Tag Archives: Geisli

Upphafssíða gjörðabókar Geisla. Teikning eftir Ríkharð Jónsson

U.M.F. Geisli í Aðaldal

Ungmennafélagið Geisli í Aðaldal í S-Þingeyjarsýslu var stofnað þann 14. júní 1908. Stofnfundurinn fór fram í Brekku og var fyrsti formaðurinn Konráð Vilhjálmsson kennari og bóndi á Hafralæk. Núverandi formaður er Árni Garðar Helgason frá Húsabakka. Eins og gefur að skilja þá hefur félagsstarfið verið missjafnlega öflugt í gegnum árin og félagið unnið að fjölbreyttum verkefnum s.s. skógrækt, landgræðslu, heyskap, bindindi, hjálparstörf, samkomuhald , leiklist, dansnámskeið, og síðast en ekki síst íþróttir, sem alltaf hafa verið stundaðar meira og minna í ýmsum greinum.

Á upphafssíðu gjörðabókar félagsins 1930-1955 er einkar falleg teikning eftir Ríkharð Jónsson myndskurðarmeistara. Aðalsteinn Sigmundsson, sem gaf félaginu bókina ritar eftirfarandi texta á fyrstu blaðsíðunni: „Bók þessi er gefin U.M.F. Geisla í Aðaldal, og svo um mælt, að á blöð hennar komi óræk merkii um logandi áhuga, andlega frjósemi og dáðrík störf“.

Ungmennafélagið gaf einnig um tíma út handskrifað blað sem bar nafnið Geislinn. Blaðinu var dreift í Aðaldal í nokkrum eintökum. Í blaðinu frá árinu 1916 birtist ljóðið „Vakna!“ þar sem sveinn og sprund eru hvött fram til dáða:

Ljóðið „Vakna!“ sem birtist í sveitablaðinu Geislinn árið 1916

Ljóðið „Vakna!“ sem birtist í sveitablaðinu Geislinn árið 1916.

Mörg vér höfum verk að vinna,
vinna – meðan dagur er;
móðir vora skógi skreyta
skyldum fyr en æfin þver. –
Stæla vöðva, auðga anda,
öllu góðu fylgi ljá,
fremja afrek allrahanda;
afl sitt noti hver sem má. –

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Þingeyinga