Tag Archives: Sauðárkrókur

Úr gjörðabók Mánans

Knattspyrnufélag ungra drengja á Sauðárkróki

Úr gjörðabók Mánans

Úr gjörðabók Mánans.

Annan dag hvítasunnu árið 1939 hittist hópur ungra drengja á Sauðárkróki og stofnuðu með sér knattspyrnufélag. Hafði drengjunum ekki þótt nóg að gert til stuðnings knattspyrnuiðkunnar sinnar, þótt starfandi væri í bænum Ungmennafélagið Tindastóll, en þar réðu þeir eldri lögum og lofum.

Höfðu þeir nokkuð við, sömdu ítarleg lög og stunduðu síðan æfingar að kappi um nokkurt skeið. Félagið hlaut nafnið Knattspyrnufélagið Máninn, skammstafað K.F.M. og var innsigli þess hálfur máni. Félagið hélt gjörðabók sem bar að varðveitast í kassa með loki og félagið mun hafa átt einn fótbolta, sem kom auðvitað að góðum notum, þótt hann ætti til að springa með tilheyrandi fjárútlátum fyrir félagið.

Merki Mánans

Merki Mánans.

Lög félagsins bera með sér nokkra einræðistilburði ráðamanna. Þannig var formaður æðstaráð og dómstóll í öllum deilumálum og brot gegn félagssamþykktum vörðuðu brottrekstri. Þó mátti veita brotlegum inngöngu aftur „enda sé um algerða iðrun og yfirbót að ræða.“

Félagið starfaði til ársins 1942 og fer engum sögum af sigrum eða ósigrum félagsmanna en formlega var félagið lagt niður árið 1944, „gjörvöllu hreppsfélagi voru til ósegjanlegrar hryggðar“, eins og segir í sérstöku bréfi í tilefni niðurlagningarinnar. Sjóður félagsins sem taldi 145,03 krónur var afhentur Rauða krossi Íslands og gerðu gefendur ráð fyrir því að fé þetta yrði upphaf að sjóði til kaupa á sjúkrabifreið „svo auðvelt megi reynast að flytja úr víðlendu héraði voru mörgum hvillum plagaðra meðbræðra vorra og koma þeim skjótlega undir hendur þess manns eða manna, sem með kunna fara“. Hefur sjóðurinn eflaust komið að góðum notum, að minnsta kosti eignuðust Skagfirðingar sjúkrabíl og hafa drengirnir á Sauðárkróki þar lagt sinn skerf að mörkum.

Þess ber að geta að fullgildir félagsmenn þessa merkilega voru vel á þriðja tug og greiddu þeir gjald til félagsins 25 aura í senn. Heldur fækkaði félagsmönnum eftir því sem á leið, enda ýmislegt fleira nytsamlegt með peninga að gera á þessum tíma. Félagsmenn voru flestir á aldrinum 7-10 ára í upphafi og var fyrsti formaður Snorri Sigurðsson, sýslumanns á Sauðárkróki, þar í hópi elstu manna 10 ára að aldri.

Fórur félagsins bárust til Héraðsskjalasafns Skagfirðinga nú nýverið um hendur sr. Árna Sigurðssonar sem gegndi um tíma starfi gjaldkera félagsins.

 

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Skagfirðinga

Sprækir skátar á toppi Tindastóls

Eitt sinn skáti…

Skagfirskir skátar

Skagfirskir skátar.

Hinn 22. mars 1929 var stofnað skátafélag á Sauðárkróki og fékk það nafnið Andvarar. Rekja má stofnun félagsins til áhuga héraðslæknisins Jónasar Kristjánssonar, sem síðar stóð fyrir stofnun Náttúrulækningafélags Íslands. Jónas var mikill áhugamaður um tóbaksbindindi og stofnaði ásamt ungu fólki á Sauðárkróki Tóbaksbindindisfélag í byrjun sama árs. Taldi hann að skátahreyfingin væri hentugur vettvangur til að útbreiða baráttuna gegn tóbakinu, auk þess sem það hefði góð áhrif á siðferði ungs fólks. Var félaginu skipt í þrjá flokka: Fálka, Þresti og Svani.

Helsti forystumaður skáta á Sauðárkróki um árabil var Franch Michelsen, síðar úrsmiður í Reykjavík. Franch var hjartað og sálin í félagsskapnum og stóð fyrir margvíslegum samkomum og ferðalögum að skátahætti. Árið 1932 stóð félagið að útgáfu skátablaðsins Hegrinn og var það fyrsta blaðið sem skátahreyfingin á Íslandi gaf úr. Var blaðið fjölritað í nokkrum eintökum og kom út þrívegis á því ári og einu sinni á árinu 1933. Ári síðar hófu Andvarar útgáfu Skátablaðsins sem einnig var fjölritað í 400 eintökum og kom út undir merkjum þess um tíma. Franch Michelsen var ritstjóri allra blaðanna og höfundur megin þorra textans. Fyrir nokkrum árum gaf sr. Sigurður Helgi Guðmundsson eintök af þessum blöðum á Héraðsskjalasafni Skagfirðinga fagurlega innbundin, en ekki er vitað til þess að þessi útgáfa sé annars staðar til í heilu lagi.

Sprækir skátar á toppi Tindastóls

Sprækir skátar á toppi Tindastóls.

Eftir fjallgöngu á Tindastól vorið 1929 orti Friðrik Hansen barnakennari og skáld á Sauðárkróki þennan brag undir laginu Öxar við ána. Var hann prentaður í blaði félagsins og oft sunginn á ferðum þess:

Andvarinn líður
ljúfur og þýður
blessar og hressir um dali og strönd.
Fram upp til fjalla
fossarnir kalla,
finnið og skoðið hin vorgrænu lönd.
Áfram, Andvarar glaðir.
Áfram, klífið Tindastól.
Fylkið, fjallagestir,
Fálkar, Svanir, Þrestir,
þétt og djarft með sumri og sól.

Skátafélagið Andvarar var mikilvægur kvistur í lífstrénu á Sauðárkróki á árum kreppu og fátæktar eða eins og Kristmundur Bjarnason segir í Sögu Sauðárkróks: „átti sinn þátt í að eyða deyfð og drunga, hættulegum fylgikvillum atvinnuleysis og örbyrgðar. Andvarar eygðu „hin vorgrænu lönd“.

Heimildir

  • Kristmundur Bjarnason: Saga Sauðárkróks III, bls. 241-248. Hegrinn (fjölrit) 1932-1933. Skátablaðið (fjölrit), 1934.

 

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Skagfirðinga