Tag Archives: Sund

Sundskáli Svarfdæla

Sundskáli Svarfdæla

Sundskáli Svarfdæla

Sundskáli Svarfdæla.

Sundskáli Svarfdæla var vígður sumardaginn fyrsta, 25. apríl 1929. Helsti hvatamaður að byggingu hans var Kristinn Jónsson sem þá kenndi sund í Svarfaðardal og á Dalvík. Það var einnig hann sem benti á hentuga staðsetningu við volgar uppsprettur í landi Tjarnargarðshorns. Bygging sundskálans tók tvö ár og var að miklu leyti unnin í sjálfboðavinnu félaga í ungmennafélögum í Svarfaðardal og Dalvík. Sveinbjörn Jónsson á Akureyri var byggingarmeistari og Arngrímur Jóhannesson á Dalvík yfirsmiður. Stærð laugarinnar er 12,5 x 5 m.

Sundskálabyggingin er um margt merkileg. Hún er ein af fyrstu yfirbyggðum sundlaugum í landinu og þak hennar er steinsteypt. Það þótti einstætt afrek á sínum tíma að bygging af þessu tagi reis í fámennu byggðarlagi. Svo vel var að byggingunni staðið að engar skemmdir urðu á húsinu þegar jarðskjálfarnir dundu yfir Dalvík og Svarfaðardal 1934. Sundskálinn var í mikilli og samfelldri notkun bæði til kennslu og fyrir almenning. Hann var endurbyggður árið 1988 og er ennþá í notkunarhæfu ástandi.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Svarfdæla

 

Sigurjón Pétursson stingur sér til sunds

Íþróttaskólinn á Álafossi

Sigurjón Pétursson stingur sér til sunds

Sigurjón Pétursson stingur sér til sunds af hærri dýfingarpallinum. Úr myndasafni Péturs Sigurjónssonar.

Telja má að sá maður sem mest áhrif hafði á íþróttaiðkun Mosfellinga í upphafi 20. aldar hafi verið Sigurjón Pétursson sem kenndur var við Álafoss.

Sigurjón taldi sund vera allra meina bót og sá möguleikana í ylvolgri Varmánni til ýmiskonar sundiðkunar. Hann útbjó búningaaðstöðu við ána og var skáli vígður 12. júní 1927 Morgunblaðið greindi m.a. svo frá:

Á sunnudaginn 12. júní 1927 … verður opnaður nýr sundskáli að Álafossi í Mosfellssveit. Við það tækifæri verða margar sundþrautir háðar. …

Þar verður sýnt Kafsund, björgun, skriðsund, lífgunartilraunir.

Knattleikur í vatni sýndur í fyrsta sinn á Íslandi. – Stúlkur sýna björgun og ýmis sund. ….

(Saga Mosfellsbæjar, bls. 305)

Árið 1928 tók íþróttaskóli fyrir börn og unglinga til starfa. Hann var starfræktur á Álafossi að undirlagi Sigurjóns.

Í skólanum var sund ásamt leikfimi í fyrirrúmi, þar sem sundaðstaðan við ána gegndi lykilhlutverki. Þar hafði Sigurjón látið reisa tvo dýfingarpalla 2. og 3. metra háa og var reglulega keppt í sundi, sundknattleik og dýfingum. Þá var byggt hús fyrir nemendur íþróttaskólans og útipallur sem gegndi bæði hlutverki við íþróttaiðkun og í sýningum.

Andanum í skólanum er best lýst af Guðjóni Hjartarsyni sem dvaldi í skólanum árið 1936 þá 9 ára gamall:

Sigurjón stjórnaði þessu mikið sjálfur. Dagurinn hófst með fánahyllingu, sem var mikil og hátíðleg athöfn, nánast eins og sjá má í skátabúðum. Okkur drengjunum var stillt upp í röð. Við stóðum teinréttir og fáninn var hylltur eftir vissum mjög formföstum reglum. Að því búnu var framreiddur morgunverður, sem var hafragrautur, rúgbrauð og lýsi.

Deginum var skipt í það sem nú kallast annir, en þær voru sund, leikfimi og gönguferðir. Hápunktur sumarsins var Fánadagurinn, sem var íþróttamót og skemmtun.

(Saga Mosfellsbæjar, bls. 307-308)

Glímumenn, sjá má verksmiðjuhúsin á Álafossi í baksýn. Úr myndasafni Péturs SigurjónssonarGrímur Norðdahl frá Úlfarsfelli og Jón Sturluson frá Fljótshólum í glímutökum. Úr myndasafni Gríms NorðdahlSigurjón Pétursson stingur sér til sunds af hærri dýfingarpallinum. Úr myndasafni Péturs SigurjónssonarTvö sundknattleikslið við búningsaðstöðuna á Álafossi. Úr myndasafni Péturs SigurjónssonarKeppni í sundknattleik í fullum gangi. Úr myndasafni Péturs SigurjónssonarStúlkur sýna leikfimiæfingar á sýningarpallinum við áhorfendabrekkuna. Úr myndasafni Péturs SigurjónssonarBörn sýna leikfimiæfingar á svæðinu fyrir neðan sýningarpallinn. Til hægri má sjá í sundlaugarbygginguna í byggingu. (Nú þekkt sem stúdíó Sigurrósar). Úr myndasafni Péturs SigurjónssonarStangarstökk. Úr myndasafni Gríms NorðdahlStúlkur sýna fimiæfingar á hesti. Fyrir neðan sýningarpallinn. Úr myndasafni Péturs SigurjónssonarMenn sýna fimiæfingar á svifrá. Úr myndasafni Péturs Sigurjónssonar

Heimild

  • Bjarki Bjarnason og Magnús Guðmundsson, Mosfellsbær, saga byggðar í 1100 ár. Reykjavík 2005.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Mosfellsbæjar

 

Friðrik Jesson

Friðrik Jesson

Friðrik Jesson

Friðrik Jesson.

Friðrik Jesson (1906-1992) var íþróttakennari, ljósmyndari og forstöðumaður Náttúrugripasafnsins í Vestmannaeyjum um áratuga skeið. Á yngri árum keppti hann í ýmsum íþróttagreinum og varð margfaldur Íslandsmeistari. Friðrik var t.d. í vaskri sveit Eyjamanna sem hélt Íslandsmetinu í stangartökki um áratugaskeið.

Friðrik lærði til íþróttakennara í Kaupmannahöfn og er hann kom heim frá námi hafði hann í farteskinu handknattleikinn, sem hann kynnti fyrir landsmönnum. Hann hélt fyrsta utanhússmótið í handknattleik árið 1925.

Friðrik var einn af stofnendum Knattspyrnufélagsins Týs, árið 1921, 15 ára gamall. Hann sat lengi í stjórn félagsins og varð heiðursfélagi þess. Friðrik var jafnframt stofnandi að Sundfélagi Vestmannaeyja og Skátafélaginu Faxa. Hann hlaut þjónustumerki og heiðursorðu ÍSÍ og garpsmerki FRÍ fyrir afrek í frjálsum íþróttum. Friðrik var sæmdur hinni íslensku Fálkaorðu fyrir störf sín.

Hann kenndi leikfimi við Barnaskóla Vestmannaeyja 1929-1963 og jafnframt við Gagnfræðaskólann í Vestmannaeyjum 1929-1932. Á árunum 1921-1939 kenndi Friðrik sund við Sundskálann undir Löngu í sex sumur. Eftir að Miðhúsalaugin tók til starfa 1934, kenndi hann þar sund á sumrum, allt til ársins 1963.

Friðrik Jesson fór með flokki íþróttakennara á Ólympíuleikana í Berlín 1936 og sýndi þar íslenska glímu við góðan orðstír.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja

 

Forsíða Vetrarbrautarinnar 1918-1919

Gluggað í gjörðabækur

Fundur Umf. Vonar 10. ágúst 1942 að Stakkabergi

Fundin sóttu 13 félagar. Gerðir fundarins voru þessar. 1. Söngur. 2. Formaður setti fundin og tilnefndi … fundarstjóra og … fundar ritara. 3. Rætt um áskorun (um boðhlaup) frá úmf. Dögun. Samþykkt var með öllum greiddum atkvæðum að hafna áskoruninni. 4. Farið í leiki. 5. Súngin nokkur lög. Upplesið  Samþ. Fundi slitið.

Gjörðabók Ungmennafélagsins Vonar í Klofningshreppi 1936-1946.

 Aðalfundur Umf. Stjörnunnar 15. febrúar 1925

Jóh. B. Jónasson flutti fyrirlestur um ungmennafélagsskapinn hjer í sveit. Áminnti hann fjelagsmenn um að leggja meiri stund á andlegt uppeldi sitt en verið hefur að undanförnu og temja sjer í hvervetna að koma fram sem sannir ungmennafélagar. Var fyrirlesara þakkað með lófataki.

Gjörðabók ofl. Ungmennafjelagsins “Stjarnan” Saurbæjarhreppi 1917-1957. Bls. 101

 Baðstofukveld Umf. Unnar djúpúðgu 10. apríl 1932 á Laugum

Klukkan 9 að kvöldi hófst baðstofukvöldið, þá voru samankomnir á staðnum 18 fjelagar og 3 gestir. Byrjað var þá strags á vinnunni, hver hafði sitt verk að vinna …. Vinnan var margskonar svo sem: saumur, prjón, spuni, þóf, gjarða- og reiphaldasmíði, gimbing, bókband o.fl. Nokkrir pilta og stúlkur skiftust á að lesa upp og kveða. Lesið var úr fornsögum og þjóðsögum, en kveðið mest lausavísur og smárímur. Þegar vinnan hafði staðið yfir 3 klukkustundir var kaffi með brauði um borð borið og var háð þar allfjörug samdrykkja. Að því loknu voru borð upp tekin og allir söfnuðust saman og áttu að síðustu þarna hátíðlega stund.

U.M.F. Unnur djúpúðga. Fundargerðir 1929-1935.

 Aðalfundur Sundfélags Hörðdælinga 4. júní 1939 í Laugardal

Tillaga kom fram um það að félagið komi sér upp girðingu til að rækta í trjáplöntur við sundlaugina og kýs þrjá menn til að athuga og undirbúa málið fyrir næsta vor. Tillagan var samþykkt.

Gjörðabók Sundfélags Hörðdælinga 1932-1940.

 

Forsíða Vetrarbrautarinnar 1918-1919

Forsíða Vetrarbrautarinnar 1918-1919, tímarits Ungmennafélagsins Ólafs pá í Laxárdalshreppi, Dalasýslu.

Fundur Umf. Ólafs Páa 7. júní 1925 að Spákellsstöðum

Formaður átaldi fundar- og félagsmenn fyrir þögn á fundum og hvatti menn til að tala og tala eins og maður væri að tala við kunningja sinn. … Á þessum fundi vor fluttar eftirtaldar ræður, auk upplesturs – og samtals – sem óþarflega mikið var gert að. Formaður Skúli Jóhannesson 16 ræður. Jóhann Bjarnason 13 ræður. Hallgrímur Jónsson 13 ræður. Óskar Sumarliðason gjaldk. 11 ræður. Fleiri töluðu ekki.

Fundarbók ungmennafélagsins “Ólafur Pái” 1909-1928.

 Fundur Umf. Dögunar 24. mars 1929 í Túngarði

K. G. bar fram tillögu um að félagar Dögunar legðu niður kossa sem almenna kveðju á fundum og samkomum félagsins. Sagði hún að sér findist þettað vera spor í áttina að temja sér kurteisa framkomu. Fleiri voru á sama máli og var tillagan rædd frá ímsum hliðum var síðan samþigt af öllum viðstöddum félagsmönnum.

Gjörðabók ungmennafélagsins “Dögun” 1922-1936. Bls. 39

 Fundur Umf. Æskunnar 3. apríl 1932 á Nesodda

Fundurinn ákveður að byggja hús á Nesodda að stærð 10×12 ál. á næstkomandi vori ef hægt verður að fá lán til byggjingarinnar og er stjórninni falið framkvæmd á því og jafnframt að sjá um innkaup á efni.

Samkvæmt reikningum félagsins fyrir árið 1932 varð byggingakostnaður hússins 2.138,12 kr. Félagið þurfti að taka að láni 1.500 kr lán, sem það lauk að borga af 1941.

Gjörðabók Umf. Æskan 1930-1934

Reikningar Umf. Æskan 1928-1939 og 1940-1950.

Kvöldvaka Umf. Vöku í janúar 1960 í Búðardal

Var leikinn skemmtiþáttur. Brynjólfur Haraldsson las upp sögu. Ingibjörg Kristinsdóttir söng gamanvísur. Gísli Brynjólfsson las upp glens um hreppsbúa. Spurningaþáttur undir stjórn Jóns Finnssonar. Síðan var Félagsvist og að lokum dansað. Veitingar sem Guðbjörg og Dísa sáu um voru alveg indislegar.

Gjörðabók U.M.F. “Tilraun” / “Vaka” í Skarðshreppi. 1929-1986.

Gjörðabók Ungmennafélagsins Völu í Skarðshreppi, Dalasýslu.

Gjörðabók Ungmennafélagsins Vöku í Skarðshreppi, Dalasýslu.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Dalasýslu