Tag Archives: Sundlaug

Upphaf fundargerðar stofnfundar Ungmennafélags Norðfjarðar

Ungmennafélag Norðfjarðar

Upphaf fundargerðar stofnfundar Ungmennafélags Norðfjarðar

Upphaf fundargerðar stofnfundar Ungmennafélags Norðfjarðar.

Hinn 16.október 1910 var haldinn fundur í Góðtemplarahúsinu á Nesi í Norðfirði í þeim tilgangi að ræða stofnun ungmennafélags í byggðarlaginu. Fundarboðendur voru þeir Valdimar Sigmundsson Long skólastjóri og Guðmundur Halldórsson.

Á fundinum rakti Guðmundur Halldórsson sögu ungmennafélagshreyfingarinnar á Íslandi en þegar hann hafði lokið máli sínu greindi Valdimar frá stefnu og starfsemi ungmennafélaganna. Þegar fundarboðendur hofðu flutt framsöguerindi sín var skorað á fundarmenn að gerast félagar í ungmennafélagi sem stofnað yrði á fundinum og gáfu sig strax fram 25 menn sem undirrituðu skuldbindingaskrá Ungmennafélags Íslands. Því næst var félagið stofnað og fór þegar fram stjórnarkjör. Valdimar Sigmundsson var kjörinn formaður félagsins, Hjálmar Ólafsson ritari og Jónas Andrésson gjaldkeri. Hinni nýkjörnu stjórn var falið að semja lög félagsins.

1. gr. Félagið heitir „Ungmennafélag Norðfjarðar“.

2. gr. Tilgangur félagsins er þessi:

1. Að reyna af alefli að vekja löngun hjá æskulýðnum til þess að vinna að frelsi, framförum og heill sjálfra sín og þjóðfélagsins.

2. Að temja sér að beita starfskröftum sínum bæði innan félags og utan.

3. Að reyna af fremsta megni að styðja vernda og efla allt það sem þjóðlegt er, gott og gagnlegt, og annað það, sem horfir til gagns og sóma íslensku þjóðinni. Sérstaklega skal lögð stund á að fegra og hreinsa móðurmálið.

3. gr. Að tilgangi sínum vinnur félagið meó því að halda fundi og umræður fari fram, upplestur, söngur, íþróttir og annað það, sem lýtur að líkamlegu og andlegu atgerfi.

4. gr. Félagar geta þeir einir orðið sem eru heimilisfastir innan þessa héraðs og eru 14 ára að aldri, vilja vita starf sitt á kristilegum grundvelli og gangast undir skuldbingingaskrá U .M.F. Íslands.

Unnið að byggingu sundlaugar er Ungmennafélagið Norðfiðingur hóf að byggja árið 1912

Unnið á vegum Málfundafélagsins Austra árið 1920 að byggingu sundlaugarinnar er Ungmennafélagið Norðfiðingur hóf að byggja árið 1912.

Eitt af verkefnum félgasins var að hefja framkvæmdir við byggingu sundlaugar á Norðfirði árið 1912, sem var þó ekkki lokið við fyrr en 1920 og þá að frumkvæði Málfundafélagsins Austra á Norðfirði.

Ekki eru til heimildir um starfsemi Ungmennafélags Norðfjarðar eftir árið 1913. Vera kann að félagið hafi starfað eitthvað lengur en víst er að á árinu 1913 dró verulega úr þeim krafti sem verið hafði í félagsstarfinu.

Heimildir

  • Smári Geirsson. Norðfjarðarsaga II, síðari hluti frá 1895-1929.
  • Gerðabækur og gögn félagsins í vörslu Héraðsskjalasafns Neskaupstaðar.
  • Myndir í eigu og vörslu Skjala- og myndasafns og Héraðsskjalasafns Neskaupstaðar.

 

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Neskaupstaðar

 

Miðhúsalaugin (sundlaugin) í Vestmannaeyjum með sjóveitutankana í baksýn

Miðhúsalaugin í Vestmannaeyjum

Miðhúsalaugin (sundlaugin) í Vestmannaeyjum með sjóveitutankana í baksýn

Miðhúsalaugin (sundlaugin) í Vestmannaeyjum með sjóveitutankana í baksýn. Myndina tók Friðrik Jesson íþróttakennari einhvern tímann á fyrstu starfsárum sundlaugarinnar.

Miðhúsalaugin var opnuð 14. nóvember 1934, með sjómannanámskeiði. Almenningur fékk hins vegar ekki aðgang að lauginni fyrr en sumarið eftir. Laugin var steinsteypt, 20 x 12 metrar að stærð. Dýpt laugarinnar var einn metri að norðan og tveir að sunnan. Fyrstu áratugina var sjór í lauginni. Hún fékk sjó frá sjóveitunni á Skansinum, og var hann hitaður upp í 22-28 gráður, allt eftir veðurfari. Seinna fékk laugin heitt vatn frá Rafstöðinni. Til að fylla laugina þurfti 330 tonn af sjó. Miðhúsalaugin fór undir hraun í eldgosinu á Heimaey í mars 1973.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja