Tag Archives: Gjörðabækur

Forsíða Vetrarbrautarinnar 1918-1919

Gluggað í gjörðabækur

Fundur Umf. Vonar 10. ágúst 1942 að Stakkabergi

Fundin sóttu 13 félagar. Gerðir fundarins voru þessar. 1. Söngur. 2. Formaður setti fundin og tilnefndi … fundarstjóra og … fundar ritara. 3. Rætt um áskorun (um boðhlaup) frá úmf. Dögun. Samþykkt var með öllum greiddum atkvæðum að hafna áskoruninni. 4. Farið í leiki. 5. Súngin nokkur lög. Upplesið  Samþ. Fundi slitið.

Gjörðabók Ungmennafélagsins Vonar í Klofningshreppi 1936-1946.

 Aðalfundur Umf. Stjörnunnar 15. febrúar 1925

Jóh. B. Jónasson flutti fyrirlestur um ungmennafélagsskapinn hjer í sveit. Áminnti hann fjelagsmenn um að leggja meiri stund á andlegt uppeldi sitt en verið hefur að undanförnu og temja sjer í hvervetna að koma fram sem sannir ungmennafélagar. Var fyrirlesara þakkað með lófataki.

Gjörðabók ofl. Ungmennafjelagsins “Stjarnan” Saurbæjarhreppi 1917-1957. Bls. 101

 Baðstofukveld Umf. Unnar djúpúðgu 10. apríl 1932 á Laugum

Klukkan 9 að kvöldi hófst baðstofukvöldið, þá voru samankomnir á staðnum 18 fjelagar og 3 gestir. Byrjað var þá strags á vinnunni, hver hafði sitt verk að vinna …. Vinnan var margskonar svo sem: saumur, prjón, spuni, þóf, gjarða- og reiphaldasmíði, gimbing, bókband o.fl. Nokkrir pilta og stúlkur skiftust á að lesa upp og kveða. Lesið var úr fornsögum og þjóðsögum, en kveðið mest lausavísur og smárímur. Þegar vinnan hafði staðið yfir 3 klukkustundir var kaffi með brauði um borð borið og var háð þar allfjörug samdrykkja. Að því loknu voru borð upp tekin og allir söfnuðust saman og áttu að síðustu þarna hátíðlega stund.

U.M.F. Unnur djúpúðga. Fundargerðir 1929-1935.

 Aðalfundur Sundfélags Hörðdælinga 4. júní 1939 í Laugardal

Tillaga kom fram um það að félagið komi sér upp girðingu til að rækta í trjáplöntur við sundlaugina og kýs þrjá menn til að athuga og undirbúa málið fyrir næsta vor. Tillagan var samþykkt.

Gjörðabók Sundfélags Hörðdælinga 1932-1940.

 

Forsíða Vetrarbrautarinnar 1918-1919

Forsíða Vetrarbrautarinnar 1918-1919, tímarits Ungmennafélagsins Ólafs pá í Laxárdalshreppi, Dalasýslu.

Fundur Umf. Ólafs Páa 7. júní 1925 að Spákellsstöðum

Formaður átaldi fundar- og félagsmenn fyrir þögn á fundum og hvatti menn til að tala og tala eins og maður væri að tala við kunningja sinn. … Á þessum fundi vor fluttar eftirtaldar ræður, auk upplesturs – og samtals – sem óþarflega mikið var gert að. Formaður Skúli Jóhannesson 16 ræður. Jóhann Bjarnason 13 ræður. Hallgrímur Jónsson 13 ræður. Óskar Sumarliðason gjaldk. 11 ræður. Fleiri töluðu ekki.

Fundarbók ungmennafélagsins “Ólafur Pái” 1909-1928.

 Fundur Umf. Dögunar 24. mars 1929 í Túngarði

K. G. bar fram tillögu um að félagar Dögunar legðu niður kossa sem almenna kveðju á fundum og samkomum félagsins. Sagði hún að sér findist þettað vera spor í áttina að temja sér kurteisa framkomu. Fleiri voru á sama máli og var tillagan rædd frá ímsum hliðum var síðan samþigt af öllum viðstöddum félagsmönnum.

Gjörðabók ungmennafélagsins “Dögun” 1922-1936. Bls. 39

 Fundur Umf. Æskunnar 3. apríl 1932 á Nesodda

Fundurinn ákveður að byggja hús á Nesodda að stærð 10×12 ál. á næstkomandi vori ef hægt verður að fá lán til byggjingarinnar og er stjórninni falið framkvæmd á því og jafnframt að sjá um innkaup á efni.

Samkvæmt reikningum félagsins fyrir árið 1932 varð byggingakostnaður hússins 2.138,12 kr. Félagið þurfti að taka að láni 1.500 kr lán, sem það lauk að borga af 1941.

Gjörðabók Umf. Æskan 1930-1934

Reikningar Umf. Æskan 1928-1939 og 1940-1950.

Kvöldvaka Umf. Vöku í janúar 1960 í Búðardal

Var leikinn skemmtiþáttur. Brynjólfur Haraldsson las upp sögu. Ingibjörg Kristinsdóttir söng gamanvísur. Gísli Brynjólfsson las upp glens um hreppsbúa. Spurningaþáttur undir stjórn Jóns Finnssonar. Síðan var Félagsvist og að lokum dansað. Veitingar sem Guðbjörg og Dísa sáu um voru alveg indislegar.

Gjörðabók U.M.F. “Tilraun” / “Vaka” í Skarðshreppi. 1929-1986.

Gjörðabók Ungmennafélagsins Völu í Skarðshreppi, Dalasýslu.

Gjörðabók Ungmennafélagsins Vöku í Skarðshreppi, Dalasýslu.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Dalasýslu