Tag Archives: Borgarskjalasafn Reykjavíkur

Upphaf átaks Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Félags héraðsskjalavarða á Íslandi í apríl 2011. Ljósmynd: Arnaldur Halldórsson fyrir ÍSÍ.

Heimildir um töp og glæstra sigra, dugnað og elju

Upphaf átaks Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Félags héraðsskjalavarða á Íslandi í apríl 2011. Ljósmynd: Arnaldur Halldórsson fyrir ÍSÍ.

Upphaf átaks Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Félags héraðsskjalavarða á Íslandi í apríl 2011. Ljósmynd: Arnaldur Halldórsson fyrir ÍSÍ.

Í tilefni af 100 ára afmæli Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands árið 2012 réðst sambandið og Félag héraðsskjalavarða á Íslandi í átak í söfnun skjala sem tengjast starfsemi íþróttafélaga og héraðssambanda um land allt, þannig að þau varðveitist á öruggan hátt og verði aðgengileg á héraðsskjalasöfnum landsins. Átakið hófst í apríl 2011 og er stefnt er að því ljúki í janúar 2013 um leið og afmælisári ÍSÍ lýkur og þá verði tekið saman yfirlit yfir þau skjalasöfn sem eru varðveitt á opinberum skjalasöfnum um land allt.

Fimleikasýning. Ljósmyndari óþekktur. Einkaskjalasafn 225. Íþróttabandalag Reykjavíkur. Borgarskjalasafn Reykjavíkur.

Fimleikasýning. Ljósmyndari óþekktur. Einkaskjalasafn 225. Íþróttabandalag Reykjavíkur. Borgarskjalasafn Reykjavíkur.

Borgarskjalasafn Reykjavíkur hefur á undanförnum árum staðið að skipulagðri söfnun skjalasafna íþróttafélaga í samvinnu við Íþróttabandalag Reykjavíkur. Öllum starfandi íþróttafélögum hefur verið ritað bréf og þau hvött til að afhenda Borgarskjalasafni skjöl sín til varðveislu. Sömuleiðis hefur verið reynt að hafa upp á skjölum eldri íþróttafélaga. Töluvert af heillegum skjalasöfnum hafa borist og hafa þau verið skráð og gengið frá þeim í öskjur til tryggilegrar geymslu til framtíðar og þannig að þau séu aðgengileg til rannsókna á lesstofu safnsins.

Fimleikasýning stúlkna. Ljósmyndari óþekktur. Einkaskjalasafn 225. Íþróttabandalag Reykjavíkur. Borgarskjalasafn Reykjavíkur.

Fimleikasýning stúlkna. Ljósmyndari óþekktur. Einkaskjalasafn 225. Íþróttabandalag Reykjavíkur. Borgarskjalasafn Reykjavíkur.

Fjöldi landsmanna hefur komið að íþróttum með einum eða öðrum hætti; sem þátttakandi, áhorfandi, stuðningsaðili eða á annan hátt. Skipulagt íþróttastarf hefur ekki síst verið blómlegt í Reykjavík, þar sem ótrúlegur fjöldi íþróttafélaga hefur starfað um lengri eða skemmri tíma. Fæst þessara félaga eiga sér skráða sögu og hún lifir mest í skjölum þeirra og í minni þeirra sem tóku þátt í störfum þeirra. Skjalasöfn íþróttafélaganna eru frumheimildir og vitnisburður um starfsemi þeirra; hvaða hugsjónir voru að baki, um baráttuna, þrotlausar æfingar til að ná árangri, töp og glæsta sigra, dugnað og elju einstakra manna við uppbyggingu félaganna, oft í ólaunuðu sjálfboðastarfi.

Handskrifaður happadrættismiði frá Íþróttafjelagi Reykjavíkur.Frá hvaða ári ætli hann sé? Varðveittur á Borgarskjalasafni Reyjavíkur.

Handskrifaður happadrættismiði frá Íþróttafjelagi Reykjavíkur.Frá hvaða ári ætli hann sé? Varðveittur á Borgarskjalasafni Reyjavíkur.

Íþróttafélög og þeir sem hafa undir höndum skjöl íþróttafélaga í Reykjavík eru hvattir til þess að hafa samband við Borgarskjalasafn Reykjavíkur sem er til hús í Grófarhúsi, Tryggvagötu 15 á 3. hæð. Safnið er opið virka daga kl. 10 til 16 og er sími þess 411 6060 og netfang borgarskjalasafn@reykjavik.is.

Texti: Svanhildur Bogadóttir

Þetta efni er frá Borgarskjalasafni Reykjavíkur

Dagskrá fyrir vígslu Íþróttaleikvangs Reykjavíkur - Laugardalsvallar 17. júní 1959.

Íþróttaleikvangur Reykjavíkur í Laugardal
Saga framkvæmdanna

Stúka Laugardalsvallar í byggingu. Ljósmyndari óþekktur. Einkaskjalasafn 225. Íþróttabandalag Reykjavíkur. Borgarskjalasafn ReykjavíkurHópfimleikar stúlkna. Ljósmyndari óþekktur. Einkaskjalasafn 225. Íþróttabandalag Reykjavíkur. Borgarskjalasafn ReykjavíkurKnattspyrnuleikur. Ljósmyndari óþekktur. Einkaskjalasafn 225. Íþróttabandalag Reykjavíkur. Borgarskjalasafn ReykjavíkurÍþróttaleikvangur Reykjavíkur – Laugardalsvöllur vígður 17. júní 1959. Ljósmyndari Gunnar Rúnar. Einkaskjalasafn 225. Íþróttabandalag Reykjavíkur. Borgarskjalasafn ReykjavíkurVið vígslu Íþróttaleikvangs Reykjavíkur – Laugardalsvallar. Ljósmyndari óþekktur. Einkaskjalasafn 225. Íþróttabandalag Reykjavíkur. Borgarskjalasafn ReykjavíkurTímataka á hlaupurum á Laugardalsvelli

Hugmynd um íþrótta- og skemmtisvæði fyrir Reykvíkinga í Laugardalnum mun fyrst hafa verið sett opinberlega fram af Sigurði Guðmundssyni málara árið 1871. Íbúafjöldi Reykjavíkur var þá 2000 manns og náði byggðin einungis að Þingholtsstræti. Þá var sú staðsetning talin vera of langt frá byggðinni og var svo talið enn undir miðja 20. öld.

Þann 2. apríl 1943 skipaði bæjarstjórn Reykjavíkur Laugardalsnefnd. Nefndin undirbjó tillögur um skipulagningu svæðisins og sendi þær til bæjarráðs hinn 24. júlí sama ár. Lagt var til að svæðið yrði skipulagt á þann veg að afnot þess yrðu sem fjölbreytilegust fyrir borgarbúa:

Á svæðinu ætti fyrst og fremst að koma upp sundlaugum og baðströnd, svo og nýtísku íþróttaleikvangi og æfingasvæðum með knattspyrnu-, handknattleiks- og tennisvöllum.

Utan þeirra svæða, sem ætluð yrðu til íþróttamannvirkja, yrði komið upp trjágróðri, bæði til skjóls og fegurðar, auk ræktunar skrautblóma til fegurðarauka. Á Laugarásnum yrði komið upp útsýnisturni, þar sem hvergi annarsstaðar í borginni gæfi að líta betra útsýni yfir hana og umhverfi hennar. Þá gerði nefndin og ráð fyrir að á svæðinu yrði reistur skáli fyrir útitónleika sem rúma myndi 5000 manns auk byggðasafns sem sýndi þróun höfuðstaðarins að ytra útliti.

Dagskrá fyrir vígslu Íþróttaleikvangs Reykjavíkur - Laugardalsvallar 17. júní 1959.

Dagskrá fyrir vígslu Íþróttaleikvangs Reykjavíkur – Laugardalsvallar 17. júní 1959.

Á árunum 1949-1950 var hafist handa við sjálfa vallargerðina. Vorið 1952 var sáð í völlinn eftir að hann hafði verið fínjafnaður og á sama tíma hófust framkvæmdir við áhorfendastæði og hlaupabraut. Sumarið 1953 hófst síðan undirbúningur að byggingu áhorfendastúkunnar, en fullgerð rúmaði hún 4000 áhorfendur, 85 m löng og 20 m breið. Gísli Halldórsson, arkitekt og forystumaður í íþróttahreyfingunni í áratugi, teiknaði Laugardalsvöllinn og hafði umsjón með framkvæmdum þar og hann teiknaði einnig Íþrótta- og sýningarhöll sem tekin var í gagnið í Laugardalnum árið 1965. Laugardalshöllin leysti af hólmi Hálogalandsbraggann, sem var rifinn árið 1968, og þar fóru lengi fram allir helstu kappleikir í handknattleik og körfubolta sem og margvísleg íþróttamót.

Á þjóðhátíðardaginn 17. júní 1959 var haldin hátíðleg vígsluhátíð leikvangsins, þrátt fyrir kulda og hvassviðri. Hófst hún með fjölmennri skrúðgöngu 530 manna hóps íþróttafólks úr íþróttafélögum Reykjavíkur. Á þessari vígsluhátíð skilaði Laugardalsnefnd leikvanginum af sér til bæjarstjórnar Reykjavíkur. Vígslumót var síðan haldið á honum dagana 3.-5. júlí og var það fjölmennasta íþróttamót sem efnt hafði verið til á Íslandi til þess dags.

Á vígsludaginn hinn 17. júní 1959 sagði í leiðara Morgunblaðsins:

Handtökin eru mörg og kostnaðurinn mikill við slík stórvirki. Engir telja þetta þó eftir því að hin ágætu mannvirki munu verða þróttmiklum æskulýð Íslands hvatning til aukinna dáða, sjálfum honum til þroska og þjóðinni allri til sæmdar.

Áhugavert er að skoða tillögur Laugardalsnefndar frá árinu 1943 og hversu margar af þeim hafa þegar komið til framkvæmda.

Texti: Þorgeir Ragnarsson.

Þetta efni er frá Borgarskjalasafni Reykjavíkur

Æskulíf

Hve glöð er vor æska

Æskulíf

Æskulíf. Ljósmyndari: Gunnar Rúnar. Varðveitt í einkaskjalasafni E-225 – Íþróttabandalag Reykjavíkur. Borgarskjalasafn Reykjavíkur.

Fyrir ekki svo löngu síðan voru ekki til tölvur, tölvuleikir, net eða annað sem glepur tíma frá æskunni í dag. Sjónvarpið var ekki á fimmtudögum og fór í sumarleyfi í júlí. Ekki var eins mikið um námskeið og skipulagt starf á sumrin eins og nú er. Krakkar voru meira úti að leika sér.

Á sumrin voru krakkar úti allan daginn meira og minna og alltaf var hægt að finna upp á einhverju til að leika sér eða vera eitthvað að djöflast og á veturna voru þau úti eftir skóla. Krakkar hreyfðu sig meira og kunnu meira að finna upp á leikjum og kunnu að meta að lenda í ævintýrum. Það var ekki fylgst eins mikið með krökkunum og í dag og þeir höfðu meira frelsi.

Krakkarnir voru jafnvel fleiri í hverri fjölskyldu en nú er og það þótti sjálfsagt að þeir væru úti að leika sér. Í hvaða hverfi sem var í Reykjavík hittust krakkar eftir skóla í hópum og fóru í alls konar leiki sem oft voru fundnir upp á staðnum. Nær allir aldurshópar léku sér saman og voru oft mikil læti og fjör. Það var verið á leikvöllum, skólalóðum, boltavöllum eða þar sem var pláss. Yfirleitt léku krakkar í sama hverfi sér saman og það var stundum rígur á milli hverfa.

Farið var í alls konar boltaleiki, snú snú, teyjó, hjólböruhlaup, eltingaleiki, feluleiki, fallin spýta og parís. Oft voru leikirnir spunnir upp á staðnum. Til dæmis var leitað eftir fjársjóðum, farið í langstökkskeppnir og reynt að finna upp á nýju. Síðan voru búnar til teygjubyssur og fleiri hentug vopn.

Krakkarnir voru að leik þar til kallað var í kvöld mat kl. 19. Síðan fóru margir út að leika eftir mat og flestir átt að vera komnir inn kl. 20. Stundum voru krakkarnir blautir og skítugir upp fyrir haus þegar þeir komu inn og voru þá drifnir í boð og fengu jafnvel kakó á eftir.

Krakkarnir skiluðu sér misvel heim og stundum þurfti að kalla út lögreglu til að svipast um eftir þeim og lögreglan fylgdist líka með að útivistartíma væri fylgt. Ekki var mikið um að krakkar slösuðust en þó hefur það eflaust komið fyrir. Foreldrar fylgdust ekki mikið með krökkunum, heldur treystu þeim til að halda sér í hverfinu, passa sig og skila sér heim á réttum tíma. Þetta mundi eflaust kallast kæruleysi í dag, en það er hægt að sjá bæði kosti og galla í þeim breytingum sem nú hafa orðið.

Texti: Ásgeir Michael Einarsson

Hve glöð er vor æskaHve glöð er vor æskaHve glöð er vor æskaHve glöð er vor æska

 

Til fróðleiks er hér listi yfir leiki sem voru vinsælir á árum áður

Þetta efni er frá Borgarskjalasafni Reykjavíkur

Á leikvellinum. Bæklingar um leikvelli borgarinnar frá 1978.

Leikvellir og gæsluvellir í Reykjavík

Á leikvellinum. Bæklingar um leikvelli borgarinnar frá 1978.

Á leikvellinum. Bæklingar um leikvelli borgarinnar frá 1978. Þar kemur fram að smábarnagæsluvellir séu 32, aðrir gæsluvellir 2, opin leiksvæði 51, sparkvellir 19, körfuboltavellir 13 og starfsvellir 4 eða samtals 120 talsins.

Svipmyndir frá gæsluvöllum borgarinnar.

Svipmyndir frá gæsluvöllum borgarinnar.

Fyrsti skipulagði barnaleikvöllurinn í Reykjavík var opnaður við Grettisgötu á sumardaginn fyrsta árið 1915 að frumkvæði Kvenréttindafélags Íslands. Næstu áratugi fjölgaði gæsluvöllum hægt, skömmu eftir 1950 voru t.d. aðeins sjö slíkir í bænum auk þess við Grettisgötu voru vellirnir við Njálsgötu, Freyjugötu, Hringbraut, Vesturvallagötu og í Mæðragarðinum við Lækjargötu. Þeir voru opnir börnum á öllum aldri og leit gæslukona eftir þeim. Skúlagötuvöllurinn, sá sjöundi í röðinni, var síðan tekinn í gagnið árið 1953. Þeir voru opnir nokkrar klukkustundir á dag, fyrir og eftir hádegi og voru fyrst og fremst hugsaðir sem útivistarsvæði þar sem forráðamönnum barna var gefinn kostur á að hafa þau í öruggri gæslu frá umferð og annarri hættu.

Börn að leik á gæsluvelli.

Börn að leik á gæsluvelli.

Eftir 1960 fjölgaði leikvöllum ört því með vaxandi bílaumferð þurfti að gefa börnum kost á öruggri gæslu fáeina tíma á dag. Jafnframt voru þeir einnig mikilvæg aðstoð við barnafjölskyldur og var ætlað að létta undir með húsmæðrum. Árið 1962 voru alls nítján barnaleikvellir í borginni en auk þess var Reykvíkingum séð fyrir 31 leiksvæði fyrir börn og unglinga. Slíkum gæslulausum svæðum átti jafnframt eftir að fjölga næstu áratugi og þau skiptust í opin svæði með nokkrum leiktækjum, sparkvelli og körfuboltavelli.

Yfirlit yfir leikvelli í Reykjavík árið 1978.

Yfirlit yfir leikvelli í Reykjavík árið 1978.

Börnin kunnu vissulega að meta leikvellina og þegar þeir voru vinsælastir þyrptust yngstu borgararnir þangað og dvöldust oft löngum stundum. Og fullorðna fólkið hafði ánægju af að staldra við og fylgjast með lífinu á völlunum. Sumir krakkarnir fóru í stórfiskaleik, aðrir í síðastaleik eða boltaleik, enn aðrir vógu salt, róluðu sér, fóru í rennibrautir eða einhver önnur leiktæki. Og þeir voru ófáir sem dunduðu sér í sandkassanum, sátu þar með spaða í hönd og byggðu hvert stórhýsið af öðru af engu minni alúð en hinir fullorðnu, sem reistu smá hús og stór í nýjum íbúðarhverfum. Þannig liðu dagarnir hver af öðrum og ný leiktæki komu til sögu, t.d. klifurgrindur og jafnvægisslár sem börnin gátu ólmast í.

Á áttunda áratugnum og sér í lagi þeim níunda fór aðsókn að barnagæsluvöllum borgarinnar hins vegar hraðminnkandi enda aðstæður mjög breyttar frá fyrri tíð.

Texti: Eggert Þór Bernharðsson, sagnfræðingur.

Starfsreglur fyrir gæslukonur.

Starfsreglur fyrir gæslukonur.

Þetta efni er frá Borgarskjalasafni Reykjavíkur

Félagar úr Eldingu æfa fáka sína á Reykjavíkurflugvelli.

Þeyst um á skellinöðrum

Félagar úr Eldingu æfa fáka sína á Reykjavíkurflugvelli.

Félagar úr Eldingu æfa fáka sína á Reykjavíkurflugvelli. Ljósmynd: Gunnar Rúnar Ólafsson fyrir Æskulýðsráð Reykjavíkur (Ljósmyndasafn Reykjavíkur).

Forsíða á fyrstu fundagerðarbók Vélhjólaklúbbsins Eldingar í Reykjavík. Þar má smá merki félagsins.

Forsíða á fyrstu fundagerðarbók Vélhjólaklúbbsins Eldingar í Reykjavík. Þar má sjá merki félagsins.

Þegar Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur tæmdi húsið að Fríkirkjuvegi 11 við flutning, komu í ljós á háalofti mikið af eldri skjölum tengdum æskulýðsmálum í Reykjavík og voru þau afhent Borgarskjalsafni til varðveislu. Þar á meðal fundust skjöl frá Vélhjólaklúbbnum Eldingu sem er elsti vélhjólaklúbbur landsins. Meðal skjala í safninu eru fundargerðabók Vélhjólaklúbbsins Eldingar, frá 16. nóvember 1960 til 13. febrúar 1963 og gestabók frá 13. apríl 1972 til 10. apríl 1975.

Fyrsta Gestabók Vélhjólaklúbbsins Eldingar í Reykjavík sem stofnaður var árið 1960.

Fyrsta Gestabók Vélhjólaklúbbsins Eldingar í Reykjavík sem stofnaður var árið 1960.

Á vefsíðu Bifhjólasamtaka Íslands kemur fram að þótt mótorhjól hafi verið notuð á Íslandi í yfir 100 ár, þá hafi fyrsti mótorhjólaklúbburinn ekki stofnaður fyrr en 55 árum eftir að fyrsta hjólið kom til landsins. Árið 1945 voru skráð á landinu 127 hjól og þar af 42 í Reykjavík, en tíu árum seinna árið 1956 eru hjólin í Reykjavík orðin 60 talsins.

Möguleg ástæða þess að ekki var komin klúbbur fyrr gæti verið sú að meira var litið á vélhjólin sem fararskjóta og atvinnutæki heldur en leiktæki og afþreyingu en þess má geta að árið 1956 eru meðal skráðra eigenda vélhjóla Tóbakseinkasala ríkisins, Ríkisútvarpið, Rúgbrauðsgerðin, Landssíminn og Almennar tryggingar. Í nóvember 1960 er síðan stofnaður Vélhjólaklúbburinn Elding sem er eiginlegt upphaf hjólamenningar á Íslandi eins og við þekkjum í dag.

Fundargerð frá 25. október 2961, þar sem lýst er starfsemi klúbbsins.

Fundargerð frá 25. október 2961, þar sem lýst er starfsemi klúbbsins.

Njáll Gunnlaugsson skrifaði árið 2004 ritið Þá riðu hetjur um héruð, 100 ára sögu mótorhjólsins á Íslandi sem Pjaxi ehf gaf út en það rit er meðal annars fáanlegt hjá Bifhjólasamtökum Íslands (Sniglum).

Þá skrifaði Snædís Góa Guðmundsdóttir BA ritgerð í félagsfræði í júní 2010 undir heitinu „Ekkert lögmál er öllum þekkt: Hefðir og lífsstíll 1% mótorhjólamanna“. Í ritgerð hennar kemur eftirfarandi fram:

Bifhjólaklúbburinn Elding var stofnaður í nóvember árið 1960 af Jóni Pálssyni. Markmiðið með stofnun klúbbsins var að koma á föstum fundum fyrir liðsmenn þar sem fræðsla um umferðamál yrði komið á. Með þessu átti að koma skellinöðrustrákunum af götunni. Annað markmiðið var að fá viðeigandi æfingarsvæði fyrir æfingar á vélhjólum og einnig aðstöðu til viðgerða á þeim. Aðstaða klúbbsins var í golfskálanum í Litlu-Öskjuhlíð og var maður kallaður Siggi Palestína aðaldriffjöður klúbbsins. Hann kenndi akstur og fór með liðsmenn í ferðir. Meðlimir áttu ekki að mæta á skítugum eða á illa búnum hjólum á fundi eða í ferðir með Sigga sem gerði það að verkum að umskipti til hins betra urðu fljótt á bæði hjólum og eigendum þeirra. Meðlimir fengu einnig verðlaun fyrir góða mætingu, þeir máttu æfa á skellinöðrunum í aðstöðu á Reykjavíkurflugvelli (Njáll Gunnlaugsson, 2004). Klúbburinn Elding fór eftir ákveðnum lögum. Þar kom meðal annars fram að allir geta orðið meðlimir bæði strákar og stelpur frá 14 ára og eldri sem hafa áhuga á viðgerðum og notkun vélhjóla. Markmiðin voru meðal annars að koma á föstum fræðslu-og skemmtikvöldum fyrir meðlimi, fræðsla um umferðamál, fá æfingarsvæði og koma á æfingum. Gefa félögum færi á að gera við sín eigin hjól, efna til hæfnisprófa og ferðalaga. Umferðalögreglan í Reykjavík og Æskulýðsráð Reykjavíkur voru með einn ráðunaut hvor áfundum, þeir voru með í ráðum hvað varðar klúbbinn og gæta hagsmuna klúbbsins út á við. Klúbbstjórnin samanstóð af þremur mönnum og tveimur öðrum til vara, sem voru skipaðir af ráðunautum klúbbsins. Stjórnin og ráðanautar sömdu reglur um hæfnispróf umferðinni og aðra þætti sem viðkom starfi klúbbsins. Meðlimir mæti vel á fundi og æfingar klúbbsins og vernda heiður hans með góðri framkomu sérstaklega í umferðinni. (Njáll Gunnlaugsson, 2004).

Elding var vinsæll klúbbur og voru 207 skráðir félagar frá 1962. Hins vegar dró úr hjólaæðinu þegar meðlimir fengu aldur til að taka bílpróf. Nokkrir meðlimir héldu samt áfram.

(Snædís Góa Guðmundsdóttir, 2010, bls. 44-45)

Samantekt: Svanhildur Bogadóttir.

Heimildir

  • Hjólamenningin. Bifhjólasamtök Íslands. http://www.sniglar.is/hjolamenningin/49-hjolamenningin.
  • Njáll Gunnlaugsson (2004). Þá riðu hetjur um héruð, 100 ára sögu mótorhjólsins á Íslandi. Pjaxi ehf. Reykjavík. M.a. fáanlegt hjá Bifhjólasamtökum Íslands (Sniglum).
  • Snædís Góa Guðmundsdóttir (2010). Ekkert lögmál er öllum þekkt: Hefðir og lífsstíll 1% mótorhjólamanna. BA ritgerð í félagsfræði við Háskóla Íslands. Óbirt. Sótt 5. nóv. 2012 á Skemmuna http://skemman.is/en/stream/get/1946/5272/15776/1/BA_ritgerd_1.pdf.

Þetta efni er frá Borgarskjalasafni Reykjavíkur