Tag Archives: Knattspyrna

Liðsmenn Knattspyrnufélagsins Harðar og Fótboltafélags Ísafjarðar árið 1922

Knattspyrnufélagið Hörður

Liðsmenn Knattspyrnufélagsins Harðar og Fótboltafélags Ísafjarðar árið 1922

Liðsmenn Knattspyrnufélagsins Harðar og Fótboltafélags Ísafjarðar árið 1922. Síðarnefnda félagið var stofnað árið 1912 og höfðu piltarnir sem stofnuðu Hörð áður sótt æfingar hjá því félagi. Þegar knattspyrnulið bæjarins voru orðin tvö færðist mikið fjör í knattspyrnuiðkunina og voru kappleikir félaganna tíðir. Árið 1923 hætti Fótboltafélag Ísafjarðar að senda lið til keppni og var félaginu svo formlega slitið árið 1926. Eftir það hnignaði knattspyrnuiðkun um nokkurt skeið enda gátu Harðverjar þá einungis keppt innbyrðis og við gesti, t.d. erlenda sjóliða. Árið 1926 var hins vegar nýtt knattspyrnufélag, Vestri, stofnað af knattspyrnumönnum sem áður höfðu verið félagar í Fótboltafélagi Ísafjarðar.

Það var á vordögum 1919 sem 12 ungir menn komu saman í Sundstræti 41 á Ísafirði til að ræða stofnun knattspyrnufélags. Þeir höfðu áður sótt æfingar hjá Fótboltafélagi Ísafjarðar en fannst þörf á öðru félagi í bænum. Hlaut nýja félagið nafnið Knattspyrnufélagið Hörður og var fyrsta stjórnin skipuð Þórhalli Leóssyni formanni, Dagbjarti Sigurðssyni gjaldkera og Helga Guðmundssyni ritara.

Lengi vel hafði Hörður aðeins einn flokk fullorðinna en árið 1931 voru settir á stofn 2. og 3. flokkur og varð sá hópur pilta afar sigursæll er fram liðu stundir. Fram til 1933 var knattspyrna eina íþróttagreinin sem stunduð var innan félagsins en þá var stofnuð sérstök handknattleiksdeild stúlkna. Vorið 1937 gekkst Hörður fyrir námskeiði í frjálsum íþróttum og í kjölfarið eignaðist félagið fjölmarga snjalla frjálsíþróttamenn sem áttu Íslandsmet í sínum greinum og kepptu fyrir Íslands hönd á alþjóðavettvangi. Um og eftir 1940 var farið að stunda fimleikar og glímu innan vébanda félagins og um svipað leyti var farið að ræða stofnun skíðadeildar. Byggður var skíðaskáli í samvinnu við Skíðafélag Ísafjarðar og gjörbreyttist þá til hins betra öll aðstaða til að stunda skíðaíþróttina. Eignuðust Harðverjar marga afreksmenn á skíðum, konur og karla, sem urðu margfaldir Íslandsmeistarar og kepptu á alþjóðamótum, m.a. Ólympíuleikum.

Knattspyrnuleikur á Hrossataðsvöllum á Ísafirði um 1925

Knattspyrnuleikur á Hrossataðsvöllum á Ísafirði um 1925. Líklegt er að þarna hafi lið Fótboltafélags Ísafjarðar og Knattspyrnufélagsin Harðar att kappi hvort við annað. Vorið 1913 fékk Fótboltafélag Ísafjarðar heimild bæjarstjórnar til að ryðja sér leikvöll og setja upp markstangir á ytri hluta Eyrartúnsins. Leikvöllurinn var ruddur á svokölluðum Hrossataðsvöllum og þar var aðalknattspyrnuvöllur bæjarins um árabil, eða þar til Ísfirðingar gáfu sjálfum sér nýjan knattspyrnuvöll á Torfnesi í tilefni af aldarafmæli Ísafjarðarkaupstaðar árið 1966.

Hörður starfaði af krafti fram á seinni hluta 20. aldar en þá tók að draga af félaginu og undir lok aldarinnar var lítil starfsemi í gangi. Þá kom til sögunnar maður að nafni Hermann Níelsson, íþróttakennari, sem hafði verið alinn upp í Herði þegar starf félagsins var sem blómlegast. Tókst honum, ásamt samstarfsmönnum sínum, að byggja upp öfluga glímusveit innan félagsins jafnframt því sem teknar voru upp að nýju æfingar í frjálsum íþróttum og handbolta. Í dag, þegar styttist í aldarafmæli félagsins, starf Hörður af miklum krafti í þessum íþróttagreinum.

 

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Ísfirðinga

Úr gjörðabók Mánans

Knattspyrnufélag ungra drengja á Sauðárkróki

Úr gjörðabók Mánans

Úr gjörðabók Mánans.

Annan dag hvítasunnu árið 1939 hittist hópur ungra drengja á Sauðárkróki og stofnuðu með sér knattspyrnufélag. Hafði drengjunum ekki þótt nóg að gert til stuðnings knattspyrnuiðkunnar sinnar, þótt starfandi væri í bænum Ungmennafélagið Tindastóll, en þar réðu þeir eldri lögum og lofum.

Höfðu þeir nokkuð við, sömdu ítarleg lög og stunduðu síðan æfingar að kappi um nokkurt skeið. Félagið hlaut nafnið Knattspyrnufélagið Máninn, skammstafað K.F.M. og var innsigli þess hálfur máni. Félagið hélt gjörðabók sem bar að varðveitast í kassa með loki og félagið mun hafa átt einn fótbolta, sem kom auðvitað að góðum notum, þótt hann ætti til að springa með tilheyrandi fjárútlátum fyrir félagið.

Merki Mánans

Merki Mánans.

Lög félagsins bera með sér nokkra einræðistilburði ráðamanna. Þannig var formaður æðstaráð og dómstóll í öllum deilumálum og brot gegn félagssamþykktum vörðuðu brottrekstri. Þó mátti veita brotlegum inngöngu aftur „enda sé um algerða iðrun og yfirbót að ræða.“

Félagið starfaði til ársins 1942 og fer engum sögum af sigrum eða ósigrum félagsmanna en formlega var félagið lagt niður árið 1944, „gjörvöllu hreppsfélagi voru til ósegjanlegrar hryggðar“, eins og segir í sérstöku bréfi í tilefni niðurlagningarinnar. Sjóður félagsins sem taldi 145,03 krónur var afhentur Rauða krossi Íslands og gerðu gefendur ráð fyrir því að fé þetta yrði upphaf að sjóði til kaupa á sjúkrabifreið „svo auðvelt megi reynast að flytja úr víðlendu héraði voru mörgum hvillum plagaðra meðbræðra vorra og koma þeim skjótlega undir hendur þess manns eða manna, sem með kunna fara“. Hefur sjóðurinn eflaust komið að góðum notum, að minnsta kosti eignuðust Skagfirðingar sjúkrabíl og hafa drengirnir á Sauðárkróki þar lagt sinn skerf að mörkum.

Þess ber að geta að fullgildir félagsmenn þessa merkilega voru vel á þriðja tug og greiddu þeir gjald til félagsins 25 aura í senn. Heldur fækkaði félagsmönnum eftir því sem á leið, enda ýmislegt fleira nytsamlegt með peninga að gera á þessum tíma. Félagsmenn voru flestir á aldrinum 7-10 ára í upphafi og var fyrsti formaður Snorri Sigurðsson, sýslumanns á Sauðárkróki, þar í hópi elstu manna 10 ára að aldri.

Fórur félagsins bárust til Héraðsskjalasafns Skagfirðinga nú nýverið um hendur sr. Árna Sigurðssonar sem gegndi um tíma starfi gjaldkera félagsins.

 

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Skagfirðinga

Fyrstu lög Íþróttafélagsins Þróttar

Íþróttafélagið Þróttur

Íþróttafélagið Þróttur var stofnað hinn 5. júlí 1923 á Norðfirði. Hinn 10. september sama ár voru lög félagsins samþykkt á félagsfundi og voru lögin þegar undirrituð af 59 félagsmönnum sem teljast stofnfélagar Þróttar.

Fyrstu lög Íþróttafélagsins Þróttar

Fyrstu lög Íþróttafélagsins Þróttar.

Knattspyrnulið Þróttar árið 1927

Knattspyrnulið Þróttar árið 1927. Myndin er tekin að afloknum leik við Héraðsmenn á sumarsamkomu Egils rauða.

Handboltalið Þróttar árið 1942 ásamt Stefáni Þorleifssyni þjálfara liðsins

Handboltalið Þróttar árið 1942 ásamt Stefáni Þorleifssyni þjálfara liðsins. Ljósmynd: Björn Björnsson.

Íþróttafélagið Þróttur er með mikla starfsemi í öllum greinum íþrótta í Neskaupstað.

Heimildir

  • Smári Geirsson. Norðfjarðarsaga II, síðari hluti frá 1895-1929.
  • Gerðabækur og gögn félagsins í vörslu Héraðsskjalasafns Neskaupstaðar.
  • Myndir í eigu og vörslu Skjala- og myndasafns og Héraðsskjalasafns Neskaupstaðar.

 

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Neskaupstaðar

 

Íþróttamannvirki í Vestmannaeyjum

Íþróttir og æskulýðsstarf í Vestmannaeyjum á 20. öld

Íþróttamannvirki í Vestmannaeyjum

Sundlaugin og fleiri íþróttamannvirki í Vestmannaeyjum.

Þróttmikið og öflugt íþróttalíf hefur löngum verið í Vestmannaeyjum, sérstaklega frá aldamótunum 1900. Þaðan hafa margir fræknir afreksmenn komið og mörg Íslandsmetin verið slegin í gegnum tíðina, sérstaklega í frjálsum íþróttum. Fjölbreytni íþróttagreina hefur verið í öndvegi og má þar nefna t.d. sund, fimleika, frjálsar íþróttir, golf og síðast en ekki hvað síst boltagreinarnar, handbolta og fótbolta, sem Eyjamenn hafa löngum lagt ríka áherslu á að kynna fyrir yngstu kynslóðinni, og stundað markvisst uppbyggingarstarf, sem vakið hefur þjóðarathygli, t.d. með íþróttamótum fyrir unga fólkið.

Skipulögð íþróttastarfsemi hófst í Eyjum árið 1922, en á árunum 1929-1945 var starfandi Íþróttaráð Vestmannaeyja. Íþróttabandalag Vestmannaeyja (ÍBV) var stofnað í maí 1945, og var fyrsti formaður þess Vigfús Ólafsson, kennari frá Gíslholti. Síðan hefur ÍBV verið burðarrásin í íþróttastarfseminni í Vestmannaeyjum.

Í dag eru Vestmannaeyjar einn helsti íþróttabær landsins, með einni glæsilegustu íþróttamiðstöð landsins, með þremur löglegum handboltavöllum, bestu innisundlaug landsins og stórglæsilegu útisvæði við sundlaugina, með heitum pottum, vaðlaug og rennibraut (sjá myndina að ofan). Í bænum er fjölnota íþróttahús, Eimskipshöllin, Hásteinsvöllurinn (með nýrri stúku), ásamt fjórum öðrum knattspyrnuvöllum og einn skemmtilegasti og eftirsóttasti golfvöllur landsins.

Það segir sig sjálft að Vestmannaeyingar hafa átt afreksmenn í röðum Ólympíufara Íslands, allt frá Ólympíuleikunum í Berlín 1936. Fulltrúar Vestmannaeyinga á leikunum í Berlín voru frjálsíþróttamennirnir og keppendurnir Sigurður Sigurðsson og Karl Vilmundarson, ásamt Friðriki Jessyni, íþróttakennara, sem fór með hópi íþróttakennara á leikana til þess að sýna og kynna íslenska glímu.

Á Héraðsskjalasafninu í Vestmannaeyjum er fjölbreytt safn skjala úr sögu hinna ýmsu íþróttafélaga í bænum og mikið magn skjala sem jafnframt tengjast öflugu æskulýðsstarfi í bænum í gegnum tíðina, sem ber vitni þrotlausri og óeigingjarnri sjálfboðavinnu fjölda manna sem lagt hafa hönd á plóginn til þess að æskan geti stundað æfingar og keppni af kappi á sómasamlegan hátt.

Meðal þess sem er að finna í safninu eru skjöl eftirtaldra íþróttafélaga:

  • Knattspyrnufélag Vestmannaeyja (1916-1920)
  • Knattspyrnufélagið Týr (1921-1996)
  • Sundfélag ÍBV (1978-2006)

Og einnig skjöl eftirfarandi æskulýðsfélaga:

  • Ungmennafélag Vestmannaeyja (1927-1929)
  • Skátafélagið Faxi (1938-)
  • KFUM og K (1924-1971)
  • Barnastúkan Fanney nr. 48 1928-1949)

Á næsta ári er svo að að Íþróttafélagið Þór bætist í hópinn. Þá verða liðin 100 ár frá stofnun félagsins og lokið verður við að skrifa sögu félagsins. En skjalasafn Þórs er talvert stórt að vöxtum og spannar nánast alla 20. öldina.

Einnig er í safninu mikið magn skjala varðandi Íþrótta- og æskulýðsráð Vestmannaeyjabæjar, sem hefur mikla sögu að segja úr sögu sundkennslu, Miðhúsalaugarinnar og Íþróttamiðstöðvarinnar í Vestmannaeyjum.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja

 

Blikar fagna

Baráttuglaðir Blikar

Blikar fagna

Á myndinni sjást Þór Hreiðarsson (t.h.) og Bjarni Bjarnason (t.v.) baða út höndum. Á milli þeirra sést dómari leiksins, Ragnar Magnússon. Guðmundur H. Jónsson og Ólafur Hákonarson fallast í faðma. Myndin er úr ljósmyndasafni Héraðsskjalasafns Kópavogs og er ljósmyndarinn líklegast Marteinn Heiðarsson.

Um 500 knattspyrnuáhugamenn mættu á Melavöllinn þann 31. október árið 1971 til þess að fylgjast með knattspyrnuleik ríkjandi bikarmeistara Fram á móti Breiðablik, sem þá lék í 2. deild. Veðrið var erfitt viðureignar og bjuggust margir við að leiknum yrði frestað. Framarar sóttu ákaft en án árangurs og náðu baráttuglaðir Blikar að verjast öllum sóknum. Á 35. mínútu leiksins skoraði Breiðablik óvænt þegar Guðmundur Þórðarson, sóknarmaður Breiðabliks, lagði boltann fram hjá markverði Fram og í netið. Þetta reyndist vera eina mark leiksins og tryggði Breiðablik þátttökurétt í sínum fyrsta bikarúrslitaleik í sögu félagsins. Sá leikur fór fram þann 6. nóvember sama ár og var andstæðingurinn Víkingur frá Reykjavík. Leiknum með sigri Reykjavíkurliðsins, en merkilegast við leikinn var að bæði liðin voru á þessum tíma í 2. deild á Íslandsmótinu.

 

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Kópavogs