Tag Archives: Golfklúbburinn Leynir

Golfskálinn á Garðavelli

Golfklúbburinn Leynir

Golfskálinn á Garðavelli

Árið 1978 fengu Leynismenn loksins aðstöðu fyrir veitingasölu og félasstarfsemi. Myndin er tekin við golfskálann á Garðavelli. Ljósmyndari Árni S. Árnason.

Aðalhvatamenn að stofnun golfklúbbs á Akranesi voru Guðmundur Sveinbjörnsson og Óðinn S. Geirdal. Þeir höfðu þá starfað saman að íþróttamálum á Akranesi um áratuga skeið. Þeim fannst kominn tími að koma á fót fleiri íþróttagreinum á Akranesi og hölluðust að golfíþróttinni þar sem hún höfðar til allra aldurshópa.

Stofnfundur var settur 15. mars 1965. Á fundinn mættu 22 gestir og allir gerðust þeir félagar. Boðaður var framhaldsstofnfundur þar sem m.a. var kosin fyrsta stjórn Golfklúbbs Akraness. Á þann fund bættust við 10 gestir og voru því stofnfélagar klúbbsins 32 talsins.

Sumarið 1965 var klúbbnum úthlutað ca. 2ja hektara landi á svæðinu fyrir ofan Garða, Garðaflóa. Þar voru settar upp 2 holur, slegin 1 braut, settir teigar og flatir og flögg og byrjað að æfa. Til að byrja með vour sumir tveir um sett. Vorið 1966 fékk klúbburinn svo 4 hektara til viðbótar og nægði það fyrir 6 holu völl.

Fyrsta golfmót á Akranesi fór fram 20. ágúst 1967 en það var nefnt Vatnsmótið og er það haldið enn þann dag í dag. Golfklúbbur Akraness var formlega tekinn inn í GSÍ þetta sama ár en þá taldi klúbburinn 24 félaga. GSÍ veitti vellinum fullgildingu í júlí 1968.

Árið 1967 var sótt um land fyrir 9 holu völl og var þeim áróðri haldið áfram til ársins 1968 þegar bæjarráð samþykkti að stækka völlinn í 9 holur.

Sumargleði kvenna hjá Golfklúbbnum Leyni árið 1991

Sumargleði kvenna hjá Golfklúbbnum Leyni árið 1991. (frá vinstri) Kristrún Jónsdóttir,Þórdís Guðrún Arthursdóttir, Arnheiður Jónsdóttir, Helga Rún Guðmundsdóttir, Erla Karlsdóttir og Sigríður Ingvadóttir. Sigríður sigraði í keppni án forgjafar á 95 höggum. Þórdís varð önnur á 97 og Helga Rún þriðja á 101 höggi. Ljósmyndari Árni S. Árnason.

Nafni klúbbsins var breytt árið 1970 og var það vegna Golfklúbbs Akureyrar. Ákveðið var að breyta nafninu í Golfklúbbinn Leyni, þar sem að völlurinn er staðsettur beint upp af Leyni.

Árið 1978 var stórt ár í klúbbnum. Með kaupum á íbúðarhúsinu í Grímsholti breyttist öll aðstaða klúbbsins til veitingasölu og félagsstarfsemi.

Upphafið að stæsta áfanga í sögu Leynis hófst 1996 þegar leikur var hafinn á fjórum nýjum brautum og völlurinn varð 11 holu golfvöllur. Brautirnar voru hluti 18 holu skipulags sem samningar höfðu verið gerðir um við Akraneskaupstað 1994. Samningurinn var endurnýjaður 1997 og 18 holu golfvöllur var formlega vígður 7. júlí sumarið 2000 á 35 ára afmælisári Golfklúbbsins Leynis.

Alla tíð hefur unglingastarf verið öflugt hjá Leynismönnum og hefur það fætt af sér óvenju stóran hóp afrekskylfinga á landsmælikvarða, miðað við stærð félagsins. Leynir hefur átt fjölmarga landsliðsmenn, bæði í unglinga- og karlalandsliðum. Nokkrum sinnum hafa unglingasveitir Leynis orðið Íslandsmeistarar í sínum aldursflokkum.

Fyrstu árin vour félagar klúbbsins 20-40 talsin. Árið 2011 voru félagsmenn í Leyni 371 talsins. Karlar voru 55%, konur 23% og unglingar 22%.

Heimildir:

  • Einkaskjalasafn E16.
  • Ársskýrsla Golfklúbbsins Leynis 2011, http://www.golf.is/iw_cache/32447_Arsskyrsla2011pr.pdf
Þórður Emil Ólafsson og Hjalti Nielsen spila golf

Hér eru að spila golf þeir Þórður Emil Ólafsson og Hjalti Nielsen sem síðar varð Íslandsmeistari í golfi. Ljósmyndari Haraldur Bjarnason.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Akraneskaupstaðar