Tag Archives: Ólympíuleikar

Knattspyrnumenn úr Íþróttafélaginu Þór í Vestmannaeyjum í kringum 1925-1930

Karl Vilmundarson

Knattspyrnumenn úr Íþróttafélaginu Þór í Vestmannaeyjum í kringum 1925-1930

Knattspyrnumenn úr Íþróttafélaginu Þór í Vestmannaeyjum um 1925-1930.
Efsta röð frá vinstri: Þórarinn Guðmundsson frá Háeyri, Óskar Valdason Sandgerði, Tómas Snorrason Hlíðarenda, Aðalsteinn Gunnlaugsson Gjábakka, Skarphéðinn Vilmundarson Hamri (frá Hjarðarholti).
Miðröð frá vinstri: Haraldur Sigurðsson Pétursborg, Þorgeir Sturluson Valhöll og Gísli Finnsson.
Fremsta röð frá vinstri: Oddgeir Kristjánsson Heiðarbrún, Sigurjón Helgason Lambhaga og ólympíufarinn Karl Vilmundarson Hjarðarholti.

Síðastur íslensku frjálsíþróttamannanna til þess að keppa á Ólympíuleikunum í Berlín 1936 var Karl Vilmundarson frá Hjarðarholti (1909-1983). Hann keppti í tugþraut. Þátttaka hans í þrautinni varð hins vegar endaslepp, og hann hætti eftir tvær greinar. Hann missti af 100 metra hlaupinu, en fékk þó að hlaupa einn og varð útkoman eftir því. Langstökkið gekk ekki betur, og gerði hann tvö stökk ógild. Þriðja stökkið mældist svo ekki nema 5,62 metrar, sem olli Karli slíkum vonbrigðum að hann hætti keppni. Karl var hins vegar fyrsti íslenski tugþrautarkappinn og náði sem slíkur góðum árangri, er nálgast það besta og varð methafi í vissum greinum frjálsra íþrótta. Karl var auk þess mjög snjall knattspyrnumaður.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja

 

Sigurður Sigurðsson

Sigurður Sigurðsson

Sigurður Sigurðsson

Sigurður Sigurðsson.

Sigurður Sigurðsson (1914-1982) frá Hólmi í Vestmannaeyjum var einn fremsti íþróttamaður Íslendinga á sinni tíð og því var vel við hæfi að hann væri í hinum stóra og glæsilega hópi sem Ísland sendi á Ólympíuleikana í Berlín árið 1936. Það sýndi sig að þetta var rétt ákvörðun, því Sigurður stóð sig best allra íslensku þátttakendanna. Hann varð fyrstur Íslendinga til þess að komast í undanúrslit á Ólympíuleikum og setti jafnframt Íslandsmet sem stóð í 10 ár.

Sigurður var einn fjögurra frjálsíþróttamanna sem Ísland sendi á leikana og keppti bæði í hástökki og þrístökki. Hann jafnaði Íslandsmetið í hástökki með því að stökkva 1,80 metra, en komst svo ekki í undanúrslit, til þess hefði hann þurft að stökkva 1,85. Til þess að komast í aðalkeppnina í þrístökkinu þurfti Sigurður að stökkva yfir 14 metra og það tókst í annarri tilraun. Stökkið var viðurkennt sem Íslandsmet, en svo gekk honum ekki eins vel í aðalkeppninni, stökk „aðeins“ 13,68 metra og varð 22 í röðinni í keppninni. Afrek hans í undanúrslitunum réttlætti þó fullkomlega þátttöku Íslendinga á leikunum og verður lengi í minnum haft. Hafa verður í huga að íslensku þátttakendurnir komu frá litlu landi þar sem aðstæður til iðkunar íþrótta voru mjög frumstæðar á þessum tíma og allt íþróttalíf miklum erfiðleikum háð.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja