Tag Archives: Laugardalur

Dagskrá fyrir vígslu Íþróttaleikvangs Reykjavíkur - Laugardalsvallar 17. júní 1959.

Íþróttaleikvangur Reykjavíkur í Laugardal
Saga framkvæmdanna

Stúka Laugardalsvallar í byggingu. Ljósmyndari óþekktur. Einkaskjalasafn 225. Íþróttabandalag Reykjavíkur. Borgarskjalasafn ReykjavíkurHópfimleikar stúlkna. Ljósmyndari óþekktur. Einkaskjalasafn 225. Íþróttabandalag Reykjavíkur. Borgarskjalasafn ReykjavíkurKnattspyrnuleikur. Ljósmyndari óþekktur. Einkaskjalasafn 225. Íþróttabandalag Reykjavíkur. Borgarskjalasafn ReykjavíkurÍþróttaleikvangur Reykjavíkur – Laugardalsvöllur vígður 17. júní 1959. Ljósmyndari Gunnar Rúnar. Einkaskjalasafn 225. Íþróttabandalag Reykjavíkur. Borgarskjalasafn ReykjavíkurVið vígslu Íþróttaleikvangs Reykjavíkur – Laugardalsvallar. Ljósmyndari óþekktur. Einkaskjalasafn 225. Íþróttabandalag Reykjavíkur. Borgarskjalasafn ReykjavíkurTímataka á hlaupurum á Laugardalsvelli

Hugmynd um íþrótta- og skemmtisvæði fyrir Reykvíkinga í Laugardalnum mun fyrst hafa verið sett opinberlega fram af Sigurði Guðmundssyni málara árið 1871. Íbúafjöldi Reykjavíkur var þá 2000 manns og náði byggðin einungis að Þingholtsstræti. Þá var sú staðsetning talin vera of langt frá byggðinni og var svo talið enn undir miðja 20. öld.

Þann 2. apríl 1943 skipaði bæjarstjórn Reykjavíkur Laugardalsnefnd. Nefndin undirbjó tillögur um skipulagningu svæðisins og sendi þær til bæjarráðs hinn 24. júlí sama ár. Lagt var til að svæðið yrði skipulagt á þann veg að afnot þess yrðu sem fjölbreytilegust fyrir borgarbúa:

Á svæðinu ætti fyrst og fremst að koma upp sundlaugum og baðströnd, svo og nýtísku íþróttaleikvangi og æfingasvæðum með knattspyrnu-, handknattleiks- og tennisvöllum.

Utan þeirra svæða, sem ætluð yrðu til íþróttamannvirkja, yrði komið upp trjágróðri, bæði til skjóls og fegurðar, auk ræktunar skrautblóma til fegurðarauka. Á Laugarásnum yrði komið upp útsýnisturni, þar sem hvergi annarsstaðar í borginni gæfi að líta betra útsýni yfir hana og umhverfi hennar. Þá gerði nefndin og ráð fyrir að á svæðinu yrði reistur skáli fyrir útitónleika sem rúma myndi 5000 manns auk byggðasafns sem sýndi þróun höfuðstaðarins að ytra útliti.

Dagskrá fyrir vígslu Íþróttaleikvangs Reykjavíkur - Laugardalsvallar 17. júní 1959.

Dagskrá fyrir vígslu Íþróttaleikvangs Reykjavíkur – Laugardalsvallar 17. júní 1959.

Á árunum 1949-1950 var hafist handa við sjálfa vallargerðina. Vorið 1952 var sáð í völlinn eftir að hann hafði verið fínjafnaður og á sama tíma hófust framkvæmdir við áhorfendastæði og hlaupabraut. Sumarið 1953 hófst síðan undirbúningur að byggingu áhorfendastúkunnar, en fullgerð rúmaði hún 4000 áhorfendur, 85 m löng og 20 m breið. Gísli Halldórsson, arkitekt og forystumaður í íþróttahreyfingunni í áratugi, teiknaði Laugardalsvöllinn og hafði umsjón með framkvæmdum þar og hann teiknaði einnig Íþrótta- og sýningarhöll sem tekin var í gagnið í Laugardalnum árið 1965. Laugardalshöllin leysti af hólmi Hálogalandsbraggann, sem var rifinn árið 1968, og þar fóru lengi fram allir helstu kappleikir í handknattleik og körfubolta sem og margvísleg íþróttamót.

Á þjóðhátíðardaginn 17. júní 1959 var haldin hátíðleg vígsluhátíð leikvangsins, þrátt fyrir kulda og hvassviðri. Hófst hún með fjölmennri skrúðgöngu 530 manna hóps íþróttafólks úr íþróttafélögum Reykjavíkur. Á þessari vígsluhátíð skilaði Laugardalsnefnd leikvanginum af sér til bæjarstjórnar Reykjavíkur. Vígslumót var síðan haldið á honum dagana 3.-5. júlí og var það fjölmennasta íþróttamót sem efnt hafði verið til á Íslandi til þess dags.

Á vígsludaginn hinn 17. júní 1959 sagði í leiðara Morgunblaðsins:

Handtökin eru mörg og kostnaðurinn mikill við slík stórvirki. Engir telja þetta þó eftir því að hin ágætu mannvirki munu verða þróttmiklum æskulýð Íslands hvatning til aukinna dáða, sjálfum honum til þroska og þjóðinni allri til sæmdar.

Áhugavert er að skoða tillögur Laugardalsnefndar frá árinu 1943 og hversu margar af þeim hafa þegar komið til framkvæmda.

Texti: Þorgeir Ragnarsson.

Þetta efni er frá Borgarskjalasafni Reykjavíkur