Tag Archives: Áramótakveðja

Svarskeyti Ásgeirs Ásgeirssonar til skátahöfðingja

Upphaf 50. starfsárs skátahreyfingarinnar á Íslandi áramótin 1961

Stjórn Bandalags íslenkra skáta ákvað að hefja fimmtugasta starfsár skátahreyfingarinnar 1962 síðdegis á gamlársdag 1961. Það var gert með þeim hætti að senda áramótakveðju frá skátahöfðingja Jónasi B. Jónssyni til Ásgeirs Ásgeirssonar forseta, verndara hreyfingarinnar.

Skátahöfðingi skrifaði áramótakveðju sína að heimili sínu við Melhaga. Skátarnir Aðalsteinn Þórðarson úr Völsungadeild og Ólafur Ásgeirsson úr Skjöldungadeild (síðar skátahöfðingi) hlupu með kveðjuna í Grímsstaðavör við Skerjafjörð. Þaðan var send kveðjan með Morsemerkjum yfir fjörðinn. Um merkjasendingar sá Baldur Ágústsson úr Birkibeinadeild. Í Bessastaðafjöru nam Vilhjálmur Kjartansson úr Víkingadeild skilaðboðin en Haukur Haraldsson úr Landnemadeild skrifaði orðsendinguna á áður gert plagg sem hann hafði teiknað. Arnlaugur Guðmundsson úr Víkingadeild og Haukur Haraldsson hlupu með orðsendinguna til Bessastaða þar sem forsetinn tók á móti kveðjunni. Orðsending skátanna var svohljóðandi:

Forseti Íslands Herra Ásgeir Ásgeirsson verndari íslenskra skáta.

Íslenskir skátar senda yður og fjölskyldu yðar einlægar nýárskveðjur er skátaárið 1962 gengur í garð. Vér heitum því að efla skátastarfið hvarvetna á landinu sem framast vér megum og minnast þannig 50 ára skátahreyfingar á Íslandi.

Með skátakveðju, Jónas B. Jónsson.

Arnlaugur Guðmundsson og Haukur Haraldsson hlupu síðan með kveðju forseta aftur í fjöruna eftir að hafa þegið veitingar. Orðsendingin var nú enn á ný send með Morse yfir Skerjafjörðinn. Skátahópurinn á Ægissíðunni tók við svarinu. Ólafur Ásgeirsson skrifaði kveðjur forsetans á pappírsörk sem Haukur Haraldsson hafði skreytt fyrirfram. Kveðja Ásgeirs Ásgeirssonar forseta var á þessa leið:

Bessastöðum 31. 12 1961. Skátahöfðingi Jónas B. Jónsson. Jeg þakka kærlega nýjárskveðju íslenskra skáta, ég árna þeim góða félagsskap allra heilla á komandi hálfrar aldar afmælisári. Ásgeir Ásgeirsson.

Þetta svarskeyti var svo borið til skátahöfðingja Jónasar B. Jónssonar.

Svarskeyti Ásgeirs Ásgeirssonar til skátahöfðingja

Hér er svarskeyti Ásgeirs Ásgeirssonar til skátahöfðingja. Það barst Þjóðskjalasafni nýlega úr fórum fjölskyldu Jónasar B. Jónssonar.

Skátarnir Arnlaugur Guðmundsson (í miðið) og Haukur Haraldsson (th) afhenda Ásgeiri Ásgeirssyni forseta kveðju skátahöfðinga á Bessastöðum 31. desmeber 1961

Skátarnir Arnlaugur Guðmundsson (í miðið) og Haukur Haraldsson (th) afhenda Ásgeiri Ásgeirssyni forseta kveðju skátahöfðinga á Bessastöðum 31. desmeber 1961.

Aðalsteinn Þórðarson (tv) og Ólafur Ásgeirsson (th) koma úr Grímsstaðavör með skeyti frá forseta til Jónas B. Jónssonar skátahöfðingja.

Aðalsteinn Þórðarson (tv) og Ólafur Ásgeirsson (th) koma úr Grímsstaðavör með skeyti frá forseta til Jónas B. Jónssonar skátahöfðingja.

Þetta efni er frá Þjóðskjalasafni Íslands