Tag Archives: Íþróttavöllur

Dagskrá fyrir vígslu Íþróttaleikvangs Reykjavíkur - Laugardalsvallar 17. júní 1959.

Íþróttaleikvangur Reykjavíkur í Laugardal
Saga framkvæmdanna

Stúka Laugardalsvallar í byggingu. Ljósmyndari óþekktur. Einkaskjalasafn 225. Íþróttabandalag Reykjavíkur. Borgarskjalasafn ReykjavíkurHópfimleikar stúlkna. Ljósmyndari óþekktur. Einkaskjalasafn 225. Íþróttabandalag Reykjavíkur. Borgarskjalasafn ReykjavíkurKnattspyrnuleikur. Ljósmyndari óþekktur. Einkaskjalasafn 225. Íþróttabandalag Reykjavíkur. Borgarskjalasafn ReykjavíkurÍþróttaleikvangur Reykjavíkur – Laugardalsvöllur vígður 17. júní 1959. Ljósmyndari Gunnar Rúnar. Einkaskjalasafn 225. Íþróttabandalag Reykjavíkur. Borgarskjalasafn ReykjavíkurVið vígslu Íþróttaleikvangs Reykjavíkur – Laugardalsvallar. Ljósmyndari óþekktur. Einkaskjalasafn 225. Íþróttabandalag Reykjavíkur. Borgarskjalasafn ReykjavíkurTímataka á hlaupurum á Laugardalsvelli

Hugmynd um íþrótta- og skemmtisvæði fyrir Reykvíkinga í Laugardalnum mun fyrst hafa verið sett opinberlega fram af Sigurði Guðmundssyni málara árið 1871. Íbúafjöldi Reykjavíkur var þá 2000 manns og náði byggðin einungis að Þingholtsstræti. Þá var sú staðsetning talin vera of langt frá byggðinni og var svo talið enn undir miðja 20. öld.

Þann 2. apríl 1943 skipaði bæjarstjórn Reykjavíkur Laugardalsnefnd. Nefndin undirbjó tillögur um skipulagningu svæðisins og sendi þær til bæjarráðs hinn 24. júlí sama ár. Lagt var til að svæðið yrði skipulagt á þann veg að afnot þess yrðu sem fjölbreytilegust fyrir borgarbúa:

Á svæðinu ætti fyrst og fremst að koma upp sundlaugum og baðströnd, svo og nýtísku íþróttaleikvangi og æfingasvæðum með knattspyrnu-, handknattleiks- og tennisvöllum.

Utan þeirra svæða, sem ætluð yrðu til íþróttamannvirkja, yrði komið upp trjágróðri, bæði til skjóls og fegurðar, auk ræktunar skrautblóma til fegurðarauka. Á Laugarásnum yrði komið upp útsýnisturni, þar sem hvergi annarsstaðar í borginni gæfi að líta betra útsýni yfir hana og umhverfi hennar. Þá gerði nefndin og ráð fyrir að á svæðinu yrði reistur skáli fyrir útitónleika sem rúma myndi 5000 manns auk byggðasafns sem sýndi þróun höfuðstaðarins að ytra útliti.

Dagskrá fyrir vígslu Íþróttaleikvangs Reykjavíkur - Laugardalsvallar 17. júní 1959.

Dagskrá fyrir vígslu Íþróttaleikvangs Reykjavíkur – Laugardalsvallar 17. júní 1959.

Á árunum 1949-1950 var hafist handa við sjálfa vallargerðina. Vorið 1952 var sáð í völlinn eftir að hann hafði verið fínjafnaður og á sama tíma hófust framkvæmdir við áhorfendastæði og hlaupabraut. Sumarið 1953 hófst síðan undirbúningur að byggingu áhorfendastúkunnar, en fullgerð rúmaði hún 4000 áhorfendur, 85 m löng og 20 m breið. Gísli Halldórsson, arkitekt og forystumaður í íþróttahreyfingunni í áratugi, teiknaði Laugardalsvöllinn og hafði umsjón með framkvæmdum þar og hann teiknaði einnig Íþrótta- og sýningarhöll sem tekin var í gagnið í Laugardalnum árið 1965. Laugardalshöllin leysti af hólmi Hálogalandsbraggann, sem var rifinn árið 1968, og þar fóru lengi fram allir helstu kappleikir í handknattleik og körfubolta sem og margvísleg íþróttamót.

Á þjóðhátíðardaginn 17. júní 1959 var haldin hátíðleg vígsluhátíð leikvangsins, þrátt fyrir kulda og hvassviðri. Hófst hún með fjölmennri skrúðgöngu 530 manna hóps íþróttafólks úr íþróttafélögum Reykjavíkur. Á þessari vígsluhátíð skilaði Laugardalsnefnd leikvanginum af sér til bæjarstjórnar Reykjavíkur. Vígslumót var síðan haldið á honum dagana 3.-5. júlí og var það fjölmennasta íþróttamót sem efnt hafði verið til á Íslandi til þess dags.

Á vígsludaginn hinn 17. júní 1959 sagði í leiðara Morgunblaðsins:

Handtökin eru mörg og kostnaðurinn mikill við slík stórvirki. Engir telja þetta þó eftir því að hin ágætu mannvirki munu verða þróttmiklum æskulýð Íslands hvatning til aukinna dáða, sjálfum honum til þroska og þjóðinni allri til sæmdar.

Áhugavert er að skoða tillögur Laugardalsnefndar frá árinu 1943 og hversu margar af þeim hafa þegar komið til framkvæmda.

Texti: Þorgeir Ragnarsson.

Þetta efni er frá Borgarskjalasafni Reykjavíkur

Neðri-Sandvík í Borgarnesi.

Þegar nýi íþróttavöllurinn var tekinn undir bragga

Neðri-Sandvík í Borgarnesi.

Neðri-Sandvík í Borgarnesi. Ljósmynd sem sýnir svæðið eftir að búið er að reisa braggana. Úr albúmi Jóns Guðmundssonar Hundastapa.

Að kvöldi 19. september 1940 var sá langþráði draumur félaga Ungmennafélagsins Skallagríms í Borgarnesi að fá íþróttavöll alveg við að verða loksins að veruleika. Þetta átti að verða grasvöllur, sá fyrsti hér á landi.

Um þetta má lesa í ritgerð þar sem Friðrik Þorvaldsson hafnarvörður og stjórnarmaður í ungmennafélaginu skrifar eftirfarandi:

[Um kvöldið] hafði hópur ungmennafélaga unnið við að tyrfa knattspyrnuvöllinn í Neðri-Sandvík en aðrir unnið við að rista og flytja þökur ofan frá Hamri. Svo vel hafði verkið sótzt undanfarin kvöld, að ákveðið var að sækja síðustu þökurnar næstu kvöldstund, enda liðið fram á nótt og aðeins fáeinir fermetrar óþaktir. Þannig mætti njóta síðustu handtakanna án strangasta álags, og að verki loknu mætti fá hvíld til að hugleiða önnur aðkallandi verkefni.

En þessi áform urðu að engu. Næsta dag var Friðrik snemma á fótum. Von var á Eldborginni með morgunflóðinu en hún var að koma úr söluferð frá Englandi. Friðrik skrifar:

Ég var því snemma á ferli og gladdist mjög er ég sá skip utan Miðfjarðarskers. Ekki hafði ég lengi horft er mér fannst sem skipið bæri hraðar að en ég átti að venjast. Þetta reyndist vera herflutningaskip og er það kenndi bryggjunnar þustu frá borði fans vopnaðra manna. En á meðan hermennirnir hnöppuðust saman á bryggjunni og sötruðu úr stórum föntum te, sem þeim var borið í einhverskonar keröldum, nálgaðist sú stund, sem varð erfið, bæði fyrir mig og ungmennafélagið. Herstjórnin hafði sjáanlega aflað sér upplýsinga því óðar en varði krafðist hún að fá til sinna þarfa samkomuhúsið og íþróttavöllinn.

Þrátt fyrir mikla óánægju ungmennafélaga létu þeir undan kröfum breska hersins og síðustu grasþökurnar voru því aldrei sóttar og enginn knattspyrnuleikur var háður á þessum grasvelli. Risu þarna síðan upp herbúðir miklar. Þegar setuliðið fór undir stríðslok fékk ungmennafélagið íþróttasvæðið afhent á ný. Var þá svæðið í slæmu ásigkomulagi og kostaði mikla vinnu að ryðja það á ný. Gerði félagið þarna síðan malarvöll sem notaður var til knattspyrnu- og íþróttaæfinga alveg þar til nýi íþróttavöllurinn hjá Íþróttahúsinu var tekinn í notkun. Nú stendur Menntaskóli Borgfirðinga á svæðinu.

Heimildir:

  • Jón Helgason. Hundrað ár í Borgarnesi. 1967. Bls. 301-302.
  • Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar. „Ungmennafélagið Skallagrímur í Borgarnesi“, EF 30 27-2. Ritgerð skrifuð í fyrirhugað afmælisrit UMF Skallagríms á 60 ára afmæli þess eftir Friðrik Þorvaldsson.
Bls 5 úr ritgerð eftir Friðrik Þorvaldsson

Bls 5 úr ritgerð eftir Friðrik Þorvaldsson, sem skrifuð var í fyrirhugað afmælisrit UMF Skallagríms á 60 ára afmæli þess.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar