Tag Archives: Ríkharður Jónsson

Fyrsta opna bókarinnar

Mótabók Aftureldingar og Drengs

Fyrsta opna bókarinnar

Fyrsta opna bókarinnar.

Bókin er einn mesti dýrgripur Héraðsskjalasafns Mosfellsbæjar og segja má að umbúnaður hennar sé ekki minni dýrgripur, en bókin liggur í trékassa sem útskorinn er af Ríkharði Jónssyni myndhöggvara og tréskurðarlistamanni. Þar fyrir utan koma tveir járnkassar.

Á fyrstu síðu bókarinnar er að finna kvæði eftir Björn Bjarnarson bónda, hreppsnefndar- og alþingismann frá Grafarholti í Mosfellssveit.

Á sömu opnu er skrautrituð lýsing á bókinni, rituð af Steindóri Björnssyni sem kenndi sig við Gröf og var sonur Björns frá Grafarholti. Þess ber að geta að Steindór skrifaði sjö fyrstu mótin í bókina.

Fyrsta mótið sem getið er í bókinni var haldið á Mógilsáreyrum í Kollafirði 14. júlí 1918 milli keppenda frá Ungmennafélögunum Aftureldingu og Drengs úr Kjós. Keppendur voru 19 talsins og keppt var í fimm greinum, íslenskri glímu, langstökki, hástökki, 100m hlaupi og 50m sundi.

Síðasta mót sem skráð er í bókina er frá 1953 og var haldið á Leirvogstungubökkum. Keppendur voru 16 talsins og keppt var í 7 greinum, 100m hlaupi, kúluvarpi, kringlukasti, hástökki, langstökki, spjótkasti og 3000m hlaupi. Auk Ungmennafélaganna Aftureldingar og Drengs tók Ungmennafélag Kjalnesinga nú einnig þátt í mótinu.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Mosfellsbæjar

 

Upphafssíða gjörðabókar Geisla. Teikning eftir Ríkharð Jónsson

U.M.F. Geisli í Aðaldal

Ungmennafélagið Geisli í Aðaldal í S-Þingeyjarsýslu var stofnað þann 14. júní 1908. Stofnfundurinn fór fram í Brekku og var fyrsti formaðurinn Konráð Vilhjálmsson kennari og bóndi á Hafralæk. Núverandi formaður er Árni Garðar Helgason frá Húsabakka. Eins og gefur að skilja þá hefur félagsstarfið verið missjafnlega öflugt í gegnum árin og félagið unnið að fjölbreyttum verkefnum s.s. skógrækt, landgræðslu, heyskap, bindindi, hjálparstörf, samkomuhald , leiklist, dansnámskeið, og síðast en ekki síst íþróttir, sem alltaf hafa verið stundaðar meira og minna í ýmsum greinum.

Á upphafssíðu gjörðabókar félagsins 1930-1955 er einkar falleg teikning eftir Ríkharð Jónsson myndskurðarmeistara. Aðalsteinn Sigmundsson, sem gaf félaginu bókina ritar eftirfarandi texta á fyrstu blaðsíðunni: „Bók þessi er gefin U.M.F. Geisla í Aðaldal, og svo um mælt, að á blöð hennar komi óræk merkii um logandi áhuga, andlega frjósemi og dáðrík störf“.

Ungmennafélagið gaf einnig um tíma út handskrifað blað sem bar nafnið Geislinn. Blaðinu var dreift í Aðaldal í nokkrum eintökum. Í blaðinu frá árinu 1916 birtist ljóðið „Vakna!“ þar sem sveinn og sprund eru hvött fram til dáða:

Ljóðið „Vakna!“ sem birtist í sveitablaðinu Geislinn árið 1916

Ljóðið „Vakna!“ sem birtist í sveitablaðinu Geislinn árið 1916.

Mörg vér höfum verk að vinna,
vinna – meðan dagur er;
móðir vora skógi skreyta
skyldum fyr en æfin þver. –
Stæla vöðva, auðga anda,
öllu góðu fylgi ljá,
fremja afrek allrahanda;
afl sitt noti hver sem má. –

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Þingeyinga