. Fyrir nokkrum árum gaf sr. Sigurður Helgi Guðmundsson eintök af þessum blöðum á Héraðsskjalasafni Skagfirðinga fagurlega innbundin, en ekki er vitað til þess að þessi útgáfa sé annars staðar til í heilu lagi.

Sprækir skátar á toppi Tindastóls

Sprækir skátar á toppi Tindastóls.

Eftir fjallgöngu á Tindastól vorið 1929 orti Friðrik Hansen barnakennari og skáld á Sauðárkróki þennan brag undir laginu Öxar við ána. Var hann prentaður í blaði félagsins og oft sunginn á ferðum þess:

Andvarinn líður
ljúfur og þýður
blessar og hressir um dali og strönd.
Fram upp til fjalla
fossarnir kalla,
finnið og skoðið hin vorgrænu lönd.
Áfram, Andvarar glaðir.
Áfram, klífið Tindastól.
Fylkið, fjallagestir,
Fálkar, Svanir, Þrestir,
þétt og djarft með sumri og sól.

Skátafélagið Andvarar var mikilvægur kvistur í lífstrénu á Sauðárkróki á árum kreppu og fátæktar eða eins og Kristmundur Bjarnason segir í Sögu Sauðárkróks: „átti sinn þátt í að eyða deyfð og drunga, hættulegum fylgikvillum atvinnuleysis og örbyrgðar. Andvarar eygðu „hin vorgrænu lönd“.

Heimildir

  • Kristmundur Bjarnason: Saga Sauðárkróks III, bls. 241-248. Hegrinn (fjölrit) 1932-1933. Skátablaðið (fjölrit), 1934.

 

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Skagfirðinga