Tag Archives: Fegurðin

Forsíða gerðabókar Sambandsþinga UMFÍ

Ungmennafélags Íslands

Stofnþing Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) var haldið á Þingvöllum dagana 2. til 4. ágúst 1907. Starfið varð fljótlega afar blómlegt og teygðist um nánast allt land. Sambandsþing voru haldin á þriggja til fjögurra árabili. Má sjá í fundargerðarbókum að umræður urðu oft fjörugar og stundum var tekist allharkalega á.

Forsíða gerðabókar Sambandsþinga UMFÍ

Forsíða gerðabókar Sambandsþinga UMFÍ.

Hér er forsíða fyrstu gjörðabókarinnar sem hefst árið 1908. Í fundargerð sambandsþingsins 1914, sem fór fram dagana 12. til 14. júní í Reykjavík, sjást nokkur áhersluatriði starfsins á þessum árum. Fyrsta og annað mál fimmta þingfundar var íþróttir og lagabreytingar en auk þess var rætt um heimilisiðnað sem var mjög áberandi í starfi margra ungmennafélaga á þessum árum. Félögin vildu efla verkmenningu og handiðnað og búa að sínu í landinu, nýta landsins gæði.

Opna úr gerðabókinni

Opna úr gerðabókinni.

Guðmundur Davíðsson, sá sem hóf máls á þjóðgarðshugmyndinni (fjórða mál), var einmitt einn helsti hvatamaður að því að Þingvöllur var gerður að þjóðgarði. Hann mælti líka fyrir tillögu um fuglafriðun (sjöunda mál) og má víðar sjá í fundargerðum áhuga ungmennafélagsforkólfa á dýravernd almennt. Fimmti liður á dagskránni er „Fyrirlestrarmál“ en það var liður í fræðslu á vegum ungmennafélaganna sem fengu menn til að fara um landið og halda fyrirlestra. Einn kunnasti fyrirlesarinn fyrstu árin var Guðmundur Hjaltason. Fer ekki illa á að rifja upp lokin á hugvekju hans um fegurðina:

Það er sönnum æskulýð eðlilegt að vilja vera vel til fara, vera vel búinn. Þessháttar fegurðarþrá er góð sé henni stjórnað vel. Annars verður hún að óþarfri og skaðlegri skrautgirni. Það er og sönnum æskulýð sæmandi að vilja hafa fallegt í kringum sig utan húss og innan, hafa allt hreinlegt og reglulegt, prýða kringum sig með fallegum myndum eða blómum, heyra fagran söng eða hljóðfæraslátt, eiga sér einhverja ofurlitla jarðneska paradís. Það sómir líka sönnum æskulýð að bera sig vel, hreyfa sig og ganga fallega og eru íþróttir ágætt meðal til þess að læra fallegan limaburð og lipurleik í öllum hreyfingum, já, lipurleik og lagni í líkamlegri vinnu.

Heimildir

  • Jón M. Ívarsson: Vormenn Íslands, bls. 38.

Þetta efni er frá Þjóðskjalasafni Íslands