Tag Archives: Væringjar

Væringjar í fullum skrúða

Skátafélagið Væringjar

Væringjar í fullum skrúða

Væringjar í fullum skrúða í sínum upprunalegu búningum. Skátabúningurinn sem tekinn var upp eftir að Axel V. Tulinius tók við stjórn félagsins var græn blússa, dökkbláar buxur, blár klútur, grænir sokkar og skátahattur.

Skátahreyfingin á Íslandi fagnar um þessar mundir 100 ára starfsafmæli. Fyrsti skátaflokkurinn var stofnaður á Íslandi sumarið 1911 en starfsemi hans lagðist að mestu niður þá um haustið, er flokksforinginn Ingvar Ólafsson hélt utan til Danmerkur. Nokkrir ungir menn sem starfað höfðu með flokknum sumarið 1911 héldu þó hópinn og hinn 2. nóvember 1912 stofnuðu þeir Skátafélag Reykjavíkur. Miðast afmæli skátahreyfingarinnar við þau tímamót.

Dagbók Væringjafélagsins

Fyrsta færslan í elstu dagbók Væringjafélagsins frá árinu 1915.

Sumardaginn fyrsta árið 1913 stofnaði séra Friðrik Friðriksson sérstaka deild innan KFUM fyrir unga drengi og nefndist félagsskapurinn Væringjar. Í upphafi mun ætlunin ekki hafa verið að félagið yrði starfrækt sem skátafélag og til marks um það er t.d. að innblástur í búning félagsmanna var sóttur í íslenskar fornsögur. Séra Friðrik lýsti tilganginum með stofnun Væringja og viðfangsefnum þeirra í blaðinu Lilju, sem Væringjar gáfu út árið 1916:

Hugsjónir þeirra eru þær, að byrja snemma að æfa sig í ýmsum andlegum og líkamlegum íþróttum. Andlegu íþróttirnar, sem þeir eiga að temja sér, eru þær, að læra hlýðni, sannsögli, gott orðbragð, drengskap og kurteisi í framgöngu, sjálfsaga og sjálfsafneitun, trúmennsku í starfi sínu og iðni í námi sínu. Líkamlegu íþróttirnar eru ýmsar, t.d. skotfimi, skátaæfingar, leikfimi, sund og glímur o.s.frv. eftir því, sem þeir eldast og tæki eru til.

Karlmennska og hreysti í orði og verki, andleg og líkamleg, á að vera einkenni þeirra, og með öllu þessu eiga þeir að verða kristnir drengir, sem með fullri vitund og vilja eiga að læra öllu fremur, að elska Guð og þjóna konungi sínum, Jesú Kristi. Litirnir á einkennisbúningi þeirra minna þá stöðugt á þetta. Kyrtillinn, hvítur og blár, minnir þá á fósturjörðina, að þeir séu Íslendingar og vilji verða Íslandi góðir synir. Skikkjan, rauð og hvít, minnir á sakleysi go kærleika, og á það, að þeir eiga að verða stríðsmenn Krists og berjast vasklega á móti sollinum og öllum freistingum. Húfan, rauð og hvít og blá, minnir á Kristilegt félag ungra manna (K.F.U.M.), að verða því góðir liðsmenn og efla það og ástunda allar hugsjónir félagsins.

Séra Friðrik hélt utan í nóvember 1913 og varð að samkomulagi að Axel V. Tulinius, fyrrverandi sýslumaður, tæki að sér stjórn félagsins. Eftir að Axel tók við var starfsháttum að mörgu leyti breytt, og var félagið m.a. gert að formlegu skátafélagi. Tekinn var upp skátabúningur og félagið hóf að starfa eftir reglum Sir Robert Baden-Powells. Þegar leið á annan og þriðja áratug 20. aldar voru fleiri skátafélög stofnuð í landinu og tóku flest þeirra upp þann sið Væringja að nefna félögin sérstöku nafni, í stað þess að nefna félagið eftir þeim stað sem þau störfuðu á.

Heimildir

  • „Úr dagbók Væringjafélagsins“. Skátafélagið Væringjar 25 ára, 1913-1938. Útgefandi skátafélagið Væringjar. Reykjavík 1938.
  • ÞÍ. Skátasafn. Væringjafélagið í Reykjavík. Dagbók 1915-1927.
  • Skátavefurinn – Bandalag íslenskra skáta. “Skátahreyfingin berst til Íslands”. Vefslóð: http://www.scout.is/vefur/default.asp?ItemGroupID=8&ItemID=190.

 

Þetta efni er frá Þjóðskjalasafni Íslands