Tag Archives: Þjóðskjalasafn Íslands

Svarskeyti Ásgeirs Ásgeirssonar til skátahöfðingja

Upphaf 50. starfsárs skátahreyfingarinnar á Íslandi áramótin 1961

Stjórn Bandalags íslenkra skáta ákvað að hefja fimmtugasta starfsár skátahreyfingarinnar 1962 síðdegis á gamlársdag 1961. Það var gert með þeim hætti að senda áramótakveðju frá skátahöfðingja Jónasi B. Jónssyni til Ásgeirs Ásgeirssonar forseta, verndara hreyfingarinnar.

Skátahöfðingi skrifaði áramótakveðju sína að heimili sínu við Melhaga. Skátarnir Aðalsteinn Þórðarson úr Völsungadeild og Ólafur Ásgeirsson úr Skjöldungadeild (síðar skátahöfðingi) hlupu með kveðjuna í Grímsstaðavör við Skerjafjörð. Þaðan var send kveðjan með Morsemerkjum yfir fjörðinn. Um merkjasendingar sá Baldur Ágústsson úr Birkibeinadeild. Í Bessastaðafjöru nam Vilhjálmur Kjartansson úr Víkingadeild skilaðboðin en Haukur Haraldsson úr Landnemadeild skrifaði orðsendinguna á áður gert plagg sem hann hafði teiknað. Arnlaugur Guðmundsson úr Víkingadeild og Haukur Haraldsson hlupu með orðsendinguna til Bessastaða þar sem forsetinn tók á móti kveðjunni. Orðsending skátanna var svohljóðandi:

Forseti Íslands Herra Ásgeir Ásgeirsson verndari íslenskra skáta.

Íslenskir skátar senda yður og fjölskyldu yðar einlægar nýárskveðjur er skátaárið 1962 gengur í garð. Vér heitum því að efla skátastarfið hvarvetna á landinu sem framast vér megum og minnast þannig 50 ára skátahreyfingar á Íslandi.

Með skátakveðju, Jónas B. Jónsson.

Arnlaugur Guðmundsson og Haukur Haraldsson hlupu síðan með kveðju forseta aftur í fjöruna eftir að hafa þegið veitingar. Orðsendingin var nú enn á ný send með Morse yfir Skerjafjörðinn. Skátahópurinn á Ægissíðunni tók við svarinu. Ólafur Ásgeirsson skrifaði kveðjur forsetans á pappírsörk sem Haukur Haraldsson hafði skreytt fyrirfram. Kveðja Ásgeirs Ásgeirssonar forseta var á þessa leið:

Bessastöðum 31. 12 1961. Skátahöfðingi Jónas B. Jónsson. Jeg þakka kærlega nýjárskveðju íslenskra skáta, ég árna þeim góða félagsskap allra heilla á komandi hálfrar aldar afmælisári. Ásgeir Ásgeirsson.

Þetta svarskeyti var svo borið til skátahöfðingja Jónasar B. Jónssonar.

Svarskeyti Ásgeirs Ásgeirssonar til skátahöfðingja

Hér er svarskeyti Ásgeirs Ásgeirssonar til skátahöfðingja. Það barst Þjóðskjalasafni nýlega úr fórum fjölskyldu Jónasar B. Jónssonar.

Skátarnir Arnlaugur Guðmundsson (í miðið) og Haukur Haraldsson (th) afhenda Ásgeiri Ásgeirssyni forseta kveðju skátahöfðinga á Bessastöðum 31. desmeber 1961

Skátarnir Arnlaugur Guðmundsson (í miðið) og Haukur Haraldsson (th) afhenda Ásgeiri Ásgeirssyni forseta kveðju skátahöfðinga á Bessastöðum 31. desmeber 1961.

Aðalsteinn Þórðarson (tv) og Ólafur Ásgeirsson (th) koma úr Grímsstaðavör með skeyti frá forseta til Jónas B. Jónssonar skátahöfðingja.

Aðalsteinn Þórðarson (tv) og Ólafur Ásgeirsson (th) koma úr Grímsstaðavör með skeyti frá forseta til Jónas B. Jónssonar skátahöfðingja.

Þetta efni er frá Þjóðskjalasafni Íslands

Kvenskátar

Skátafélag KFUK

Kvenskátar

Kvenskátar um miðjan þriðja áratug 20. aldar.
Efsta röð: Kristín Sigurðardóttir, Elín Jóhannesdóttir, Unnur Gunnarsdóttir, Inga Einarsdóttir, Anna Baldvinsdóttir.
Miðröð: Dagmar Bjarnason, Else Nilsen, Jakobína Magnúsdóttir, Guðrún Stefánsdóttir, Hólmfríður Guðmundsdóttir.
Neðsta röð: Ruth Hansson, Þórunn Brynjólfsdóttir, Guðrún Einarsdóttir, Guðrún Magnúsdóttir, Kristín Bjarnadóttir. 

Skátafélag KFUK var stofnað hinn 7. júlí 1922 og er það elsta kvenskátafélag landsins. Fyrsti félagsfundurinn var haldinn daginn eftir í húsi KFUK við Amtmannsstíg. Níu stúlkur mættu á fyrsta félagsfundinn og skátaforingi félagsins var Jakobína Magnúsdóttir. Á þessum fyrsta fundi var einnig viðstödd skátaforingi frá Danmörku sem veitti leiðsögn. Hún hét Gertrud Nielsen og varð síðar flokksforingi og prófastsfrú á Húsavík. Í dagbók skátafélagsins kemur fram að á fyrsta fundinum hefði hún áminnt stúlkurnar um hlýðni og sýnt þeim skátakveðjurnar. Þá segir ennfremur: „Svo var þeim sett fyrir að kunna 2 sálma og koma með stoppaðan sokk og festa tölu (sem þær hefðu sjálfar gjört) á næstu æfingu. Frk. Nielsen endaði með bæn, og svo var sungið“. Aðeins tveimur dögum síðar var næsti fundur félagsins haldinn. Stúlkurnar skiluðu því sem þeim hafði verið sett fyrir og lærðu þrjá hnúta: Réttan hnút, flaggahnút og staurahnút. Þá fengu allar stúlkurnar vélritað eintak af skátalögunum. Fundir voru tíðir á upphafsdögum félagsins og á sjötta fundi félagsins, hinn 20. júlí 1922, þreyttu átta stúlkur nýliðapróf.

Síða úr fundargerðabók kvenskáta

Dagbækur eða fundargerðabækur skátafélags KFUK eru varðveittar í Þjóðskjalasafni Íslands. Hér getur að líta fyrstu færslurnar frá því í júlí 1922.

Haldið var í fyrstu ferð félagsins hinn 23. júlí og gengið upp að Elliðavatni. Tæpum hálfum mánuði síðar fóru stúlkurnar í Væringjaskálann við Lækjarbotna: „Í Væringjaskálann fórum við laugardagskvöldið 5/8, sumar í bíl og sumar hjólandi, komum aftur kl. 7 e.m. daginn eftir. Vorum 11“. Eftir viðburðaríkt sumar varð nokkurt hlé í starfsemi félagsins um haustið, en upp úr miðjum október 1922 hófst regluleg starfsemi að nýju. Alls voru 17 meðlimir skráðir í skátafélag KFUK á þessu fyrsta ári og voru stúlkurnar á aldrinum 13-18 ára. Meðal þess sem lögð var áhersla á í starfinu var hjálp í viðlögum og á tímabilinu 12. október til 14. desember 1922 voru níu æfingar haldnar þar sem Davíð Scheving Thorsteinsson læknir veitti tilsögn í hjálp í viðlögum.

Skátafélagið starfaði innan vébanda KFUK fyrsta áratuginn en frá árinu 1932 sem sjálfstætt skátafélag undir nafninu Kvenskátafélag Reykjavíkur. Árið 1944 sameinuðust skátafélög karla og kvenna í Bandalagi íslenskra skáta.

Handbók sem Ragnhildur Briem Ólafsdóttir (1913-1983) útbjó árið 1929 er hún undirbjó skátapróf sín. Ragnhildur gekk ung í skátafélag KFUK. Hún starfaði síðar sem teiknari og kennari í Reykjavík. (PDF, 40MB).

Heimildir

  • „Eitt sinn skáti, ávallt skáti“. Morgunblaðið, 6. júlí 1997.
  • ÞÍ. Skátasafn. Dagbók skátafélags KFUK, 1922-1924.

Þetta efni er frá Þjóðskjalasafni Íslands

Væringjar í fullum skrúða

Skátafélagið Væringjar

Væringjar í fullum skrúða

Væringjar í fullum skrúða í sínum upprunalegu búningum. Skátabúningurinn sem tekinn var upp eftir að Axel V. Tulinius tók við stjórn félagsins var græn blússa, dökkbláar buxur, blár klútur, grænir sokkar og skátahattur.

Skátahreyfingin á Íslandi fagnar um þessar mundir 100 ára starfsafmæli. Fyrsti skátaflokkurinn var stofnaður á Íslandi sumarið 1911 en starfsemi hans lagðist að mestu niður þá um haustið, er flokksforinginn Ingvar Ólafsson hélt utan til Danmerkur. Nokkrir ungir menn sem starfað höfðu með flokknum sumarið 1911 héldu þó hópinn og hinn 2. nóvember 1912 stofnuðu þeir Skátafélag Reykjavíkur. Miðast afmæli skátahreyfingarinnar við þau tímamót.

Dagbók Væringjafélagsins

Fyrsta færslan í elstu dagbók Væringjafélagsins frá árinu 1915.

Sumardaginn fyrsta árið 1913 stofnaði séra Friðrik Friðriksson sérstaka deild innan KFUM fyrir unga drengi og nefndist félagsskapurinn Væringjar. Í upphafi mun ætlunin ekki hafa verið að félagið yrði starfrækt sem skátafélag og til marks um það er t.d. að innblástur í búning félagsmanna var sóttur í íslenskar fornsögur. Séra Friðrik lýsti tilganginum með stofnun Væringja og viðfangsefnum þeirra í blaðinu Lilju, sem Væringjar gáfu út árið 1916:

Hugsjónir þeirra eru þær, að byrja snemma að æfa sig í ýmsum andlegum og líkamlegum íþróttum. Andlegu íþróttirnar, sem þeir eiga að temja sér, eru þær, að læra hlýðni, sannsögli, gott orðbragð, drengskap og kurteisi í framgöngu, sjálfsaga og sjálfsafneitun, trúmennsku í starfi sínu og iðni í námi sínu. Líkamlegu íþróttirnar eru ýmsar, t.d. skotfimi, skátaæfingar, leikfimi, sund og glímur o.s.frv. eftir því, sem þeir eldast og tæki eru til.

Karlmennska og hreysti í orði og verki, andleg og líkamleg, á að vera einkenni þeirra, og með öllu þessu eiga þeir að verða kristnir drengir, sem með fullri vitund og vilja eiga að læra öllu fremur, að elska Guð og þjóna konungi sínum, Jesú Kristi. Litirnir á einkennisbúningi þeirra minna þá stöðugt á þetta. Kyrtillinn, hvítur og blár, minnir þá á fósturjörðina, að þeir séu Íslendingar og vilji verða Íslandi góðir synir. Skikkjan, rauð og hvít, minnir á sakleysi go kærleika, og á það, að þeir eiga að verða stríðsmenn Krists og berjast vasklega á móti sollinum og öllum freistingum. Húfan, rauð og hvít og blá, minnir á Kristilegt félag ungra manna (K.F.U.M.), að verða því góðir liðsmenn og efla það og ástunda allar hugsjónir félagsins.

Séra Friðrik hélt utan í nóvember 1913 og varð að samkomulagi að Axel V. Tulinius, fyrrverandi sýslumaður, tæki að sér stjórn félagsins. Eftir að Axel tók við var starfsháttum að mörgu leyti breytt, og var félagið m.a. gert að formlegu skátafélagi. Tekinn var upp skátabúningur og félagið hóf að starfa eftir reglum Sir Robert Baden-Powells. Þegar leið á annan og þriðja áratug 20. aldar voru fleiri skátafélög stofnuð í landinu og tóku flest þeirra upp þann sið Væringja að nefna félögin sérstöku nafni, í stað þess að nefna félagið eftir þeim stað sem þau störfuðu á.

Heimildir

  • „Úr dagbók Væringjafélagsins“. Skátafélagið Væringjar 25 ára, 1913-1938. Útgefandi skátafélagið Væringjar. Reykjavík 1938.
  • ÞÍ. Skátasafn. Væringjafélagið í Reykjavík. Dagbók 1915-1927.
  • Skátavefurinn – Bandalag íslenskra skáta. “Skátahreyfingin berst til Íslands”. Vefslóð: http://www.scout.is/vefur/default.asp?ItemGroupID=8&ItemID=190.

 

Þetta efni er frá Þjóðskjalasafni Íslands