Tag Archives: Héraðsskjalasafnið á Akureyri

Kátir krakkar á barnadegi Léttis árið 1973

Æskulýðsstarf hjá Hestamannafélaginu Létti

Kátir krakkar á barnadegi Léttis árið 1973

Kátir krakkar á barnadegi Léttis árið 1973.

Framanaf var barna- og unglingastarf innan félagins ekki með reglulegum hætti en á aðalfundi 1989 var skipað unglingaráð, sem falið var að skipuleggja þennan þátt félagsstarfsins. Stofnuð var unglingadeild fyrir aldurshópinn 5 – 16 ára og reynt að finna sem flesta fleti á starfinu svo krakkar á öllum aldri fyndu eitthvað við sitt hæfi. Á þeim tíma var óvíða komið unglingastarf hjá öðrum hestamannafélögum og fátt sem hægt var að hafa til hliðsjónar í þeim efnum.

Reiðnámskeið hafa síðan verið fastir liðir í starfinu, bæði á sumrin og á veturna. Í boði eru bæði námskeið fyrir byrjendur og svo námskeið fyrir krakka sem hafa einhverja reynslu en þá er farið í flóknari þætti, s.s. um reglur á mótum.

Knapar framtíðarinnar

Knapar framtíðarinnar. Mynd frá reiðnámskeiði í júní 1999.

Unglingadeildin hefur oft staðið fyrir ferðalögum, bæði reiðtúrum með grillveislum og rútferðum s.s. í Laufskálarétt.

Fyrsta mótið sem unglingadeildin stóð fyrir var haldið 11. júní 1989 og þótti takast mjög vel. Mun það hafa verið í fyrsta skipti sem sérstakt mót var haldið fyrir unglinga en myndband frá því móti var notað við kynningar á unglingastarfi hjá hestamannafélögum víðsvegar um landið.

Sýningar hafa líka verið snar þáttur í starfsemi unglingadeildarinnar enda hafa þær þann kost að nær allir krakkar geta tekið þátt í þeim, hvar svo sem þau eru stödd í reiðlistinni.

Loks er það félagshesthúsið Fjöðrin en húsið var keypt árið 1990 með það að markmiði að börn og unglingar gætu haft þar hesta ef þau ættu ekki kost á plássi annars staðar. Áhugasamir krakkar gátu fengið hest að láni en krakkarnir skiptu á milli sín hirðingu hrossanna, undir eftirliti húsvarðar. Núna hefur þessi þáttur unglingastarfsins fallið niður og húsið verið selt.

Heimild

  • F-128/93. Hestamannafélagið Léttir. Guðrún Hallgrímsdóttir: Æskulýðsstarf hjá Létti.

Hér má sjá gögn í skjalaskrá Héraðsskjalasafnsins á Akureyri um efnið.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafninu á Akureyri

Níu ára drengir í Skíðaráði Akureyrar í verðlaunasætum (10) vorið 1990

Andrésar Andar leikarnir á Akureyri

Níu ára drengir í Skíðaráði Akureyrar í verðlaunasætum (10) vorið 1990

Níu ára drengir í Skíðaráði Akureyrar í verðlaunasætum (10) vorið 1990.

Andrésar Andar leikarnir á Akureyri voru fyrst haldnir 3.-4. apríl 1976. Hugmyndin var nokkuð eldri en hún varð til á kaffistofu Almennra trygginga í Hafnarstræti. Það var meira fyrir tilviljun að margir þeirra sem unnu í húsinu og hittust í kaffistofunni voru áhugasamir um skíðaíþróttina og tengdust henni á einhvern hátt. Þá voru ekki landsmót fyrir yngstu aldurshópana og svo til eingöngu keppt í þeim flokkum heima í héraði en það var vilji ,,kaffiklúbbsins” að efna til barnamóts á skíðum fyrir allt land. Eftir nokkrar bollaleggingar og umræður kom til tals að tengja mótið Andrési Önd og leyfi til þess að nota Andrés var auðsótt.

Það var kaffiklúbburinn sem skipaði að verulegu leyti fyrstu framkvæmdanefndina og þeir aðilar unnu síðan að leikunum í fjöldamörg ár. Auk framkvæmdanefndarinnar koma mjög margir sjálfboðaliðar að mótinu, svo allt gangi upp. Aðeins einu sinni síðan 1976 hafa leikarnir fallið niður en það var árið 2003.

Sigurvegarar í stökki 11 ára drengja vorið 1992

Sigurvegarar í stökki 11 ára drengja vorið 1992. F.v. Þórarinn Jóhannsson Akureyri, Björgvin Björgvinsson Dalvík, Hjörtur Jónsson Akureyri.

Fyrsta árið voru 148 keppendur skráðir til leiks en fljótlega fór þeim fjölgandi og hin seinni ár hafa keppendur verið á bilinu 700 til 800. Andrésar leikarnir eru því lang fjölmennasta skíðamót landsins.

Fyrsta mótsskráin

Fyrsta mótsskráin.

Í fyrstu var einungis keppt í svigi og stórsvigi drengja og stúlkna en frá árinu 1980 hefur einnig verið keppt í göngu. Um tíma var keppt í stökki drengja en það var lagt niður og í staðinn kom risasvig. Síðar kom inn leikjabraut, án tímatöku, og þrautabraut í göngu og nú er einnig farið að keppa á brettum. Margt af þekktasta skíðafólki landsins byrjaði feril sinn á leikunum og má þar nefna fólk eins og Björgvin Björgvinsson, Nönnu Leifsdóttur, Kristin Björnsson, Guðrúnu H. Kristjánsdóttur, Daníel Hilmarsson og Guðrúnu Jónu Magnúsdóttur. Guðrún Jóna sigraði bæði í svigi og stórsvigi í sínum aldursflokki fimm ár í röð 1976-1980.

Stutt saga frá Andrésar-móti 1995

Merki Andrésar Andar leikanna á Akureyri

Merki Andrésar Andar leikanna á Akureyri.

Það er mikil stemmning í kringum unga skíðafólkið, gleðin skín úr nær hverju andliti í fjallinu og þá sérstaklega þeirra yngstu. Ég spurði eina sjö ára stúlku hvernig henni hefði gengið í sviginu. ,,Jú, bara mjög vel,” sagði hún. Ég spurði þá númer hvað hún hefði orðið. Og ekki stóð á svarinu: ,,Númer sautján.” Síðar kom í ljós að rásnúmer hennar var sautján. Það var jú aðalmálið hjá þeirri stuttu að vera með. Tíminn í brautinni skipti hana engu máli.

 

Heimildir:

  • F-339/4. Andrésar Andar leikarnir. Hermann Sigtryggsson: „Andrésar Andar leikarnir á Akureyri 30 ára“. Úrslit 20. – 23. apríl 2005.
  • F-339/11. Andrésar Andar leikarnir. Margrét Blöndal: „Andrésar Andar leikarnir 35 ára“. Andrésar Andar leikarnir 2010. 1:1, 2010. Morgunblaðið.
  • Valur B. Jónatansson: „Andrés“ Morgunblaðið 25. apríl 1995, 2D.

Hér má sjá gögn í skjalaskrá Héraðsskjalasafnsins á Akureyri um efnið.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafninu á Akureyri