Kvenskátar

Skátafélag KFUK

Kvenskátar

Kvenskátar um miðjan þriðja áratug 20. aldar.
Efsta röð: Kristín Sigurðardóttir, Elín Jóhannesdóttir, Unnur Gunnarsdóttir, Inga Einarsdóttir, Anna Baldvinsdóttir.
Miðröð: Dagmar Bjarnason, Else Nilsen, Jakobína Magnúsdóttir, Guðrún Stefánsdóttir, Hólmfríður Guðmundsdóttir.
Neðsta röð: Ruth Hansson, Þórunn Brynjólfsdóttir, Guðrún Einarsdóttir, Guðrún Magnúsdóttir, Kristín Bjarnadóttir. 

Skátafélag KFUK var stofnað hinn 7. júlí 1922 og er það elsta kvenskátafélag landsins. Fyrsti félagsfundurinn var haldinn daginn eftir í húsi KFUK við Amtmannsstíg. Níu stúlkur mættu á fyrsta félagsfundinn og skátaforingi félagsins var Jakobína Magnúsdóttir. Á þessum fyrsta fundi var einnig viðstödd skátaforingi frá Danmörku sem veitti leiðsögn. Hún hét Gertrud Nielsen og varð síðar flokksforingi og prófastsfrú á Húsavík. Í dagbók skátafélagsins kemur fram að á fyrsta fundinum hefði hún áminnt stúlkurnar um hlýðni og sýnt þeim skátakveðjurnar. Þá segir ennfremur: „Svo var þeim sett fyrir að kunna 2 sálma og koma með stoppaðan sokk og festa tölu (sem þær hefðu sjálfar gjört) á næstu æfingu. Frk. Nielsen endaði með bæn, og svo var sungið“. Aðeins tveimur dögum síðar var næsti fundur félagsins haldinn. Stúlkurnar skiluðu því sem þeim hafði verið sett fyrir og lærðu þrjá hnúta: Réttan hnút, flaggahnút og staurahnút. Þá fengu allar stúlkurnar vélritað eintak af skátalögunum. Fundir voru tíðir á upphafsdögum félagsins og á sjötta fundi félagsins, hinn 20. júlí 1922, þreyttu átta stúlkur nýliðapróf.

Síða úr fundargerðabók kvenskáta

Dagbækur eða fundargerðabækur skátafélags KFUK eru varðveittar í Þjóðskjalasafni Íslands. Hér getur að líta fyrstu færslurnar frá því í júlí 1922.

Haldið var í fyrstu ferð félagsins hinn 23. júlí og gengið upp að Elliðavatni. Tæpum hálfum mánuði síðar fóru stúlkurnar í Væringjaskálann við Lækjarbotna: „Í Væringjaskálann fórum við laugardagskvöldið 5/8, sumar í bíl og sumar hjólandi, komum aftur kl. 7 e.m. daginn eftir. Vorum 11“. Eftir viðburðaríkt sumar varð nokkurt hlé í starfsemi félagsins um haustið, en upp úr miðjum október 1922 hófst regluleg starfsemi að nýju. Alls voru 17 meðlimir skráðir í skátafélag KFUK á þessu fyrsta ári og voru stúlkurnar á aldrinum 13-18 ára. Meðal þess sem lögð var áhersla á í starfinu var hjálp í viðlögum og á tímabilinu 12. október til 14. desember 1922 voru níu æfingar haldnar þar sem Davíð Scheving Thorsteinsson læknir veitti tilsögn í hjálp í viðlögum.

Skátafélagið starfaði innan vébanda KFUK fyrsta áratuginn en frá árinu 1932 sem sjálfstætt skátafélag undir nafninu Kvenskátafélag Reykjavíkur. Árið 1944 sameinuðust skátafélög karla og kvenna í Bandalagi íslenskra skáta.

Handbók sem Ragnhildur Briem Ólafsdóttir (1913-1983) útbjó árið 1929 er hún undirbjó skátapróf sín. Ragnhildur gekk ung í skátafélag KFUK. Hún starfaði síðar sem teiknari og kennari í Reykjavík. (PDF, 40MB).

Heimildir

  • „Eitt sinn skáti, ávallt skáti“. Morgunblaðið, 6. júlí 1997.
  • ÞÍ. Skátasafn. Dagbók skátafélags KFUK, 1922-1924.

Þetta efni er frá Þjóðskjalasafni Íslands